Um þessar mundir fagnar Heilsugæslan Hvammur 25 ára starfsafmæli. Í tilefni þess mun heilsugæslan bjóða upp á opið hús föstudaginn 31. maí kl. 16-18. Boðið verður upp á bangsaspítala fyrir börnin, blóðþrýstingsmælingar, almenna kynningu og léttar veitingar.
Upphaf heilsuverndar í Kópavogi má rekja til 1970 þegar Sjúkrasamlag Kópavogs leigði húsnæði við Digranesveg undir læknastarfsemi og heilsuvernd. Fyrsta heilsugæslan í Kópavogi sem opnaði formlega 1980 í Fannborg 7-9. Kópavogur óx hratt og um 1990 var orðin þörf á stækkun. Eftir talsverða tregðu í kerfinu var loks ákveðið að byggja nýja heilsugæslustöð og var henni valinn staður í móunum beint á móti Gullsmára. Uppbygging gekk rólega og var húsið nær fullbúið 1997 en opnaði ekki formlega fyrr en 1999. Í Hvammi er jafnan mikið um að vera. Sem dæmi koma daglega um 105 einstaklingar sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, um 65 símtöl eru afgreidd og um 95 samskipti eru afgreidd í gegnum heilsuveru. Boðið er upp á hefðbundna heilsugæsluþjónusta ásamt sérhæfðari þjónustu s.s. lífsstílsmóttöku og ráðgjöf lyfjafræðings og sjúkraþjálfa. Heilsuverndin styður við fjölskyldur í mæðravernd, ung- og smábarnavernd og skólaheilsugæslu í Smáraskóla og Álfhólsskóla. Móttaka fyrir bráð erindi er opin kl. 8-14 alla virka daga og síðdegisvaktin er kl. 16-17 mánudaga-fimmtudaga. Nokkuð margir nemar á heilbrigðissviðum koma og eru hjá okkur einhvern tíma, sem skapar skemmtilegt andúmsloft og tilbreytingu fyrir starfsfólk og skjólstæðinga. Móttökuritarar, heimilislæknar ásamt hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, sjúkraþjálfa og lyfjafræðingi bjóða alla velkomna. Við veitum samfellda þjónusta með hag einstaklingsins og fjölskyldunnar í huga. Fagleg afstaða er tekin til allra erinda og annað hvort leyst úr þeim á staðnum eða ráðlagt um önnur úrræði.
Frekari upplýsingar um starfsemi á heilsugæslunni Hvammur má sjá á heilsugaeslan.is
Með kveðju,
Sigrún Kristín Barkardóttir