Heildarvelta knattspyrnudeildar Breiðabliks nálgast milljarð

Knattspyrnudeild Breiðabliks hagnaðist um 157 milljónir króna árið 2022 og jókst hagnaðurinn um 110 milljónir króna á milli ára því hagnaður ársins 2021 var 47 milljónir.

Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins kr. 353.988.280 og bókfært eigið fé í árslok 2022 er kr. 233.790.569. Eiginfjárhlutfall félagsins er 66%. Þetta kemur fram í ársreikning félagsins, en framhaldsaðalfundur knattspyrnudeildar var haldinn 9. mars sl., Aðal starfssemi knattspyrnudeildar Breiðabliks snýr að rekstri meistaraflokka karla og kvenna ásamt öflugu unglinga og afreksstarfi

Leikmenn seldir fyrir 117 milljónir króna

Breiðablik seldi leikmenn fyrir 117 milljónir króna og jukust tekjur vegna félagsskipta um tæpar 50 milljónir frá árinu 2021, en þá voru seldir leikmenn fyrir 70 milljónir en fyrir 117 milljónir árið 2022.

Heildarveltan nálgast milljarð

Heildarvelta knattspyrnudeildar fór úr 673 milljónum króna árið 2021 í 902 milljónir árið 2022 og jókst þar með um 230 milljónir á milli ára. Rekstrargjöld námu 746 milljónum króna árið 2022, en hann var 625 milljónir króna árið 2021 og jókst því um 120 milljónir á milli ára. Kostnaður vegna þjálfunar, leikmanna og yfirstjórnar var 531 milljón króna og þá var kostnaðurinn vegna þátttöku í mótum tæpar 137 milljónir, en hann lækkaði um 3 milljónir á milli ára. Þá má geta þess að skrifstofu og stjórnunarkostnaður var aðeins 24 milljónir og lækkaði hann aðeins á milli ára.

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks og Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ er Breiðablik fékk Íslandsmeistaratitilinn afhentan í fyrra

Leikmenn metnir á 35 milljónir

Leikmenn Breiðabliks eru metnir á rúmar 35 milljónir króna samkvæmt eignareikningi, en þeir voru metnir á 22 milljónir króna árið 2021. Eins og áður segir þá voru leikmenn seldir fyrir 117 milljónir króna árið 2022 þótt þeir væru metnir á 21 milljón samkvæmt ársreikningi frá 2021 svo það er ekki ólíklegt að það leynist fleiri gullmolar í leikmannahópi karla- og kvennaliðs Breiðabliks, sem eiga eftir að hækka verðmatið á leikmönnum fyrir árið 2023.
Þá er einnig áhugavert að verðbréfaeign knattspyrnudeildar er 178 milljónir króna en samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2021 var verðbréfaeign 0 krónur.

Höfðingleg gjöf Guðmundar Óskarssonar

Á árinu fékk knattspyrnudeild höfðinglega gjöf, en við andlát Guðmundar Óskarssonar arfleiddi hann deildina að stórum hluta eigna sinna. Það voru um 204 milljónir sem komu í hlut deildarinnar og samkvæmt ákvörðun stjórnar þá var það sett í sjóð sem verður notaður til góðra verka en allar úthlutanir úr sjóðnum þarf að bera undir stjórn.

Haldið er utan um sjóðinn á sérstökum eiginfjárreikningi. Guðmundur er einn af stofnendum Breiðabliks og starfaði fyrir félagið um árabil, meðal annars sem gjaldkeri. Þá var hann gerður að sérstökum heiðursfélaga Breiðabliks árið 1990.

Eigið fé knattspyrnudeildar Breiðabliks er tæpar 224 milljónir og skiptir gjöf Guðmundar þar miklu máli en skuldir deildarinnar eru 120 milljónir. Eigið fé og skuldir hljóma því samtals upp á 354 milljónir króna.

Valur tapaði 67 milljónum í fyrra

Árið 2022 var gott hjá knattspyrnudeild Breiðabliks, en meistaraflokkur karla varð Íslandsmeistari í knattspyrnu auk þess sem liðið stóð sig vel í Evrópukeppninni. Meistaraflokkur kvenna lenti í 3. sæti, sem voru reyndar ákveðin vonbrigði og liðið komst í úrslit Mjólkurbikarsins, en tapaði þar fyrir Íslands- og bikarmeisturum Vals.
Þess má geta að að samkvæmt rekstrarreikningi knattspyrnudeildar Vals fyrir árið 2022 þá, ólíkt Breiðablik, tapaði Valur 67 milljónum króna á meðan Breiðablik hagnaðist um 157 milljónir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar