Hákon Gunnarsson gefur kost á sér fyrir Samfylkinguna

Ég hef tekið ákvörðun um að bjóða mig fram í forvali Samfylkingarinnar í Kópavogi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara þann 14. maí 2022. Ég gef kost á mér í 1.-2. sæti.

Ég hef alltaf haft mikla og sterka tilfinningu fyrir því að vera Kópavogsbúi. Ég er stoltur af því og hér á ég mínar rætur og mínir bestu vinir fyrir lífstíð eru héðan. Kópavogur sem samfélag er risastórt í íslensku samhengi. Í bænum búa 10% þjóðarinnar og Kópavogsbær er þriðji stærsti vinnustaður landsins með 2.100 starfsmenn. Þá er Kópavogur í miðju höfuðborgarsvæðisins og þróunin hér í bænum hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir höfuðborgarsvæðið allt.

Ég er fæddur í Kópavogi árið 1959. Foreldrar mínir voru meðal frumbyggjanna í bænum og tóku virkan þátt í mótun nærsamfélagsins hér. Ég ólst upp í stórum systkinahópi, gekk hér í skóla og tók virkan þátt í félagsstarfi og íþróttum. Ég hef verið virkur í knattspyrnudeild Breiðablik um áratugaskeið, en hún er sú stærsta á landinu. Ég var leikmaður um árabil, bæði í yngri flokkum og meistaraflokki, þjálfari og hef gengið í mörg störf innan félagsins. Mikilvægi félagasamtaka í bænum eru mér hugleikin og það er forgangur hjá mér að auka samráð við þessa aðila við mótun framtíðarsýnar fyrir Kópavog. Því miður hefur vantað mikið upp á slíkar áherslur hjá bæjaryfirvöldum mjög lengi.

Ég lauk stúdentsprófi frá MH, kandidatsprófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnámi í stefnumótunarfræðum við Copenhagen Business School í Danmörku og var framkvæmdastjóri Íslenskra getrauna að námi loknu frá HÍ. Eftir framhaldsnám í Danmörku gegndi ég ýmsum stjórnunarstöðum í atvinnulífinu. Þar má nefna framkvæmdastjórn í HM ’95 sem haldið var á Íslandi, var framkvæmdastjóri Samsölubakarís og fjármálastjóri hjá Íslenska járnblendifélaginu. Frá aldamótum hef ég unnið við stefnumótunarráðgjöf hjá fyrirtækjum og stofnunum, lengst af hjá IMG/Capacent. Árið 2009 stofnaði ég Íslenska jarðvarmaklasann og stýrði honum í 7 ár. Eftir að hafa starfað um tíma hjá Kópavogsbæ um tíma á sviði stefnumótunar 2019 hef ég frá 2019 verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi hjá Resource International, umhverfisverkfræðistofu sem hefur aðsetur Kópavogi.

Kópavogur á tímamótum

Kópavogur stendur á tímamótum. Í stað vaxtar og landnáms með tilheyrandi fólksfjölgun er kominn tími á að huga að innviðum og samfélagsuppbyggingu. Eldri hverfi bæjarins þarfnast endurskipulagningar frá grunni. Það gengur ekki lengur í nútímasamfélagi að beita sömu aðferðafræði við þéttingu byggðar og endurskipulagningu eldri hverfa í bænum og var gert þegar byggð var brotin í austurátt. Kópavogur þarf tryggja að viðhorf og hagsmunir íbúa sem fyrir eru á svæðinu komi fram og rödd íbúa fái alltaf að heyrast.

Ég hef tekið virkan þátt í starfi grasrótarsamtakanna „Vinir Kópavogs“ en þar eru komnir saman Kópavogsbúar úr öllum hverfum bæjarins sem kalla á þessi nýju vinnubrögð. Kveikjan að þeim samtökum var ákall bæjarbúa um breyttar aðferðir við mótun Kópavogs sem bæjarfélags. Meðal baráttumála Vina Kópavogs er að fram fari hönnunarsamkeppni um skipulag í miðbæ Kópavogs. Gallup-kannanir á vegum félagsins sýna að yfirgnæfandi meirihluti íbúa eru því hlynnt. Sama könnun sýnir að örlítill minnihluti Kópavogsbúa eru sammála þeirri aðferðafræði sem núverandi meirihluti ákvað að fara. Hún var sú að afhenda skipulagsvaldið til þóknanlegs verktaka og fyrsta hugmynd hans um heildarskipulag í þessari mikilvægu staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu var látin gilda og samþykkt 6-5 í bæjarstjórn. Meirihluti sem hefur 43% kjósenda á bak við sig eða 25% kosningabærra íbúa í Kópavogi.

Það þarf ekki eingöngu að vinda ofan af þessari ákvörðun. Það þarf algerlega að kúvenda allri aðferðafræði og stjórnunarháttum í stjórn og rekstri bæjarfélagsins. Til þess er Samfylkingin reiðubúin – til þess er ég reiðubúinn og býð því fram krafta mína til að leiða slíka vinnu.

Ég er búsettur á æskuslóðum í miðbæ Kópavogs og formaður húsfélagsins í Fannborg 1-9 en þar eru 103 íbúðir. Ég á 4 börn og 5 barnabörn og er í sambandi með Fanndísi Steinsdóttur. Áhugamál mín eru knattspyrna, kajakróður, bókmenntir, tónlist og ég fylgist vel með alþjóðlegum straumum í mínu fagi sem krefst yfirlegu. Þá er ég félagi í GKG – en það skal játast hér að ég er alls ekki góður í golfi, en það stendur til bóta.

Rafrænt flokksval verður haldið fyrir félagsmenn og stuðningsaðila sem búsettir eru í Kópavogi. Þrjú efstu sætin verða valin með bundinni kosningu. Skráning er hér: https://xs.is/takathatt. Þar má skrá sig sem stuðningsaðila en velja þarf aðildarfélag = “Stuðningsaðili”

Hákon Gunnarsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar