Hópvitundin var samstillt og við vorum sigurvissir – segir Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks og besti leikmaður Bestu deildarinnar

Það er ekki á neinn hallað þegar sagt er að Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks hafi átt hreint út sagt frábært tímabil og verið besti leikmaður Bestu deildarinnar í ár enda var hann valinn besti leikmaður deildarinnar af leikmönnum Bestu deildarinnar, auk þess sem hann hefur verið valinn bestur á mörgum miðlum.

Höskuldur lék alla 27 leiki Breiðabliks í deildinni og skoraði í þeim níu mörk, en hann var markahæsti leikmaður liðsins í deildinni ásamt Ísaki Snæ Þorvaldssyni. Þótt mörkin segi ákveðna sögu þá er það svo miklu meira sem Höskuldur gefur liðinu, hann fer áfram með góðu fordæmi, er algjörlega óþreytandi inn á vellinum, vinnusamur mjög og einstaklega klókur knattspyrnumaður, en karaktarinn hans er kannski einn af stærstu kostum hans. Hann gefur sig allan í leikinn, bæði hvetur og leiðir liðið áfram sem sannur fyrirliði og kemur einstaklega vel fyrir og smitar þannig út frá sér.

Kópavogspósturinn heyrði hljóðið í fyrirliðanum.

Það var áþreifanlega gott andrúmsloft í hópnum fyrir úrslitaleikinn

Þú sem og aðrir leikmenn Breiðabliks og stuðningsmenn ykkar verða ábyggilega einhverja daga að ná áttum eftir þennan frábæra sigur á Víkingi sl. sunnudag í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn, en við spólum aðeins til baka þá væri forvitanlegt að vita hvernig andrúmsloftið hafi verið innan liðsins og inn í búningsherbergi fyrir leikinn, náðuð þið að beisla spennuna og allt það sem var undir í leiknum? ,,Það má segja að um leið og við sigruðum Stjörnuna 2 – 1 á Kópavogsvelli, í umferðinni á undan úrslitaleiknum, þá var áþreifanlega gott andrúmsloft í hópnum fyrir komandi úrslitaleik. Það kom aldrei neitt annað til greina en að mæta hugrakkir og sækja til sigurs í Víkinni. Að sjálfsögðu fór maður í gegnum mikinn tilfinningalegan rússíbana í þessari viku í aðdraganda leiksins, en heilt yfir létt yfir mönnum og gífurleg tilhlökkun. Þegar við vorum svo mættir á svæðið, í búningsklefann, þá er einfaldlega hægt að segja að hópvitundin var samstillt og við vorum sigurvissir,“ segir Höskuldur.

Aðdragandi leiksins er oft erfiðari tilfinningalega heldur en leikurinn sjálfur

En hvernig leið þér sjálfum inn á vellinum, var þetta stress eða mikil tilhlökkun að spila leikinn og fannst þér það sama eiga við um aðra leikmenn liðsins? ,,Persónulega leið mér bara mjög vel inn á vellinum. Ég náði að njóta augnabliksins og hreinlega gleyma mér í leiknum. Það er oft þannig að aðdragandi leiksins er erfiðari tilfinningalega heldur en leikurinn sjálfur. Ég upplifði að við værum allir á þeim stað, einstaklega einbeittir, tilbúnir að berjast fyrir hvorn annan og kasta öllu sem við áttum í þennan leik. Maður fann strax að við vorum með yfirhöndina í þessum leik.

Maður leyfði hausnum aldrei að fara fram úr sér

Var á einhverjum tímapunkti í leiknum sem þér fannst þið vera með það góð tök á leiknum að þetta væri komið? ,,Ég get í hreinskilni sagt að maður áttaði sig ekki á því að þetta væri komið fyrr en Vilhjálmur flautaði leikinn af. Maður leyfði hausnum aldrei að fara fram úr sér, sérstaklega í ljósi þess að Víkingar hafa sýnt mikinn karakter og styrkleika að koma til baka seint í þessum síðustu leikjum.“

Þvílikir gæjar

Að lyfta skildinum að lokum og fagna Íslandmeistaratitlinum hlýtur að vera eitt, en að auki varstu valinn besti leikmaður Bestu-deildarinnar. Það er mikil viðurkenninga sem þú hlýtur að vera stoltur af, en hverju viltu þakka þessum persónlega árangri þínum og hefur þú breytt einhverju í þínum leik? ,,Það er að sjálfsgöðu mikil viðurkenning fyrir mig að hljóta þessi verðlaun og vil ég þakka kollegum mínum í þessari deild kærlega fyrir útnefninguna. Fyrir mér hefði þessi viðurkenning hins vegar ekki haft jafn mikla þýðingu ef við hefðum mistekist að sigra þennan leik. Það er auðvitað fyrst og fremst aðal viðurkenningin, að vera besta liðið á Íslandi 2024. Ég vil fyrst og fremst þakka mínum kæru liðsfélögum fyrir persónulegum árangri mínum þetta tímabilið, þvílikir gæjar! Auk þess má segja að það sé heilt samfélag á bakvið þessi persónulegu verðlaun; þjálfarateymið, sjúkraþjálfarar, liðstjórar, sjálfboðaliðar, stuðningsmenn, starfsmenn og stjórnarmenn og auðvitað vinir og vandamenn. Kærastan mín, Sara Katrín Farmer, á síðan að sjálfsögðu mestu þakkirnar skilið fyrir að standa við bakið á manni á hverjum degi,“ segir hann og heldur áfram: ,,Nei ég hef breytt voða litlu í mínum leik, bara reynt að halda í þann stöðugleika sem ég hef sýnt í mínum frammistöðum undanfarin tímabil og stefna stöðugt að því að bæta mig.“

Skemmtilegt að fá að upplifa tvær gjörólíkar leiðir að vinna Íslandsmeistaratitilinn

Það eru ekki liðin nema tvö ár síðan þið lönduð Íslandsmeistaratitlinum síðast, eða árið 2022. Var upplifunin sambærileg eða ólík? ,,Það er skemmtilegt að fá að upplifa núna tvær gjörólíkar leiðir, ef svo má segja, að því að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Árið 2022 náðum við snemma góðu forskoti sem við misstum aldrei frá okkur og vorum aldrei líklegir til þess. Eftirminnilega vorum við síðan staddir á „Blikabarnum” þegar við síðan formlega erum krýndir meistarar. Það var ótrúlega gaman og ógleymanleg stund. Við fengum þá nokkra leiki til viðbótar til þess að njóta þess að spila sem meistarar, sem lauk með glæsilegri athöfn á Kópavogsvelli eftir lokaumferðina.
Í ár var miklu meiri háspenna og fólki var farið að dreyma um þennan úrslitaleik þegar það sá að sú birtingamynd gæti raungerst. Maður óskaði þess sjálfur að fá að spila slíkan úrslitaleik, milli þessara tveggja frábæru liða sem hafa barist hart síðustu tímabil. Að sigra mótið síðan í hreinum úrslitaleik á móti okkar verðugu keppinautum, Víkingi, er auðvitað epísk sögulína og eitthvað sem mun lifa lengi í minningu allra Kópavogsbúa og bara almennra knattspyrnuaðdáenda.
Það er eiginlega ekki hægt að gera upp á milli þessara titla. Árið 2022 var auðvitað í fyrsta skipti sem þessi hópur vann og eitthvað sem við höfðum stefnt að í langan tíma. Það gerir hann auðvitað mjög dýrmætan og sérstakan. Titilinn í ár er hins vegar alls ekki síðri þar sem þetta var svo hörð keppni allt fram á lokaleik. Þannig ég hreinlega þori ekki að gera upp á milli þeirra tveggja.“

Besti leikmaður deildarinnar! Höskuldur Gunn-laugsson ásamt Þorvaldi Örlygssyni formanni KSÍ

