Heilsuhringurinn við Kópavogskirkjugarð

Klukkan 13.00 fimmtudaginn 23. september verður heilsuhringurinn í kringum Kópavogskirkjugarð vígður formlega.

Af því tilefni verður nýtt skilti við hringinn afhjúpað en það stendur á  horni Fífuhvamms- og Arnarnesvegar. Að lokinni afhjúpun skiltisins verður Heilsuhringurinn genginn undir stjórn Friðriks Baldurssonar, garðyrkjustjóra Kópavogs.

Viðburðurinn er hluti af íþróttaviku Evrópu en í ár tekur Kópavogsbær í fyrsta sinn þátt í vikunni. Boðið upp á sjö viðburði í Kópavogi sem stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu. Öll velkomin. 

Heilsuhringurinn er 1,5 km langur og hafa verið settar við hann merkingar með 100 metra millibili til að auðvelda fólki að átta sig á vegalengdum. Með reglulegu millibili eru 10 áningarstaðir með setbekk þannig að leiðin hentar vel þeim sem heilsu sinna vegna þurfa reglulega að tylla sér og kasta mæðinni.

Vatnspóstur eða drykkjafontur er einnig á Heilsuhringnum, nærri Lindakirkju. Þá er að finna æfingartæki á heilsuhringnum fyrir þá sem vilja auka þrek sitt.

Í Kópavogi er lögð áhersla á að byggja upp fjölbreytt útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa. Bærinn hefur frá árinu 2015 verið heilsueflandi samfélag og árið 2017 var samþykkt lýðheilsustefna sem hefur þá megináherslu að skapa umhverfi sem hvetur til útivistar og hreyfingu.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar