Nýr skólastjóri hefur verið ráðinn við Skólahljómsveit Kópavogs og telst það til nokkurra tíðinda þar sem í nær 60 ára sögu hljómsveitarinnar hafa einungis verið tveir skólastjórar, þeir Björn Guðjónsson stofnandi sveitarinnar og Össur Geirsson. Nýr skólastjóri heitir Gunnar Ben og er mörgum kunnur af störfum sínum í Listaháskóla Íslands og sem hljómborðsleikari í hljómsveitinni Skálmöld.

Össur er samt ekki hættur störfum hjá SK því hann mun starfa áfram sem stjórnandi hljómsveitanna þriggja sem sett hafa lit á bæjarlífið eins lengi og elstu menn muna. Gunnar tekur formlega til starfa næsta haust en hefur verið að kynna sér starfsemina síðasta mánuðinn og meðal annars tekið þátt í skólakynningum í þessari viku.
SK hefur í mörg ár farið með hljóðfærakynningar í þriðja bekk grunnskóla í maímánuði. Nemendur sýna þá yngri nemendum hljóðfærin sín og spila stutt tóndæmi. Innritun í tónlistarnám hjá hljómsveitinni fyrir næsta vetur er opin þessa dagana og lýkur á afmælisdegi bæjarins, þann 11. maí. Þann dag gefst bæjarbúum einnig tækifæri á að sjá hljómsveit yngstu nemenda SK leika listir sínar fyrir utan Salinn í Hamraborg kl. 16:15. Síðustu hefðbundnu tónleikar SK á starfsárinu verða svo í Langholtskirkju sunnudaginn 25. maí.
Forsíðumynd: Þórunn Ása Snorradóttir kynnir saxófóninn sinn í Kársnesskóla“