Liðsheildin mikilvægasta hráefnið í þessum meistarauppskriftum

Og það voru einhverjar breytingar á leikmannahópnum á milli Íslandsmeistaraáranna, en hvort liðið telur þú að hafa verið betra og voru þetta ólík lið og spiluðu þau ólíkan fótbolta? ,,Maður er hreinlega ekki búinn að ná almennilega utan um það og ég hugsa að það þurfi að líða aðeins lengri tími þar til maður getur náð að endurspegla þessi tvö meistaralið, hvað einkenndi þau, hver munurinn var, o.s.frv.,“ segir hann og bætir við: ,,Tilfinningin er hins vegar sú að í báðum tilfellum er hægt að segja að gífurleg liðsheild hafi verið mikilvægasta hráefnið í þessum meistarauppskriftum. Svo er hægt að rýna meira í smáatriðin og þá er til dæmis hægt að sjá að mörg tölfræði er keimlík milli þessara liða, til að mynda markatala og fleira.“

Þetta er náttúrulega lygilega góður árangur hjá honum í fyrstu atrennu

Halldór Árnason tók við sem þjálfari liðsins fyrir einu ári síðan, breyttist þá mikið og er þáttur Dóra stór í þessum titli? ,,Halldór og þjálfarateymið í heild sinni á náttúrulega allt hrós skilið fyrir þetta tímabil. Ég sagði á sínum tíma, þegar Halldór tók við sem aðalþjálfari, að eina leiðin áfram, frá frábærum tíma Óskars með liðið, væri ef Halldór myndi taka við sem aðalþjálfarinn. Frá fyrsta degi var það síðan alveg ljóst að allur leikmannahópurinn var 100% á bakvið Halldór og tilbúnir að hlaupa í gegnum vegg fyrir hann. Þetta er náttúrulega lygilega góður árangur hjá honum í fyrstu atrennu. Ég hugsa að þetta verði ekki leikið eftir í langan tíma,“ segir hann og heldur áfram: ,,Halldóri og þjálfarateyminu tókst að skapa trú í hópnum á að við myndum sigra mótið í ár og það var sannarlega einlæg trú sem skapaðist innan hópsins.“

Blikarnir fengu góðan stuðning af pöllunum, en stuðningsmenn yfirtóku svo stúkuna í Víkinni eftir leikinn

Stefna alltaf að því að verða betri í dag enn í gær, á hverri einustu æfingu og hverjum leik

Það er ávallt mikill metnaður innan Breiðabliks, en hvernig getið þið viðhaldið þessum góða árangri á næsta ári. Þið hafið sjálfsagt eitthvað lært eftir að Íslandsmeistaratitillinn datt í hús 2022 og árið eftir var ekkert sérlega gott? ,,Það er mjög einfalt í eðli sínu að viðhalda góðum árangri og stöðugum og góðum frammistöðum. Það er bara að stefna alltaf að því að verða betri í dag enn í gær, á hverri einustu æfingu og hverjum leik. Það er eina langlífa og sjálfbæra nálgunin til árangurs.“

Á það til að fara fram úr mér og vaða strax í næsta verkefni

Þú talaðir um í viðtali eftir leikinn sl. sunnudag að þú ætlaðir að gefa þér meiri tíma til að njóta þessa Íslandsmeistaratitil en þess síðasta, hvað áttir þú við með því og hvernig verða næstu dagar hjá fyrirliðanum? ,,Jú það sem ég meinti með því er einfaldlega það að ég á til að fara fram úr mér og vaða strax í næsta verkefni og huga að næstu markmiðum. Með aldrinum er ég hins vegar að reyna temja mér að staldra ögn lengur við stóra áfanga og njóta augnabliksins lengur.
Hjá mér tekur nú við nokkuð hefðbundin vinnuvika, en ég fer síðan í langþráða golferð til Orlando með góðum mönnum seinna í nóvember,“ segir hann brosandi.

Og hvernig er svo að vera að vera í félagi eins og Breiðablik? ,,Yndislegt,“ segir fyrirliði Íslandsmeistaranna og besti leikmaður Bestu deildarinnar 2024, Höskuldur Gunnlaugsson að lokum.

Forsíðumynd: Höskuldur ásamt Viktori og Oliver

Höskuldur fór í ófá viðtölin eftir leikinn

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar