Heimsmarkmiðavísitala Kópavogsbæjar

Heimsmarkamiðavísitala Kópavogs hefur verið samþykkt af Bæjarstjórn Kópavogs.

Heimsmarkmiðin eru leiðarljós flestra þjóða heims til ársins 2030 og mynda þau jafnvægi á milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu og endurspeglast það í mælikvörðum vísitölunnar.
 
Vísitalan mælir þróun á stöðu innleiðingar á þeim Heimsmarkmiðum sem Kópavogur hefur forgangsraðað en þau eru 15 af 17 alls, auk þess að mæla þróun á stöðu innleiðingar á 36 yfirmarkmiðum Kópavogs sem forgangsraðað hefur verið úr 169 undirmarkmiðum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.  
 
Vísitalan er vistuð í upplýsingakerfi sem upplýsingatæknideild Kópavogs hefur þróað sérstaklega síðustu ár og ber nafnið Nightingale. 
Sem dæmi um það sem hægt er að skoða í upplýsingakerfinu má nefna mælingar sem varpa ljósi loftgæði og meðhöndlun úrgangs en með því að draga upp stöðuna í þessum málum með mælingum er auðveldara að vinna að umbótum í málaflokkum.   
 
„Heimsmarkmiðavísitala Kópavogs er áfangi í því mikilvæga starfi okkar hjá Kópavogi að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem leiðarljós í okkar starfsemi samfélaginu til heilla.  Með henni fáum við sýn á það hver staðan er í ákveðnum þáttum samfélagsins og munum leitast við að aðgerðir okkar leiði til jákvæðrar þróunar á næstu árum,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Heimsmarkmiðavísitalan byggir á mælikvarðasetti Sameinuðu þjóðanna fyrir Heimsmarkmiðin og aðferðafræði OECD um mælingar fyrir svæðisstjórnir og borgir um innleiðingu á Heimsmarkmiðunum.  Kópavogur hefur verið þátttakandi í verkefni OECD, ásamt um níu öðrum borgum eða landshlutum um heim allan, sem hefur það meðal annars að markmiði að búa til samanburðarhæfar mælingar milli sveitarfélaga. Sjá má skýrslu OECD um Kópavog hér.
 
Leitast er við að nota staðlaða mælikvarða eða mælikvarða sem nú þegar eru algengir við mælingu á Heimsmarkmiðunum. Fjöldi mælikvarða í vísitölunni er 94.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar