Ein megináhersla meiri hluta bæjarstjórnar Kópavogs er að standa vörð um grunnþjónustu á krefjandi tímum. Skoða þarf betur þróun leikskólamála, með mikilvægustu grunnþjónustu hvers sveitarfélags, og hvað veldur því álagi sem herjar á kerfið í dag. Leikskólakerfið er komið að þolmörkum
Viðloðandi starfsmannaskortur blasir við. Það vantar fagfólk til að uppfylla lögbundnar kröfur um að lágmark 2/3 hluta starfsfólks leikskóla skuli vera fagmenntaður. Stytting vinnutíma setur strik í starfsmannahaldið þar sem afleysing vegur ekki á móti. Börn á Íslandi eru í litlu rými, skóladagar hjá leikskólabörnum eru langir, þ.e. að meðaltali rúmar 40 – 42 klst. vinnuvika, auk þess sem börn á Íslandi eru flesta daga ársins í skólanum miðað við samanburð landa innan OECD.
Leikskólabarn á Íslandi dvelur bróðurpartinn af sínum vökutíma í leikskólanum, sem leiðir til færri samverustunda foreldra og barna. Það má velta fyrir sér hve mikið er nóg eða jafnvel hvað er of mikið. Við þurfum að skoða betur þær aðstæður sem börnin okkar eru í. Í mörgum leikskólum eru aðstæður hlaðnar áreitum, sem óþroskaður framheili barns nær ekki að vinna úr. Hvað þá í rúmar 8 klukkustundir á dag í litlu rými flesta virka daga ársins. Slíkar aðstæður geta haft áhrif á einbeitingu og úthald og aukið framleiðslu líkamans á kortisol, sem er streituhormón.
Leikskólinn er fyrsta skólastigið og starfar samkvæmt lögum við að tryggja börnum gæða menntun, uppeldi og umönnun með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Atvinnulífið kallar eftir því að leikskólinn sé þjónustustofnun og starfi samkvæmt þörfum vinnumarkaðarins. Hagsmunir barna og hagsmunir vinnumarkaðar fara því stál í stál miðað við núverandi aðstæður. Því er nauðsynlegt að skilgreina betur hvað er grunnþjónusta leikskóla og hvað er umframþjónusta svo hægt sé að forgangsraða þjónustu betur til framtíðar.
Meiri hlutinn hefur sett á laggirnar starfshóp með fulltrúum foreldra, kennara, stjórnenda, einn frá meirihluta og einn frá minnihluta, ásamt forystufólki félaga FSL, FL og SFK. Starfshópurinn hefur þegar hafið störf og áætlað er að vinnu ljúki í byrjun apríl næstkomandi. Bundnar eru vonir um að geta skilgreint starfsemi leikskólanna til framtíðar með velferð barna að leiðarljósi.
Sigrún Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og leikskólastjóri.