Hollusta og bragðgóður matur þurfa ekki að útiloka hvort annað segir Ingibjörg sem hefur opnað Pure Deli í Bæjarlindinni í Kópavogi

Pure Deli hefur á undanförnum árum skapað sér sérstöðu í íslenskum veitingarekstri með áherslu á ferskan, hollan og bragðgóðan mat. Ingibjörg Þorvaldsdóttir, eigandi og stofnandi Pure Deli, hefur stýrt þessu verkefni frá árinu 2017 og ástríða hennar fyrir góðri næringu og vellíðan skín í gegnum allt sem staðurinn býður upp á. Hún var nýlega að opna glænýjan stað í Bæjarlind 14-16 í Kópavogi, eftir að hafa áður verið með stað í Urðarhvarfi.

Kópavogspósturinn/Garðapósturinn hitti hana til að ræða nýju staðsetninguna, hvað gerir Pure Deli einstakan, vinsælustu réttina, og hvers vegna hún leggur svona mikla áherslu á hollustu, en þess má geta að tveimur mánuðum eftir brunann í Urðarhvarfi þá opnaði hún Pure Deli í bláu húsunum Skeifunni. Hann hefur notið vaxandi vinsælda og verður áfram svo nú er Pure Deli á tveimur stöðum.

Hjartað slær að miklu leyti í Kópavogi

En hvernig líður henni að vera komin aftur með stað í Kópavogi? ,,Ég er alveg rosalega ánægð að vera komin aftur í Kópavoginn. Hér stóð ég í sex ár í Urðarhvarfinu og staðurinn blómstraði þar með hverju árinu svo við erum í grunninn Kópavogstaður. Hér á svæðinu þekkja okkur allir og hjartað slær hér að stóru leyti,” segir hún brosandi.

Okei, ef þetta getur gerst þá langar mig ekki að standa aftur í þessu

Var alltaf planið að opna aftur í Kópavogi eftir að þú þurftir að loka í Urðarhvarfi? ,,Til að byrja með var ég nú ekki viss með hvað ég vildi hreinlega gera því áfallið var svo mikið. Á nokkrum mínútum horfði ég á staðinn gjöreyðileggjast eftir að eldur kom upp hjá nágranna okkar sem barst yfir til okkar og olli altjóni. Eftir margra ára blóð, svita og tár og margar vinnustundir við að byggja staðinn upp þá var fyrsta hugsun bara, okei, ef þetta getur gerst þá langar mig ekki að standa aftur í þessu. En svo nær maður ró með tímanum og þá var ég alveg ákveðin að ég vildi aftur opna í Kópavogi.”

Staðurinn er einstaklega fallega innréttaður í Bæjarlindinni

Bæjarlindin aðgengileg fyrir alla Kópavogsbúa og einnig Garðbæinga og Hafnfirðinga

Af hverju varð Bæjarlindin fyrir valinu, en ekki Urðarhvarf eða Vatnsendahverfið? ,,Ég fann bara að ég vildi nýtt umhverfi eftir þetta, við þurftum líka að hreinsa sjálf út rústirnar í Urðarhvarfinu eftir brunann og það breyttist allt, orkan var ekki söm þetta reyndi mikið á. Ég var með hugann við Bæjarlindina því hún er aðgengileg fyrir alla Kópavogsbúa og einnig Garðbæinga og Hafnfirðinga. Ég var ekki að leita beint og ætlaði bara að sjá hvað kæmi til, en svo vildi kærastinn minn sýna mér þetta húsnæði og ég bara kíkti inn í kannski tvær mínútur, tók einn hring og sá strax að þetta var málið,” segir Ingibjörg.

Fannstu fyrir þrýsting frá Kópavogsbúum að opna Pure Deli aftur í bænum? ,,Já, mjög mikið, alveg síðan þetta gerðist þá hefur fólk spurt gríðarlega mikið hvenær við komum aftur í Kópavog. Ég hef líka bara fundið svo mikinn hlýhug frá fólki sem er svo ómetanlegt og gerði það enn meir að verkum að ég vildi opna aftur og finna rétta húsnæðið hér.”

Pure Deli er í Bæjarlind 14-16

Ég legg mikið upp úr að heildarupplifunin sé til staðar, fallegur matur í fallegu umhverfi

En hefur Pure Deli alltaf lagt áherslu á hollan og ferskan mat. Hvers vegna er þetta svona mikilvægt fyrir þig, að bjóða upp á hollan og góðan mat eða fannst þér þetta bara vanta inn í veitingaflóruna þegar þú opnaðir árið 2017? ,,Í raun bæði, ég hef sjálf mikinn áhuga á hollu mataræði og borða mest salöt og drekk ferska safa sjálf. Mig langaði að opna stað í Kópavogi sem byði uppá hollan mat og ferska safa ásamt því að geta komið í huggulegt umhverfi og fengið líka kaffi, kökur, toast, vefjur og fleira. Ég legg mikið upp úr að heildarupplifunin sé til staðar, fallegur matur í fallegu umhverfi,” segir hún.

Hefur matseðillinn breyst mikið frá því að þú opnaðir fyrst árið 2017 eða var hinn fullkomni matseðlii fundinn strax árið 2017? ,,Eitthvað hefur hann breyst en þó ansi svipaður og til að byrja með. Í dag erum við líka mikið með fyrirtækjapantanir og veislur og því höfum við mikið aðlagað matinn okkar að því. Svo er alltaf gaman að vera að prufa eitthvað nýtt en það þarf að passa sig og halda gæðunum og því er mikilvægast að halda vinsælu réttunum eins og leggja mesta áherslu á það. “

Salötin og safarnir eru mjög vinsælir á Pure Deli

Avocado chicken, Indian chicken og Pakiastani chicken vefjurnar eru alltaf vinsælastar

Hverjir eru vinsælustu réttirnir hjá ykkur í dag og eru þetta réttirnir sem hafa verið vinsælastir í gegnum árin? ,,Avocado chicken, Indian chicken og Pakiastani chicken vefjurnar eru alltaf vinsælastar, salötin eru svo að sækja í sig veðrið mikið og þá er Pure deli salatið í fyrsta sæti. Safarnir eru eitt af okkar aðalsmerkjum og vinsælir alla daga enda bragðgóðir, ferskir og hollir. Svo erum við með brunchplatta um helgar sem eru ótrulega fallegir og góðir og hafa verið vinsælir í mörg ár,” segir Ingibjörg.

Svolítið magnað hvað fólk er fastheldið

Hefurðu tekið eftir einhverjum sérstökum breytingum í matarvenjum viðskiptavina þinna síðustu ár – eða ríghalda þeir í það sama? ,,Það er nú svolítið magnað hvað fólk er fastheldið og kemur oft og pantar alltaf sama réttinn svo nei ekki mikið af breytingum nema hversu margir karlmenn eru byrjaðir að borða salatið sem er ánægjulegt að sjá. Salatið okkar er matarmikið og bragðgott svo að það höfðar til margra. Við erum með sérstaka safahreinsun líka sem eru mjög detoxandi safar sem koma í þriggja daga skammt og eru pantaðir með sólahrings fyrirvara. Fyrir nokkrum árum var það bara í janúar og september sem viðskiptavinir sóttu í þetta en nú erum við með margar pantanir á hverjum degi allt árið í safahreinsunar kassa.”

Hver er þinn eigin uppáhaldsréttur á matseðlinum og hvaða djús velur þú oftast? ,,Deli Ingu salatið er salatið mitt og uppáhald og detox safinn ég drekk hann helst alla morgna.”

Uppistaðan í mínu fæði er grænmeti, ávextir, safar og allskyns prótein með

Hugar þú sjálf mikið að heilsunni s.s. bæði er kemur að mataræði og hreyfingu? Hvernig gerirðu það í daglegu lífi? ,,Já, ég borða helst bara hollt fæði og huga mikið að því alla daga, uppistaðan í mínu fæði er grænmeti, ávextir, safar og allskyns prótein með. Ég fer mikið í sund, göngutúra, ræktina og er nýlega byrjuð að stunda jóga líka og finnst það æðislegt. Mér finnst þetta allt svo skemmtilegt og geri eitthvað á hverjum degi af þessu,” segir hún brosandi.

Brunch, veisluþjónusta og safahreinsun

Fyrir utan hefðbundinn matseðil að þá ertu líka með sérstakan helgarbrunch – er hann hjá vinsæll hjá fjölskyldum og um hvað erum við að tala? ,,Já, við erum með brunchplatta sem sagt allt á einum platta, ristað súrdeigsbrauð með avocado, serrano skinku & Indian chicken, klettasalti & pestó. Svo eru ávextir, grískt jógúrt, belgísk vaffla, nýpressaður appelsínu safi og kaffi. Plattan er einnig hægt að fá vegan og gluteinlausan. Svo er barnaplattin mjög vinsæll með vöfflu, croissant, ávöxtum og ferskum safa. Svo eitthvað fyrir alla í boði og hugsuninn á bakvið plattan er að allir geti setið saman og notið um helgar. Plattinn er einstaklega fallegur og góður og erum við stolt af því að bjóða okkar viðskiptavinum þessa skemmtilegu tilbreytingu á laugardögum og sunnudögum. Svo er einnig hægt að fá hann í “take away” sem getur líka verið skemmtilegt af og til.”

Og þá hafa safahreinsanir verið stór hluti af Pure Deli frá upphafi. Hvernig virka þær og hvaða ávinningur fylgir þeim? ,,Við byrjuðum með safaheinsun 2018 og hefur hún verið ört vaxandi síðan þá. Safahreinsun er þriggja daga skammtur af mjög hreinsandi söfum sem eru drukknir jafnt í þessa þrjá daga og fastað á meðan, hægt er að fara fleiri leiðir og vinsælt er að drekka eingöngu safa yfir daginn og borða svo eitt salat á kvöldin með. Ég mæli líka með að fólk byrji á að taka einn dag eða tvo til að byrja með og fara svo uppí þrjá þegar það treystir sér til. Safarnir gefa strax vellíðan og þeir sem hafa prufað hafa fundið hversu mikið orkan eykst og það kemur einmitt flestum á óvart margir halda að þeir verði þreyttir en það er ekki svo. Safarnir eru góð leið til að koma sér af stað t.d ef maður er fastur í fari sem lætur manni ekki líða nógu vel eða langar að heinsa líkaman, minnka bólgur og fá vítamínbombu í sig. Svo er líka gaman að segja frá því að safarnir eru fínir á bragðið og allir geta drukkið þá,” segir Ingibjörg.

Pure Deli safi

Hvaða safar hafa verið vinsælastir meðal viðskiptavina? ,,Við erum með 5 tegundir af söfum í “ take away” kælinum hjá okkur og þessir safar eru alltaf fáanlegir alla daga. Vinsælastir þar eru græni safinn epli, spínat, engifer & sítróna, Rauðrófusafinn er líka mjög vinsæll og mjög góður í honum er rauðrófa, epli, sítróna & engifer en get annars klárlega mælt með þeim öllum, þeir eru bragðgóðir, ferskir og hollir.”

Þá hefur veisluþjónustan ykkar vaxið mikið. Hvernig virka veislubakkarnir ykkar og fyrir hvaða tilefni henta þeir best? ,,Já klárlega og það er einmitt sá partur sem er mjög ört vaxandi núna, fyrirtækin eru að panta mikið fyrir starfsmenn í hádeginu vefjubakkana og ferska safa og einnig fyrir allskyns fundi þá eru oft teknir snittubakkar, partý bakkar og kökubakkar en þessir bakkar eru líka mjög vinsælir í veislur og allskyns viðburði. Við bjóðum líka uppá hollari valkosti eins og avocado toast bakka, lítil lúxus jógúrt, ávexti o.fl. sem er vinsælt fyrir t.d morgunfundi. Svo við bjóðum uppá ýmislegt fyrir allskonar viðburði og fáum allskonar fyrir-spurnir sem við reynum að sjálfsögðu að verða við,” segir hún.

Ekki í kortunum að opna fleiri staði

Hefur þú í hyggju að opna fleiri staði í framtíðinni og hefurðu ákveðna staðsetningu í huga? ,,Ég er ekki með það í kortunum núna, ég vil fylgja þessum tveim stöðum vel eftir núna en mögulega eftir einhvern tíma og ég væri þá að horfa á miðbæinn í Reykjavík eða mögulega annað bæjarfélag eins og t.d. Selfoss þar sem fólksfjöldinn fer stækkandi á því svæði og þar er svo mikil umferð af fólki allt árið um kring.”

Hver er svo stærsta áskorunin við að reka svona veitingastað í dag? ,,Stærsta áskorunin! Ég veit ekki hvort hún hafi breyst með árunum, en fyrir mér er hún alltaf að halda gæðum matarins, þjónustunnar og heildarupplifun viðskiptavinarins. Ég er lánsöm að vera með dásamlegt starfsfólk sem kappkostar af miklum metnaði alla daga með mér að fylgja þessum gildum. “

Borðar Pure deli nánast daglega

Hvernig er það svo heima hjá Ingibjörgu, er eingöngu Pure Deli á matseðlinum og hvað gerir Ingibjörg þegar hún vill gera vel við sig þegar kemur að mat? ,,Já, ég borða Pure deli nánast daglega og það er minn uppáhaldsmatur, en ég elska líka allan fisk og er alltaf með fisk á mánudögum. Mér finnst æðislegt að fá humar, lamb og nautakjöt um helgar og þá alltaf gott salat með, en ég borða salat með öllu og finnst það best. Ég vil helst bara mat sem mér líður vel á eftir,” segir Ingibjörg að lokum og bætir við að það sé mikil gleði að vera komin aftur í Kópavog og hún hlakki til að taka á móti nýjum og gömlum viðskiptavinum.

Það er greinilegt að Pure Deli heldur áfram að vera staður þar sem hollusta, ferskleiki og góð upplifun fara saman og greinilegt að hollusta og bragðgóður matur þurfa ekki að útiloka hvort annað. Miðað við viðtökurnar fyrstu dagana þá virðist nýja staðsetningin í Bæjarlind strax vera búin að finna sinn sess.

Forsíðumynd: Ingibjörg er virkilega ánægð með að vera búin að opna aftur í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins