Ég vil að íbúar Kópavogs geti komist til og frá vinnu, skóla eða keyrt í næsta sveitarfélaga án þess að dvelja langdvölum í umferð á hverjum degi. Greiðar samgöngur fyrir fjölbreyttan ferðamáta er lífskjaramál, hvort sem við kjósum að vera akandi, gangandi eða hjólandi.
Okkur hættir til að ræða Samgöngusáttmálann einungis út frá Borgarlínunni og skipa fólki þannig í tvo hópa í umræðunni um almenningssamgöngur – annars vegar þá sem elska Borgarlínuna og hins vegar þá sem hata hana. Staðreyndin er sú að við erum líklega langflest þarna mitt á milli.
Samgöngusáttmálinn fjallar um miklu meira en Borgarlínuna. Með uppfærslu á Samgöngusáttmálanum er verið að tryggja að fjármagn renni til höfuðborgarsvæðisins til uppbyggingu stofnvega, göngu- og hjólastíga til ársins 2040. Uppbygging stofnvega á höfuðborgarsvæðinu hefur verið svelt frá 2012 og við sjáum hverjar afleiðingarnar eru af þeirri þungri umferð sem bæjarbúar upplifa frá degi til dags.
Ég hef enn ekki heyrt hugmyndir um betri, skjótari, raunhæfari eða hagkvæmari lausnir við þeim umferðarvanda sem allir höfuðborgarbúar upplifa á hverjum einasta degi.
Höfuðborgarsvæðið er í örum vexti – miðað við ákall um hraðari uppbyggingu húsnæðis til að mæta húsnæðisskortinum mun vandinn einungis aukast ef ekki er brugðist við. Rétt eins og við hugum að framförum við uppbyggingu bæja þurfum við að huga að framförum í samgöngumátum til að tryggja að fólk komist leiðar sinnar á sístækkandi svæði, sem Höfuðborgarsvæðið vissulega er. Hér eru framfarir boðaðar í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, öllum íbúum til hagsbúa.
Ég skil vel að ekki ríki fullkomin sátt um Samgöngusáttamálann enda er hann gríðarlega umfangsmikill og kostnaðarsamur. Þá liggur fyrir að yfirsýn og stjórn verkefnisins hefur ekki verið nægjanlega góð, áætlanir Vegagerðarinnar hafa engan veginn staðist og kostnaður vaxið ár frá ári án skýringa. Þessi vinnubrögð eru óásættanleg.
Sem bæjarstjóri Kópavogs steig ég fram í byrjun árs 2023 og kallaði eftir því að áætlanir Samgöngusáttmálans yrðu endurmetnar þar sem ljóst var að þær áætlanir sem unnið var eftir voru engan veginn að standast – og í raun ansi fjarri sannleikanum líkt og þessi uppfærsla endurspeglar. Ég taldi það vera ábyrgð þeirra sem að sáttamálanum standa að staldra við og endurmeta áætlanir áður en lengra yrði farið með verkefnið.
Jafnframt taldi ég óábyrgt að halda áfram með verkefnið nema að aðkoma ríkisins að rekstri Borgarlínu yrði tryggð, líkt og tíðkast í þeim ríkjum sem við horfum til. Aðkoma ríkisins að rekstri almenningssamgangna var lykilforsenda þess að Kópavogsbær myndi vinna áfram að framgangi Borgarlínunnar.
Í mars 2023 var ákveðið að hefja vinnu við uppfærslu Samgöngusáttmálans. Það voru einkum þrjú atriði sem ég lagði ríka áherslu á:
- Breyta vinnubrögðum er kemur að áætlunum og tryggja að við sem berum ábyrgð á verkefninu séum að vinna eftir réttum og raunsæjum áætlunum.
- Tryggja að ábyrgð og stjórn verkefnisins færist til eigenda, þannig að stjórn og ábyrgð sé á einum og sama stað. Þessi breyting er lykilatriði þannig að eigendur, sveitarstjórnir og þingið, hafi betri yfirsýn yfir framgang verkefnis og veiti aðhald gagnvart kostnaði.
- Tryggja aðkomu ríkisins að rekstri Borgarlínu.
Með uppfærslunni hefur nú verið samið um þessar þrjár megin áherslur. Flest erum við sammála um nauðsyn þess að byggja upp skilvirkt samgöngukerfi fyrir ólíka ferðamáta. Það er hins vegar ábyrgðahluti þeirra sem að sáttmálanum standa og veita honum fjármagn úr vösum skattgreiðenda að standa vörð um áætlanir og kostnað framkvæmda. Lykilatriði í uppfærslu þessa sáttmála var því að færa stjórnskipulagið til eigenda.
Það er ekki stjórnmálamanna að ákveða hvernig fólk kemst leiðar sinnar og uppbygging á samgöngum eiga ekki að fara fram í boðhætti. Það er hins vegar á verksviði kjörinna fulltrúa sveitarfélaganna að skipuleggja byggð sem hentar íbúum – og samhliða því hentugar samgöngur. Þar þarf að vanda til verka, líkt og ég hef rakið hér að framan, gæta þess að fundar séu leiðir sem henta fólki, að kostnaður fari ekki úr böndunum og tryggja að samgöngurnar feli í raun í sér framfaraskref.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi