Í aðdraganda kosninga nú hefur komið upp umræða um það að með ákvörðun einstaklinga um að stofna til atvinnurekstrar komist þeir í vænlega stöðu í skattalegu tilliti og greiði minna til samfélagsins en aðrir. Blasi því við að þarna sé fundin féþúfa skattheimtumanna.
Hér er um ræða misskilning á því hvernig skattkerfið virkar, en ekki síður er gert lítið úr mikilvægi þess framtakssama fólks sem leggur í þá vegferð að stofna til atvinurekstrar.
Þegar fólk ákveður að stofna fyrirtæki, fylgir því oftast áhætta. Áhætta sem getur falist í fjárfestingum, vinnuframlagi, tíma og orku, og oft eru fyrirtæki ekki arðbær fyrstu árin. Fyrirtækjarekstur krefst mikillar skuldbindingar og er áhættusamur. Ef fyrirtækið gengur vel og hagnast þá kemur til greiðslu tekjuskatts fyrirtækja sem er nú 21%. Ef hagnaður er greiddur út úr fyrirtæki sem arður til eigenda þá er greiddur fjármagnstekjuskattur sem nemur 22% í tilviki einstaklinga. Virk skattprósenta er því 38,4% (21% + 79%*22%) og því skatthlutfall hærra en á launatekjur flestra einstaklinga. Þá er ekki tekið tillit til þess að rekstur fyrirtækja er áhættusamur og óvissa er um afkomu fyrirtækja og eigenda. Frumkvöðull sem stofnar fyrirtæki þarf jafnframt að reikna sér laun og greiða af þeim skatta og lögbundin gjöld.
Það er því enginn sérstakur skattalegur hvati til þess að ráðast í eigin atvinnurekstur fremur en að ráða sig í launað starf.
Samkvæmt skýrslu Reykjavík Economics þá eru langflest fyrirtæki eða tæplega 98% lítil og meðalstór. Einkahlutafélög eru yfir 47.000 og hlutafélög eru innan við 500 samkvæmt tölum frá hagstofunni. Þetta eru fyrirtæki sem hafa verið byggð upp af dugnaði og elju.
Ef við viljum halda áfram að hvetja til nýsköpunar þá viljum við að fólk fylgi eftir hugmyndum sínum og taki þá áhættu sem því fylgir í þeirri von að það takist að skapa verðmæti. Það mikilvægasta við nýsköpun er að hún skapar lausnir við áskorunum og opnar nýja möguleika. Nýsköpun getur leyst vandamál, aukið efnahagsvöxt, bætt lífsgæði og þar með verið hluti af því að tryggja framtíð samfélagsins. Að sama skapi er auðvelt með flóknu og íþyngjandi regluverki að draga úr nýsköpun. Það var slæmt þegar fráfarandi ríkisstjórn hækkaði fjármagnstekjuskatt úr 20% í 22%, og latti þannig framtakssemi og nýsköpun. Hugmyndir Samfylkingarinnar um að ætla sér að hækka þennan skatt í 25%, letja enn frekar. Skattkerfið þarf að vera sanngjarnt og af framansögðu er ljóst að þeir einstaklingar sem stofna einkahlutafélög borga fyllilega sinn skerf til samfélagsins. Miðflokkurinn vill hvetja til framtakssemi og nýsköpunar. Þannig sköpum við verðmæti fyrir samfélagið, og fyrir áhugasama um skatttekjur, þá aukast þær með aukinni verðmætasköpun jafnvel þótt skatthlutföll séu lækkuð fremur en hækkuð.
Látum skynsemina ráða.
Stöndum með framtakssömu fólki og gerum rekstrarumhverfi fyrirtækja hvetjandi, fyrirsjáanlegt og sanngjarnt.
Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir
Höfundur skipar 2. Sætið á lista Miðflokksins í SV kjördæmi (Kraginn)