Á fundi bæjarráðs Kópavogs í síðustu viku lagði bæjarstjóri, Ásdís Kristjánsdóttir, fram umfangsmiklar hagræðingartillögur í rekstri bæjarins til að mæta auknum kostnaði vegna nýsamþykktra kjarasamninga kennara.
Samkvæmt minnisblaði frá bæjarstjóra hafa kjarasamningarnir í heild áhrif sem nema 1.380 milljónum króna á samningstímabilinu, og þar af er áætlað að 470 milljónir króna komi umfram áætlun ársins 2025. Til viðbótar er reiknað með auknum framlögum til tónlistarskóla og sjálfstætt starfandi skóla um 100 milljónir króna. Mótlækkun í formi hærri útsvarstekna er þó áætluð um 90 milljónir.
Hagræðing án skerðingar á þjónustu
Bæjarstjóri undirstrikar í tillögunum að markmið hagræðingaraðgerða sé að draga úr kostnaði án þess að rýra þjónustu við bæjarbúa. Tillögurnar fela í sér aðgerðir þvert á svið bæjarins, sem samtals nema 630 milljónum króna árið 2025, og 678 milljónum króna á ársgrundvelli.
Helstu hagræðingaraðgerðir:
- Skipulagsbreytingar (101,2 m.kr. á ársgrundvelli)
– Launakostnaður lækkar með fækkun stöðugilda í stjórnsýslunni.
– Starfshlutfall bæjarfulltrúa og nefndarfólks verður lækkað.
– Greiðslur til bæjarstjóra verða endurskilgreindar og laun fryst fyrir lykilstjórnendur út árið 2025.
– Endurráðningar í stjórnsýslu þurfa samþykki mannauðsdeildar eða bæjarstjóra. - Launakostnaður og skólastarf (189 m.kr.)
– Endurskoðuð launaáætlun leikskóla og grunnskóla vegna breytinga og fækkunar nemenda.
– Skert yfirvinna og sumarstörf, og endurskoðun ökutækjastyrkja. - Rekstur stofnana (114,4 m.kr.)
– LED-væðing til að draga úr orkunotkun.
– Breyttur opnunartími sundlauga á rauðum dögum.
– Þak á prentkostnað og möguleg sala eigna. - Aðkeypt þjónusta (45 m.kr.)
– Dregið verður úr kostnaði við aðkeypta þjónustu þvert á svið. - Styrkir og tekjur (16,75 m.kr.)
– Lækkaðir styrkir, m.a. frístundastyrkir í samræmi við breytta spá um fjölda styrkþega.
– Vænt tekjuaukning frá sumarnámskeiðum og leigu á íþróttamannvirkjum. - Aðrar breytingar (212,1 m.kr.)
– Auknar útsvarstekjur og framlög ríkisins, m.a. frá Jöfnunarsjóði, koma einnig til móts við launahækkanir.
Við erum því ekki að boða niðurskurð í þjónustu bæjarins heldur hagræða í rekstri
Kópavogspósturinn heyrði í Ásdís Kristjánsdóttur, bæjarstjóra og spurði hana m.a. hvort hún væri ánægð með þessa niðurstöðu og að hún bitni ekki á þjónustu við bæjarbúa? ,,Þessar aðgerðir eru vel útfærðar og skynsamar að mínu mati. Þá er lykilatriði að þær hafa ekki áhrif á þjónustu við bæjarbúa. Við erum því ekki að boða niðurskurð í þjónustu bæjarins heldur hagræða í rekstri til að mæta þessum kostnaðarhækkunum sem við gerðum ekki ráð fyrir í fjárhagsáætlun bæjarins. Ég get ekki annað en verið ánægð með þessa niðurstöðu. Þá heyrði ég ekki betur í bæjarráði en að almenn samstaða hafi verið um þessar aðgerðir,“ segir Ásdís.
Stefna okkar í meirihlutanum að standa vörð um góðan rekstur og hækka ekki skatta á bæjarbúa
Og eru þetta raunhæfar hagræðingaraðgerðir og hefði jafnvel mátt koma til þeirra miklu fyrr, er búið að vera að bruðla með peninga bæjarbúa? ,,Þetta eru raunhæfar aðgerðir og munu flestar taka gildi um leið og viðaukinn hefur verið samþykktur. Það er mjög mikilvægt að fara vel með peninga bæjarbúa og við þurfum stöðugt að hafa augun opin fyrir tækifærum til að gera betur. Þegar lá fyrir að kostnaður vegna kjarasamninga kennara yrði heldur hærri í áætlunum okkar var ljóst að til hagræðingar þyrfti að koma enda er stefna okkar í meirihlutanum að standa vörð um góðan rekstur og hækka ekki skatta á bæjarbúa,“ segir hún.
Þetta er útúrsnúningur hjá minnihlutanum og gert í pólitískum tilgangi
Nú vildi minnihlutinn ganga enn lengra í hagræðingaraðgerðum, sem snýr að þér og gagnrýndi launalækkun þína í aðgerðunum. Minnihlutinn vill meina að þín laun lækki ekki um nema 1,8% og leggja því til launalækkun um 10% til jafns á við aðra kjörna fulltrúa. Þau leggja líka til endurskoðun á akstursgreiðslu til bæjarstjóra og stjórnarsetu þína í Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Hvað viltu segja um þetta? ,,Þetta er útúrsnúningur hjá minnihlutanum og gert í pólitískum tilgangi. Mikilvægt er að halda okkur við staðreyndirnar. Starfshlutfall bæjarfulltrúa er í dag 28% og flestir bæjarfulltrúar sinna því öðrum störfum samhliða. Hvað mín laun varðar er ég annars vegar starfsmaður Kópavogsbæjar og hins vegar kjörinn fulltrúi, heildarlaun mín endurspegla það. Nú er verið að leggja til að lækka starfshlutfall bæjarfulltrúa með það fyrir augum að hagræða. Ég sem kjörinn fulltrúi og einnig bæjarfulltrúi er því að taka á mig sömu launalækkun af sama starfshlutfalli og aðrir bæjarfulltrúar. Fullyrðingar um annað eru einfaldlega rangar,“ segir Ásdís og hvað varðar aksturgreiðslur og stjórnarsetu hennar í Slökkviliðinu segir hún: ,,Varðandi akstursgreiðslur þá er ég hvorki með bílstjóra né bíl á vegum bæjarins, líkt og við sjáum í Reykjavík. Þess vegna eru þessar akstursgreiðslur tilkomnar í ráðningasamningi og byggir á eldri samningum.
Og varðandi stjórnarsetu mína í Slökkviliðinu þá er það ekki bæjarstjórn Kópavogs sem ákveður það heldur er slík ákvörðun tekin á vettvangi stjórnar Slökkviliðsins. Minnihlutinn þarf væntanlega að beina tillögunni þangað.“
Ekki í fyrsta skipti sem minnhlutinn berst gegn uppbyggingu íþróttamannvirkja HK í Kórnum
Þá vill minnihlutinn einnig fresta uppbyggingu stúku/keppnisvallar fyrir HK í Kórnum og kallar eftir endurskoðun og nánari samráði við HK um frekari hægræðingu á uppbyggingunni? ,,Það kemur svo sem ekki á óvart að minnihlutinn leggi til að fresta uppbyggingu á keppnisvelli í efri byggðum Kópavogs og ekki í fyrsta skipti sem þau berjast gegn þeirri framkvæmd. Loforð um keppnisvöll utandyra í efri byggðum var gefið af bæjarstjórn fyrir rúmlega áratug síðan og tímabært að bærinn uppfylli loksins það loforð. Við í meirihlutanum höfum því lagt ríka áherslu á að hefja framkvæmdar á keppnisvelli og stúku fyrir félagið enda þúsundir iðkenda HK sem hafa beðið eftir þessari uppbyggingu í þeirra nærsamfélagi. Kópavogsbær hefur ávallt stutt vel við íþróttafélög í bænum og við ætlum að gera það áfram. Við erum meðal annars einnig í framkvæmdum á nýjum æfingavelli fyrir Breiðablik, sem eins og HK hefur stækkað hratt. Allar þessar framkvæmdir eru í áætlun okkar og það kemur ekki til greina af okkar hálfu að bakka með þær enda nauðsynlegar fyrir samfélagið okkar og þau börn sem stunda íþróttir í bænum.“
Höfum lækkað skatta á hverju ári og við leggjum okkur fram um að veita framúrskarandi þjónustu
Mega bæjarbúar eiga vona á fleiri hagræðingaraðgerðum – er sú vinna stöðugt í gangi? ,,Við erum stöðugt að leita leiða til að fara betur með fjármagn bæjarbúa og ef við finnum leiðir til að hagræða án þess að skerða þjónustu við bæjarbúa þá vissulega förum við í þær aðgerðir. Það hefur gengið vel hjá okkur, efnahagsumhverfið hefur verið strembið en reksturinn er sjálfbær, við höfum lækkað skatta á hverju ári og við leggjum okkur fram um að veita framúrskarandi þjónustu. Öflugur mannauður skiptir auðvitað griðalega miklu máli þegar kemur að rekstri bæjarfélagsins og þar getum við heldur betur vel við unað hjá Kópavogsbæl,“ segir Ásdís.
Tillögur Ásdísar voru samþykktar til nánari útfærslu hjá skrifstofu áhættu- og fjárstýringar og viðauki vegna þeirra verður lagður fyrir bæjarráð í dag, 3. apríl.