Dagskrá menningarhúsanna haustið 2024 liggur nú fyrir. Framundan er fjölbreytt og skemmtilegt menningarhaust þar sem öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi en dagskráin hefst með haustfögnuði laugardaginn 7. september.
Gleðisveifla og stemning í haustfögnuði
„Við heilsum hausti með lúðraþyt,“ segir Elísabet Indra Ragnarsdóttir, verkefna- og viðburðastjóri menningarmála Kópavogsbæjar. „Klukkan 13 mun Skólahljómsveit Kópavogs flytja vel valda stemningstónlist og slagara undir stjórn Össurar Geirssonar hér á útisvæði menningarhúsanna. Lúðraþyturinn heldur svo áfram þegar okkar frábæri bæjarlistamaður, Kristófer Rodriguez Svönuson, slagverksleikari og tónskáld mætir með geggjaða lúðrasveit í anda New Orleans gleðisveita. Sveitin spilaði við opnun nýs og fallegs skúlptúrgarðs Gerðarsafns fyrr í sumar og sló í gegn og ég hlakka mikið til að heyra í þeim aftur. “
Í Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu og á Bókasafni verða fjölbreyttar smiðjur í boði frá 13 – 16 og á útisvæði verður hægt að blása risastórar sápukúlur, fara í labbitúr á stultum, búa til ævintýralegar kúlubrautir og margt fleira, skemmtilegt og skapandi.
Leslynd skáld mæla með bókum
Síðastliðinn vetur fór af stað viðburðaröðin Leslyndi þar sem rithöfundar stigu á stokk á Bókasafni Kópavogs og sögðu frá bókum sem höfðu innblásið þá. „Þessi viðburðaröð mæltist afar vel fyrir,“ segir Elísabet Indra. „Bæði var mjög skemmtilegt að fá innsýn í bækurnar sem höfðu haft áhrif á okkar fremstu rithöfunda og svo var bara praktískt að fá meðmæli með nýju og spennandi lesefni. Á meðal höfunda í fyrra voru Pétur Gunnarsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Fríða Ísberg og Bragi Ólafsson en í haust koma þau Gerður Kristný, Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Sigrún Eldjárn og Hallgrímur Helgason á bókasafnið,“ segir hún og bætir við að viðburðirnir fari fram fyrsta miðvikudag hvers mánaðar, kl. 12:15. Viðburðaröðin er liður í seríunni Menning á miðvikudögum.
Spennandi erindaröð hjá Náttúrufræðistofu
Hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs verður haldið áfram að svara spurningum um náttúru og vísindi en viðburðaröðin Hvað er? fór af stað síðastliðið vor og er einnig liður í röðinni Menning á miðvikudögum. Þar koma sérfræðingar úr ólíkum áttum fram og skýra út margvísleg fyrirbæri og hugtök á mannamáli. Jarðvegsmengun og líffræðileg fjölbreytni eru á meðal viðfangsefna haustsins en viðburðirnir fara fram í nýrri og glæsilegri grunnsýningu Náttúrufræðistofunnar.
Hamskipti Gerðar Helgadóttur
Sýningin Hamskipti var opnuð í Gerðarsafni 8. ágúst en þar er list Gerðar Helgadóttur sett í sögulegt samhengi og sjónum beint að örum breytingum í listsköpun hennar. Fjölbreyttir viðburðir verða samhliða sýningunni þar sem varpað verður ljósi á list Gerðar út frá ólíkum sjónarhóli og listgreinum. Einn af þeim viðburðum eru hádegistónleikar sem fara fram miðvikudaginn 18. september en þar munu slagverksleikararnir og tónskáldin Matthías Hemstock og Kristófer Rodriguez Svönuson skapa hljóðvef sem er innblásinn af list Gerðar. Gestir geta gengið um sýninguna og upplifað list Gerðar á meðan hljóðheimurinn lifnar við en sjálf sótti Gerður mikinn innblástur til tónlistar í framsækinni listsköpun sinni.
Fjölbreyttir fjölskylduviðburðir
Í september hefst viðburðadagskráin Fjölskyldustund á laugardögum sem fram fara alla laugardaga, á víxl í Gerðarsafni, Bókasafni, Náttúrufræðistofu og í Salnum. „Í fjölskyldustundunum geta börn og fjölskyldur komið saman og átt notalega stund,“ segir Elísabet Indra. „Þetta eru mjög vandaðir viðburðir, enda leiddir af frábæru fagfólki. Í haust bjóðum við til dæmis upp á hrekkjavökujazz fyrir krakka á öllum aldri, hægt verður að fara í náttúruleiðsögn um Borgarholtið, hin einstaka Vísindasmiðja Háskóla Íslands kemur í heimsókn og boðið verður upp á fjöltyngdar smiðjur þar sem fjölmenningarlegt handverk verður í brennidepli, japanskt origami, vestur-afrískar textílhefðir og pólsk brúðugerð, bara svo fátt eitt sé nefnt.“
Fjölmenningin blómstrar
„Þetta er bara örlítið brot af viðburðadagskránni framundan,“ segir hún og bætir við: „Við njótum þess að vera í miklu samstarfi við metnaðarfullar hátíðir og félagasamtök sem við erum stolt af og sem gefa dagskránni meiri dýpt og erindi. Hjálparsamtökin GETA (Get Together) hafa til dæmis verið ómetanlegur samstarfsaðili og komið að mótun fjöltyngdra og fjölmenningarlegra viðburða í menningarhúsunum. Þriðja árið í röð verðum við í góðu samstarfi við listahátíðina List án landamæra og fleira mætti tína til. Dagskráin er full af spennandi viðburðum sem ég hvet fólk til að kynna sér inni á vef menningarhúsanna og svo hlakka ég til að sjá sem flest í vetur,“ segir Elísabet Indra Ragnarsóttir að lokum.
Forsíðumynd: Hátíðarhljómsveit bæjarlistamannsins Kristófers Rodriguez Svönusonar kemur fram í haustfögnuði, 7. september.