Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna..?

Ísland hefur trónað á toppi alþjóðlegrar jafnréttisúttektar í þrettán ár í röð. Hér á landi hefur náðst gríðarlegur árangur í jafnréttisbaráttu kynjanna undanfarna áratugi. Þrátt fyrir það er enn verk að vinna og það er mikilvægt að sofna ekki á verðinum.

Við skipan fulltrúa í fastanefndum bæjarstjórnar í upphafi sumars kom í ljós að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar höfðu ekki hugað að því að lögum samkvæmt þarf að tryggja sem jöfnust kynjahlutföll í öllum nefndum og ráðum. Fulltrúar minnihlutans gerðu athugasemd við þetta strax á þeim fundi, en skipunin var engu að síður látin standa og talað um að þetta yrði skoðað í framhaldinu. Nú þegar hálft ár er liðið af kjörtímabilinu án þess að nokkrar breytingar hafa verið gerðar á skipan meirihlutans óskaði ég eftir áliti frá lögfræðingi bæjarins á lögmæti þessa gjörnings. Í minnisblaði lögfræðingsins er það staðfest að þrjár nefndir bæjarstjórnar Kópavogs uppfylla ekki kröfur sveitarstjórnar- og jafnréttislaga um jöfn kynjahlutföll. Meirihlutinn skipaði sumsé þrjá karla, en enga konu, í bæði hafnarstjórn og umhverfis- og samgöngunefnd. Þá er það, kaldhæðinslega, jafnréttis- og mannréttindaráð, sem hefur það hlutverk samkvæmt lögum að „fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum, þar með talið sértækum aðgerðum, til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla innan viðkomandi sveitarfélags“, en þar sitja eingöngu konur í umboði meirihlutans. Minnihlutinn skipar tvo fulltrúa í hverja nefnd og í öllum tilfellum er um að ræða einn karla og eina konu.

Hafa engir karlar áhuga á jafnréttis- og mannréttindamálum?

Nú á síðasta bæjarstjórnarfundi ársins óskaði ég eftir svörum frá meirihlutanum um hvernig þau ætluðu sér að bregðast við, nú þegar liggur ljóst fyrir að skipan brýtur í bága við lögin.

Það var fátt um svör, utan útúrsnúninga var megininntakið það að bæjarfulltrúar meirihlutans töldu mikilvægara að skipa fólk með reynslu og þekkingu af málaflokknum í nefndirnar, í stað þess að framfylgja lögunum, þó það væri „vissulega markmið sem vert sé að stefna að“. Það finnast sumsé ekki karlar innan raða Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem hafa áhuga, þekkingu og reynslu af jafnréttis- og mannréttindamálum? Eða konur sem hafa áhuga, þekkingu og reynslu af umhverfis- og samgöngumálum?

Jafnrétti kynjanna snýst um réttlæti, mannréttindi, virðingu, betra samfélag. Fastanefndir bæjarstjórnar ættu að endurspegla sem mesta fjölbreytni, svo að ólík sjónarmið komi að ákvarðanatökunni hverju sinni. Lög um jafna stöðu kynjanna hafa þann tilgang að viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, meðal annars með því að vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu. Þess utan þá setur það mjög slæmt fordæmi að fólk í forsvari fyrir næststærsta sveitarfélag landsins telji sig ekki þurfa að fylgja lögum og virða jafnréttissjónarmið.

Við getum, og eigum að gera, svo mikið betur. Við eigum að vera til fyrirmyndar á sviði jafnréttismála. Á 21. öldinni er engin afsökun fyrir því að virða jafnréttissjónarmið að vettugi þegar kemur að skipun í nefndir og ráð bæjarstjórnar.

Það er löngu úrelt að gefa strákum bækur en stelpum nál og tvinna í jólapakkann!

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar