Gullkonan, Thelma Aðalsteinsdóttir í Gerplu skrifaði sig í sögubækurnar um sunnudaginn 22. september sl. með mögnuðum árangri á Norður-Evrópumeistaramóti landsliða í áhaldafimleikum sem fram fór í Dublin á Írlandi, en hún gerði sér lítið fyrir og vann gullverðlaun á öllum fjórum áhöldunum, sem er einstakt afrek og verður sjálfsagt seint toppað.
Thelma Aðalsteinsdóttir vann einnig silfurverðlaun í fjölþraut og kvennalið Íslands lenti í 3. sæti, en samtals voru sex landsliðskonur af sjö í íslenska landsliðinu úr Gerplu. Íslenska karlaliðið lenti í 8. sæti en í sjö manna liði komu 5 úr Gerplu.
Liða- og fjölþrautarkeppni á Norður – Evrópumótinu í Írlandi fór fram á laugardeginum, en keppnin var einnig undankeppni fyrir úrslit á einstökum áhöldum sem fram fóru á sunnudeginum.
Besti árangur Íslands frá upphafi
,,Besti árangur Íslands frá upphafi. Dagur sem fer í sögubækurnar og verður seint toppaður. Thelma Aðalsteinsdóttir er fjórfaldur Norður-Evrópumeistari. Hún kláraði þennan ævintýralega dag með því að rústa gólfæfingum og vinna þar með öll gullin sem í boði eru í úrslitum á áhöldum. Þvílíkt og annað eins hefur ekki gerst í manna minnum og verður seint toppað. Gullkonan sem er búin að vinna verðlaun í öllum þeim keppnum sem hún hefur tekið þátt í á þessu móti. Silfur í fjölþraut og brons í liðakeppninni, þannig að hún fékk alla litina af verðlaunum sem eru í boði. Thelma gat ekki klárað keppnistímabilið, á alþjóðlegum vettvangi, betur en hún gerði í dag. Þvílík íþróttakona,“ segir á vef Fimleikasambands Íslands.
Aðrir keppendur Íslands á einstökum áhöldum voru þau Hildur Maja Guðmundsdóttir í Gerplu sem varð í 4. sæti á tvíslá, Jón Sigurður Gunnarsson Ármanni varð fjórði á hringjum. Dagur Kári Ólafsson í Gerplu varð sjöundi á tvíslá og Ágúst Ingi í Gerplu áttundi. Ágúst Ingi lauk svo keppni Íslendinganna þegar hann varð 5 í úrslitum á svifrá.
Frábær dagur í sögu íslenskra fimleika
En hvað segir svo Gullkonan í Kópavogi, Thelma Aðalsteinsdóttir eftir þennan frábæra árangur í Dublin, er hægt að lýsa þessum magnaða árangri og í raun tilfinningum í orðum? ,,Nei, það er eiginlega ekki hægt, ég er mjög ánægð með hvernig þetta gekk allt bæði einstaklingskeppnin, einstök áhöld og liðakeppnin,“ sagði Thelma er hún var nýkomin til landsins.
Fór langt fyrir ofan væntingar sínar
Þetta er einstakt afrek, að vinna á öllum fjórum áhöldunum, og hefur ekki gerst áður í manna minnum segir á vefsíðu Fimleikasamband Íslands. Fórstu með þær væntingar að þú gætir sigrað á öllum áhöldunum, var það markmiðið fyrir mótið eða hvernig lagðir þú þetta upp? ,,Ég fór langt fyrir ofan væntingar mínar. Eina markmiðið sem ég fór með inn í mótið var að standa allt og geta sýnt hversu vel ég er búin að æfa í undirbúningnum og ég gat heldur betur sýnt það.
Toppaði sig á sunnudeginum
Má segja að þú hafir farið í gegnum öll þessi áhöld hnökralaust og í raun allt gengið upp? ,,Já og nei. Á laugardeginum gekk allt upp nema tvísláin sem var seinasta áhaldið, ég datt aftur fyrir mig í afstökkinu svo það kostaði mig 1 stig og þar með 1. sætið en þó að það gerðist átti ég ekki von á því að vera á verðlaunapalli svo að ég er mjög sátt. Á sunnudeginum gekk allt upp og það hefði alveg getað gengið betur upp ef að við teljum smáatriðin eins og fimleikar ganga út á en heilt yfir fyrir mig þá toppaði ég mig alveg á sunnudeginum og gat gert æfingarnar mínar eins og ég æfi venjulega heima án pressu.“
Hausinn var á réttum stað
Og sjálfstraustið hefur sjálfsagt aukist með hverju áhaldinu og andlegi þátturinn og hausinn verið upp á 10? ,,Ég hugsaði ekki beint út í það, þetta var að fara vera mjög langur dagur svo að ég þurfti mikið að vera á háu nótunum fyrir áhöldin og síðan var ég mikið að passa að fara niður á milli áhalda til að verða ekki of þreytt í lok dags. Ég náði því alveg frekar vel myndi ég segja. Hausinn var á réttum stað og ég var mikið að minna mig á að undirbúningurinn var þarna til staðar svo að ég þarf ekki að stressa mig aukalega.“
Fékk smá sjokk þegar ég sá niðurstöðurnar
En hvernig leið þér eftir að hafa unnið fyrstu þrjú áhöldin og gólfæfingarnar eingöngu eftir, varstu ekkert orðin sátt eða var hungrið jafnvel bara enn meira að ná fernunni? ,,Ég var orðin meira enn sátt! Ég var orðin svolítið þreytt fyrir gólfæfingarnar, en ég reif mig upp og minnti mig á að þetta er síðasta æfingin sem að ég framkvæmi á þessu móti. Ég ætlaði því bara að njóta þess að vera þarna uppi vegna þess að ég vissi að það sem myndi gerast í gólfúrslitunum væri lendingarkeppni og danskeppni því að við vorum allar að gera svipaðar æfingar. En svo náði ég einnnig að klára þær æfingar mjög vel svo ég gekk sátt útaf gólfinu og fékk smá sjokk þegar ég sá síðan niðurstöðurnar. Þetta var eiginlega svolítið ólýsanlegt,“ segir hún brosandi.
Þú hefur væntanlega verið langt uppi og varla lent á dýnunni á gólfæfingunum, svifið í loftinu, eða hvað? Var fókusinn bara 100% eða rúmlega það fyrir síðasta áhaldið því þú vannst með miklum yfirburðum? ,,Eina sem ég gat gert var að gera mitt besta svo að ég fór með það inn í þetta gólf en það voru líka einhver mistök hjá hinum.“
Spennt að fá smá frí frá heilum seríum
Þetta var lokamótið á alþjóðlegum vettvangi þetta keppnistímabilið, ertu svekkt að þessu sé að ljúka eða gott að fá smá frí? ,,Ég er allavega spennt að fá smá frí frá heilum seríum/æfingum í bili og við erum að fara æfa nýjar æfingar svo það verður bara gaman.“
Jákvætt viðhorf hjálpar mér oftast mest
Hefur þú aldrei verið í betra formi líkamlega og jafn vel andlega líka, þroskast maður mikið með hverju árinu andlega – ertu stöðugt að leggja inn á reynslubankann með hverju árinu sem líður? ,,Ég myndi segja að ég væri núna í svipuðu formi og ég var fyrir Heimsmeistaramótið í Antwerp 2023, en það sem við erum búin að bæta mikið á þessu ári er að hreinsa æfingarnar og einblína mikið á fókuspunkta sem hafa hjálpað mjög mikið. Andlegi þátturinn þroskast með árunum en auðvitað er alltaf eitthvað stress en það er bara mismunandi hversu mikið það er, hvernig maður lítur á mótið, hvernig maður ákveður að taka aðstæðunum svo að jákvætt viðhorf hjálpar mér oftast mest.“
Maður getur ekki alltaf átt sína bestu daga
Og þegar þú lítur yfir þetta keppnistímabil – ertu sátt með árangurinn – þitt besta ár á ferlinum? ,,Heilt yfir er ég mjög sátt, allt þetta frá Norður-Evrópumótinu núna, nýtt móment í fimleikabókina á Evrópumótinu í maí, Norðurlandamótið, Heimsbikarmótin og svo mótin heima. En auðvitað er hægt að rakka sig niður eins og mér gekk ekkert æðislega vel á Norðurlandamótinu í Osló og einnig hefði ég geta gert betur á Evrópumótinu þar sem ég taldi 1 fall þar. En auðvitað er ég sátt, þetta er íþrótt og maður getur ekki alltaf átt sína bestu daga en maður lærir líka mest á þeim dögum.“
En hvað er Thelma orðin gömul og hver eru markmiðin þín fyrir næstu 2-4 ár – ertu farin að horfa það langt? ,,Ég verð 24 ára í desember. Næstu árin langar mig að halda áfram á svipuðu róli og ég er á núna, vera í fimleikum og reyna að klóra mig í gegnum lyfjafræðina.“
Hlustar oftast á einhverja pepptónlist til að halda sér í gír á milli áhalda
Og svona smá forvitni, hvað gerir Thelma á milli keppni á áhöldum fjórum, hvernig nýtir þú tímann, ertu að nærast, fara yfir rútínuna á áhaldinu, hlustar þú á ákveðna tónlist á meðan? ,,Ég held á mér hita svo að ég kólni ekki á milli, hlusta á tónlist, hvet aðra og er ekki eingöngu að hugsa um næstu æfingar þar sem mér líður eiginlega alltaf betur að vera smá annars staðar svo að ég ofhugsa ekki of mikið yfir æfingarnar,“ segir hún og heldur áfram: ,,Fyrir stökk, tvíslá og gólf hlusta ég oftast á einhverja pepptónlist til að halda mér í gír, en fyrir slá hlusta ég ekki á neitt því ég vil helst bara vera róleg til að halda mér á slánni.“
Og talandi um næringu og keppnisdaga. Það fer að sjálfsögðu mikla orku í öll þessi áhöld, hvernig er keppnisdegi háttað, hvað borðar þú og hvernig hleður þú þig á milli áhalda? ,,Ég reyni að borða mikið í morgunmat en er ekki alltaf með mikla list á morgnana. Ég reyni þó að borða sem mest og fæ mér svo svo seitthvað rétt fyrir mætingu t.d banana. Svo á meðan keppninni stendur borða ég oftast banana og drekk powerade.“
Leyfi mér alveg að eiga einn sukkdag eftir mót
En þegar keppni er lokið er þá allt leyfilegt er kemur að mataræði – er eitthvað sem þú borðar með góðri samvisku eftir mót sem þú ýtir til hliðar þegar þú ert að undirbúa þig fyrir mót? ,,Já, það er allt leyfilegt ef það er ekki æfingadagur næsta dag svo ég leyfi mér alveg að eiga einn sukkdag eftir mót.“
Og hvað tekur svo við hjá Thelmu er kemur að fimleikunum, hvað er framundan og hvað ertu að gera meðfram fimleikunum? ,,Núna er það bara fara heim og æfa meira. Ég er á 3ja ári í Lyfjafræði í HÍ svo ég ætla að halda því áfram þegar ég kem heim. Einnig er ég að vinna í Salalaug og í Lyfju þess á milli þegar ég er ekki í skólanum og ekki á æfingum svo það er nóg að gera þegar ég kem heim,“ segir hin mikla afrekskona úr Kópavog, Thelma Aðalsteinsdóttir, en hún var valin Íþróttakona Kópavogs árið 2023 og hún verður sannarlega með í baráttunni um Íþróttakonu Kópavogs árið 2024.
Þessar frábæru myndir tók Agnes Suto
Aðrir keppendur á Norður- Evrópumeistari landsliða í áhaldafimleikum
Fyrir hönd Íslands í áhaldafimleikum kvenna kepptu:
- Freyja Hannesdóttir – Gerpla
- Hildur Maja Guðmundsdóttir – Gerpla
- Lilja Katrín Gunnarsdóttir – Gerpla
- Rakel Sara Pétursdóttir – Gerpla
- Thelma Aðalsteinsdóttir – Gerpla
- Þóranna Sveinsdóttir – Stjarnan
- Varamaður: Lovísa Anna Jóhannsdóttir – Gerpla
Fyrir hönd Íslands í áhaldafimleikum karla kepptu:
- Ágúst Ingi Davíðsson – Gerpla
- Atli Snær Valgeirsson – Gerpla
- Dagur Kári Ólafsson – Gerpla
- Jón Sigurður Gunnarsson – Ármann
- Valdimar Matthíasson – Gerpla
- Lúkas Ari Ragnarsson – Björk
- Varamaður: Arnþór Daði Jónasson – Gerpla