Hafa haft fullt í fangi við að gæta almannahagsmuna á kjörtímabilinu

Skipulagsmál á Kársnesi hafa ratað í fréttir undanfarið eins og minnst var á síðasta tölublaði Kópavogspóstsins. Bæjarfulltrúar minnihlutans hafa gagnrýnt málsmeðferðina og segja ófaglega staðið að allri stjórnsýslu. Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata, og Theodóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti Viðreisnar, segja mikilvægt að standa vörð um hagsmuni íbúa Kópavogs og vanda til verka þegar kemur að úthlutun gæða.

Viðamiklar ákvarðanir bæjarstjóra án samtals við bæjarfulltrúa

Nú urðu töluverðar mannabreytingar í bæjarstjórn eftir kosningarnar í fyrra og Kópavogspósturinn byrjaði á því að spyrja þær hvernig nýrri bæjarstjórn hefur gengið að stilla saman strengi sína? ,,Því miður er lítið samstarf milli minni- og meirihluta í bæjarstjórn um þessar mundir, ólíkt því sem var á síðasta kjörtímabili. Eitt af því sem við höfum gagnrýnt er að bæjarstjóri skuli taka viðamiklar ákvarðanir oft án nokkurs samtals við bæjarfulltrúa. Má þar nefna þegar eitt af fyrstu verkefnum hennar í embætti var að senda póst til Sorpu og tilkynna þeim uppsögn á samningi og að endurvinnslustöðin skuli víkja af Dalveginum fyrir lok næsta árs. Hún tekur þá ákvörðun án þess að leggja það fram í bæjarráði, sem hún hefði að sjálfsögðu átt að gera. Það sama var uppi á teningnum þegar hún gerði samning við KPMG um úttekt á menningarmálunum í bænum sem leiddi til þess að náttúrufræðistofa og héraðs- skjalasafnið voru lögð niður. Einnig gerð hún óskiljanlegar breytingar á Molanum sem er ungmennahús okkar Kópavogsbúa. Einnig kom hún með mjög umdeildar hækkanir á gjaldskrá leikskóla sem foreldrar og ýmis samtök hafa mótmælt harðlega. Þetta er þvert á markmið Sjálf-stæðisflokksins sem lofaði fyrir kosningar að álögum og gjöldum yrði stillt í hóf. Nú síðast undirritaði hún svo samkomulag við fjárfesta á Kársnesinu sem fól meðal annars í sér að þeir fengu úthlutað öllum lóðum Kópavogsbæjar á reit 13 án auglýsingar, þvert á það sem reglur bæjarstjórnar um lóðaúthlutun kveða á um að skuli gera. Engin drög voru lögð fram í bæjarráði heldur kom samningurinn undirritaður af bæjarstjóra, svo möguleiki okkar til áhrifa var raunverulega enginn,” segir Theodóra.

Vel framkvæmanlegt að sameinast um byggingu bílakjallara

Nú segir bæjarstjóri að þessi umdeilda lóðaúthlutun hafi verið óhjákvæmileg þar sem skipulagið gerir ráð fyrir sameiginlegum bílakjallara og því hafi ekki verið unnt að auglýsa lóðirnar eins og reglur bæjarins kveða á um, er það ekki rétt? ,,Nei, það var ef til vill ásetningur fjárfestanna allan tímann að haga skipulagsuppdrættinum þannig fyrir lóðir Kópavogsbæjar að aðkoma annarra byggingaraðila væri útilokuð. Raunin er þó sú að það er vel framkvæmanlegt að ólíkir aðilar sameinist um byggingu bíla- kjallara og hefur oft verið gert. Til dæmis í tilfelli byggingar Glaðheimanna í Kópavogi og víða annars staðar. Þetta er bara útfærsluatriði og þarf alls ekki að koma í veg fyrir að jafnræðis sé gætt við úthlutun gæða. Þar fyrir utan þá er í samkomulagi bæjarins við fjárfestana gert ráð fyrir að stofnaðar verði lóðir fyrir hvern byggingarreit og að bæjarráð skuli leitast við að samþykkja framsal. Það er því engin fyrirstaða, og í raun óskiljanlegt að lóðunum sé ekki hreinlega skipt strax upp og þeim úthlutað í samræmi við samþykktar reglur bæjarstjórnar,” segir Sigurbjörg.

Ólíkir hagsmunir fjárfesta og íbúa

Er það venjan að fjárfestar fái heimild til þess að vinna deiliskipulag fyrir lóðir í eigu sveitarfélaga? ,,Nei, alls ekki. Sveitarfélög eiga að horfa til heildarhagsmuna við skipulag byggðar, en hagsmunir fjárfestanna og bæjarins fara ekki endilega saman, nema síður sé. Í tilfelli skipulagsins á þessum reit var til dæmis “söluvænleiki íbúða og hagkvæmni framkvæmdar” efst á lista yfir markmið skipulagsins. Aftur á móti eru hagsmunir Kópavogsbæjar meðal annars að byggð falli vel að umhverfinu, tryggt sé fjölbreytt framboð íbúða á viðráðanlegu verði og gott aðgengi að grænum svæðum og þjónustu. Þessum markmiðum er ekki mætt. Ásdís Hlökk, fyrrverandi forstjóri Skipulagsstofnunar, hefur meðal annars tjáð sig um málið og sagt þetta mjög óvenjulegt fyrirkomulag, og að formfestan og skjalfestingin í kringum upphaf skipulagsvinnunnar sé bæði óljós og lítil,” segir Sigurbjörg.

Engar íbúðir á viðráðanlegu verði

Þið nefnið húsnæði á viðráðanlegu verði, er þá engin kvöð um slíkt í samkomulaginu um uppbyggingu á reitn- um? ,,Nei því miður, þrátt fyrir að Kópavogsbær hafi í vor svarað Skipulagsstofnun að markmiðið sé að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og að allir geti orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði þá eru engin ákvæði í samningnum um að ákveðið hlutfall íbúða uppfylli til dæmis skilyrði um hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur, eða verði leiguíbúðir á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. Aðeins er kvöð um að 10% íbúða verði 1-3 herbergja íbúðir sem eru minni en 90 fermetrar og nægir að þær séu skilgreindar leiguíbúðir en ekkert skilyrði er um að þær verði ódýrar. Af þessum tíu prósentum hefur Kópavogsbær svo forkaupsrétt að um helming þeirra fyrir félagslegt húsnæði, sem þó er ólíklegt að verði af þar sem fyrirséð er að þær verði mjög dýrar. Það er þess vegna engan veginn verið að standa við orð bæjarins sem komu fram í svörum til Skipulagsstofnunar, og ekki verið að mæta framboði fyrir þann fjölbreytta hóp Kópavogsbúa sem eru í húsnæðisleit,” segir Theodóra.

Sorglegt að bæjarstjóri fari í manninn

Ykkur meirihlutann greinir á um hvort málið hafi verið útrætt í fyrir afgreiðslu, fór ekki fram tæmandi umræða í bæjarstjórn að ykkar mati? ,,Bæjarstjóri undirritaði þetta samkomulag um sölu fasteigna án útboðs og lagði það fram til afgreiðslu í bæjarstjórn. Það hefur verið viðhöfð venja að fresta málum þegar sá sem leggur það fram er fjarverandi, sér í lagi ef fundarmenn óska þess. Þrátt fyrir fjarveru Ásdísar þá hafnaði meirihlutinn að fresta málinu. Eftir langa umræðu reyndist ómögulegt að fá svör við þeim formlegu spurningum sem við lögðum fram. Nú höfum við sent spurningar okkar aftur inn í bæjarráð og gerum ráð fyrir að fá svör fyrir næsta fund til þess að fá málið á dagskrá aftur í bæjarstjórn,” segir Theodóra og heldur áfram: ,,Gagnrýni okkar um afgreiðslu málsins í fjarveru bæjarstjóra er alls ekki gagnrýni á hennar persónu né snýst það um að bæjarfulltrúar megi ekki taka sér frí. Það snýst um hvernig afgreiðsla málsins var þvinguð í gegn án þess að við teldum okkur hafa fullnægjandi svör, sem bæjarstjóri einn gat veitt. Það er aftur á móti sorglegt að bæjarstjóri skuli fara í manninn og saka fulltrúa minnihlutans um að skipta um skoðun milli kjörtímabila, en Theodóra hefur þvert á móti sýnt fram á gögn sem staðfesta að afstaða hennar hefur ekkert breyst frá upphafi málsins.”

Þreytast aldrei á að berjast fyrir bættri stjórnsýslu

Það er ljóst að þið hafið haft í nægu að snúast undanfarið ár, en hvað er svo fram undan hjá ykkur? ,,Okkar stærsta hlutverk hefur alltaf verið og verður áfram að gæta almannahagsmuna og tryggja jafnræði. Við höfum haft fullt í fangi við það á þessu kjörtímabili í ljósi þeirra vinnubragða sem meirihlutinn hefur viðhaft. Við þreytumst þó aldrei á að berjast fyrir réttlátri stjórnsýslu í Kópavogi, sem þarf, að okkar mati, verulega að bæta,” segir Sigurbjörg að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar