Laugardaginn 26.júní verður Gróðursetningardagur fjölskyldunnar haldinn hátíðlegur í Kópavogi. Dagsskráin hefst klukkan 10 og er þá mæting við Guðmundarlund. Gengið verður sem leið liggur á gróðursetningarstað sem er í næsta nágrenni við Guðmundarlund.
Dagskráin er liður í Líf í lundi sem er árlegur útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins. Skógar landsins hafa þjónað mikilvægu hlutverki á síðustu misserum til útivistar og eru skógar landsins mikið nýttir.
Guðmundarlundur hefur verið afar vinsælt útivistarsvæði, skógi vaxið og skjólgott. Þar verður boðið upp á grill um eitt leytið að lokinni gróðursetningu.
Viðburðurinn er haldinn í samstarfi Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæjar.