Hjólandi Blikar í keppnisferð á Spáni

Í byrjun maí fór 30 manna hópur frá Hjólreiðadeild Breiðabliks í skipulagða vikuferð til Girona á Spáni til að taka þátt í gravel keppni sem heitir The Traka. Keppnin býður upp á mismunandi vegalengdir á þremur dögum, allt frá 50 km til 360 km í gríðarlega fallegu landslagi. Hópurinn var búinn að æfa stíft allan veturinn og var vel undirbúinn fyrir keppnina. Veðurspáin var aftur á móti ekki mjög glæsileg fyrir keppnina og var búið að rigna mjög mikið dagana áður en hópurinn fór út. Einnig var búið að spá rigningu þá daga sem keppnin átti að vera. En lukkan var með hópnum og sólin skein á meðan keppnin stóð yfir. Samtals hjóluðu þessir 30 hjólarar alls 5.640 km í The Traka sem er eins og að hjóla tæplega fjórum sinnum hringveginn. Þess má geta að við áttum fjóra hjólara sem tóku þátt og kláruðu 360 km keppnina, þau Gumma, Ingvar, Írisi og Valborgu. Hinir dagarnir voru nýttir vel til að hjóla í sól og hita. Fólk hópaði sig saman eftir getustigi og var duglegt að stoppa á kaffi- og veitingahúsum til að næra sig og vökva. Eftir frábærlega heppnaða ferð er stefnan klárlega að fara í fleiri svona ferðir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar