HönnunarMars í Kópavogi 19.23. maí

Stærsta hönnunarhátíð landsins HönnunarMars fer fram dagana 19.-23. maí 2021 og verður fjölbreytt dagskrá í boði í Menningarhúsunum í Kópavogi.

Fylgið okkur og GERÐUR esque á Gerðarsafni

Fimmtudaginn 20. maí opnar Gerðarsafn tvær sýningar, þ.e. GERÐUR esque og Fylgið okkur. Listamenn sýningarinnar eru MA nemar í myndlist við Listaháskóla Íslands. Gerðarsafn bauð MA nemum við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands að bregðast við listsköpun og persónu Gerðar Helgadóttur. Nemarnir fengu innsýn inn í safneignina og rannsökuðu hinar margvíslegu hliðar á lífi og listrænu starfi Gerðar. Efniviður, viðfangsefni og tækni Gerðar sem og stofnunin sjálf sem geymir verk hennar varð að lokum að innblæstri fyrir þeirra eigin listsköpun. Sýningarstjórar eru MA nemar í sýningargerð við Listaháskóla Íslands og í listgagnrýni og sýningarstjórnun við Háskóla Íslands.

Tvær sýningar opna á Gerðarsafni fimmtudaginn 20. maí

Sýningin Fylgið okkur teflir fram völdum verkum frá nýjum og upprennandi íslenskum hönnuðum sem eru nýsprottnir fram á sjónarsviðið. Hönnuðirnir eiga það sammerkt að hafa með sínum fyrstu verkum vakið athygli og eftirvæntingu, hver á sínu sviði. Sýnendur eru Anna Diljá Sigurðardóttir upplýsingahönnuður, Arnar Grétarsson arkitektúrnemi, Arnar Már Jónsson fatahönnuður, Búi Bjarmar Aðalsteinsson vöruhönnuður, Helga Lára Halldórsdóttir fatahönnuður, Jóna Berglind Stefánsdóttir textílhönnuður, Sigríður Birna Matthíasdóttir hönnuður, Sólveig Hansdóttir fatahönnuður, Steinarr Ingólfsson grafískur hönnuður og Valdís Steinarsdóttir vöruhönnuður. Sýningarstjóri er Sara Jónsdóttir, fyrrum stjórnandi HönnunarMars.

Uppskeruhátíð ÞYKJÓ

ÞYKJÓ eru staðarlistamenn Menningarhúsanna í Kópavogi í ár og hafa undanfarna mánuði unnið að gerð kyrrðarrýma, hreiðra og búninga sem verður hægt að skoða og upplifa á HönnunarMars í Menningarhúsunum í Kópavogi.

Þykjó teymið

Miðvikudaginn 19. maí munu hönnuðir ÞYKJÓ mæta í Salinn á kl. 12:15 og segja frá verkefnum og innsetningum sem eru til sýnis á HönnunarMars 2021.

Í Gerðarsafni verður hægt að njóta og fara inn í undurfalleg Kyrrðarrými, innblásin af kuðungum, skeldýrum og skúlptúrum Gerðar Helgadóttur. Kyrrðarrýmin eru ný íslensk húsgögn sem eru ætluð til gæðastunda fyrir börn og fjölskyldur. Fimmtudaginn 20. mars mun svo Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari, ljóðskáld og jógakennari leiða tónlistar- og hugleiðslustund í tengslum við Kyrrðarrýmin í Gerðarsafni.

Í fordyri Salarins verður hægt að skoða innsetninguna Fuglasöngvar sem er unnin í samstarfi við Blindravinnustofu og Sóleyju Stefánsdóttur tónlistarkonu. Laugardaginn 22. maí kl. 13:00 mun Sóley svo bjóða upp á fuglatónlistarsmiðju í tengslum við innsetninguna.

Fjölnotasalnum á fyrstu hæð Bókasafnsins og Náttúrufræðistofu Kópavogs er umbreytt í töfraveröld þar sem börn geta komið og brugðið sér í gervi fjölskrúðugra dýra. Búningarnir eru hannaðir með það í huga að þeir passi börnum á ólíkum aldursskeiðum. Sunnudaginn 23. maí kl. 13:00 verður boðið upp á Dansíókí-danssmiðju með Aude Busson dansara og sviðshöfundi inn í sýningunni í fjölnotasalnum en sýningin hefur hlotið heitið Ofurhetjur jarðar.

Það verður því fjölmargt í boði í Menningarhúsunum í Kópavogi á HönnunarMars í ár.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar