Það hefur verið nóg að gera á sviði lista- og menningar í bænum okkar undanfarin tvö ár og virkilega gaman að upplifa alla þá blómlegu dagskrá sem okkur bæjarbúum býðst að njóta. Framundan er hin magnaða hátíð sem kennd er við Hamraborgina – þ.e. Hamraborg Festival. Hátíðin er haldin í 4. sinn og kennir þar ýmissa grasa; myndlistarsýningar, gjörningar, tískusýningar, ljóðalestur, sýning á verkum eftir hinsegin listafólk, vinnustofur, þátttökuverk og sýningar sérstaklega hannaðar fyrir börn og fjölskyldur. Hamraborg Festival hefur getið sér gott orð fyrir að vera bæði framúrstefnuleg og koma á óvart. Formleg setning verður föstudaginn 30. ágúst kl. 16.30 í hátíðartjaldinu á Hálsatorgi, hjá ráðhúsi Kópavogs. Ég hvet Kópavogsfólk til að kynna sér dagskrána og taka þátt. Allir viðburðirnir eru gjaldfrjálsir.
Stór stund í Gerðarsafni
Margt var um manninn á afmælishátíð Gerðarsafns þann 8. ágúst þegar haldið var upp á 30 ára starfsafmæli safnsins með sýningaropnun, bókaútgáfu og afhjúpun skúlptúrgarðs – allt til heiðurs listakonunni Gerði Helgadóttur að sjálfsögðu. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands opnaði sýninguna Hamskipti og fór fögrum orðum um Gerði og hennar ævistarf. Þá opnaði Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri skúlptúrgarð við safnið, en Gerður átti sér draum um skúlptúrgarð sem ekki varð að veruleika vegna veikinda hennar. Sagði Ásdís af þessu tilefni “garðinn bera vitni um þá stanslausu þróun sem menningarlífið í Kópavogi ber merki um og að hér muni fólki gefast tækifæri á að njóta samveru umvafin myndlist og náttúru”. Skúlptúrgarðurinn er fyrsti áfanginn í opnun lystigarðs Kópavogs sem er á döfinni hjá okkur í meirihluta bæjarstjórnar á þessu kjörtímabili.
Bæjarlistamaðurinn happafengur fyrir Kópavog
Í lok maí völdum við Bæjarlistamann Kópavogs en fyrir valinu varð slagverksleikarinn og tónskáldið Kristofer Rodrgíuez Svönuson. Lista-og menningaráð var einróma um tilnefninguna, enda Kristofer einstaklega afkastamikill og öflugur listamaður. Hann er af kólumbískum uppruna, fæddur og uppalinn í Kópavogi þar sem hann býr enn. Í þakkarræðu sinni sagðist Kristofer vera bæði stoltur og þakklátur fyrir þennan heiður sem bærinn sýnir honum með nafnbótinni. Hann sagði ennfremur vera lánsamur að vera umkringdur frábæru tónlistarfólki sem hann hefur fengið að rannsaka tónlist með og stuðningurinn skapað forsendur til að framkvæma mörg spennandi verkefni. Það verður spennandi að sjá hvað hvað Kristofer gerir á komandi ári og hvernig hann mun vinna með menningarhúsunum og ungmennahúsinu Molanum.
Það er alveg ljóst að Kristofer er mikill happafengur fyrir okkur Kópavogsbúa og getum við farið að hlakka til að njóta, læra og taka þátt í tónlistarsköpun þessa hæfileikaríka bæjarlistamanns.
Í lok september ætlum við síðan að velja heiðurslistamann Kópavogs og verður spennandi að segja frá því þegar þar að kemur.
Menningarhúsin eru okkar flaggskip
Eitt af markmiðum okkar þegar við tókum við bænum fyrir rúmum 2 árum, var að leggja meiri áherslu á menningu og blómlegt og nærandi mannlíf – efla það góða starf sem fyrir var, enda hefur Kópavogur getið sér gott orð á sviði lista- og menningar undanfarin ár. Fljótlega sáum við að það voru tækifæri til umbóta og hófumst strax handa. Eftir yfirlegu lagði bæjarstjóri fram tillögur að breytingum í starfsemi menningarhúsanna sem voru til þess fallnar að hefja stórsókn í menningarmálum og koma þeim betur á framfæri við okkur bæjarbúa. Tillögurnar voru þessar helstar:
- Nýtt upplifunar-og fræðslurými á fyrstu hæð Bókasafns Kópavogs
- Frekari samþætting og samvinna í starfsemi menningarhúsanna
- Héraðsskjalasafn færist inn í Þjóðskjalasafn Íslands
- Náttúrufræðistofa Kópavogs heyri undir forstöðumann Gerðarsafns
- Rannsóknarstarfsemi á Náttúrufræðistofu og vöktun á vatnalífríki verði færð til Hafrannsóknarstofnunnar
Nú hefur öllum tillögunum verið hrint í framkvæmd og á afmælisdegi Kópavogs, þann 11. maí s.l. opnuðum við fyrri hluta upplifunar-og fræðslurýmisins í bókasafninu. Jákvæð viðbrögð bæjarbúa hafa ekki látið á sér standa, enda eiga svona breytingar að leiða til góðs – fyrst og fremst fyrir bæjarbúa og starfsfólk húsanna. Tilgangurinn með rýminu er jú að hlúa að menningunni með fleiri viðburðum, sýningum og fræðslu þar sem bókmenntir, myndlist, náttúruvísindi og tónlist mætast í einni miðju sem miðar að barnafjölskyldum og Kópavogsbúum öllum. Semsagt að auka aðgengi, opna húsin og virkja bæjarbúa til þátttöku í eflingu mannlífsins.
Ég hvet bæjarbúa til að njóta alls þess sem í boði er í lista- og menningarbænum Kópavogi, en dagskrána má finna á meko.is
Elísabet Sveinsdóttir forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður Lista- og menningarráðs