Um 400 nemendur úr 4. bekkjum grunnskóla Kópavogs hafa lagt leið sína á Bókasafn Kópavogs í höfundaheimsókn í nóvember.
Fengu nemendur kynningu á bókasafninu hjá Grétu Björg, deildarstjóra barnastarfs og hittu síðan Gunnar Helgason. Gunnar klikkaði ekki að vanda og skemmtu nemendur og kennarar sér vel yfir upplestri og bókaspjalli um gamlar og nýjar bækur Gunnars. Náði Gunnar að koma heilmiklum umræðum af stað um bókasöfn, bækur og mikilvægi lesturs með frábæru skopskyni og hlýju. Aðalpersóna nýjustu barnabókar Gunnars, Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja er Alexander, drengur með ADHD sem býr einn með pabba sínum. Fjallar bókin um þá feðga, stelpu- og strákamál, ástina og að komast áfram í lífinu þegar fólk hverfur á brott. Þökkum kærlega fyrir frábærar stundir, Gunnar og fjórðubekkingar!