Grænfánahátíð Vinnuskólans í Kópavogi

Þann 19.júlí mun Vinnuskóli Kópavogs halda uppá Grænfánahátíðina. ,,Við gleðjumst þennan dag þar sem að Grænfáninn verður afhendur fyrir vel unnið starf frá því í fyrra og vinnum við einnig að grænfánanum þetta árið  til þess að fá hann afhendan næsta ár. Grænfáninn er viðurkenning vinnuskólans fyrir því að vera skóli á grænni grein,“ segir Garbríela Líf Ragnarsdóttir hjá Vinnuskóla Kópavogs.

,,Skólar á grænni grein er alþjóðlegt umhverfismenntaverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi og munu þau afhenda okkur fánann. Verkefnið er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið af samtökunum „Foundation for Environmental Education.“ Með því að taka þátt í þessu verkefni styðjum við að umhverfismenntun, menntun til sjálfbærni og almennu umhverfisstarfi innan vinnuskólans,“ segir hún.

Sólveig Jóhannesdóttir Larsen er Umhverfisfulltrúi vinnuskólans þetta árið og sér um að fræða krakkana um umhverfismál og sjálfbærni. ,,Innan fræðslunnar er útskýrt hvernig neysla okkar hefur áhrif á umhverfið og hvað við getum gert til þess að vera sjálfbærari og umhverfisvænni. Helstu þættir fræðslunnar er flokkun, neysluvenjur og loftslagskvíði. Hægt er að fylgjast með starfinu á instagram síðunni „graennvinnuskoli“ og hvetjum við bæði krakka og foreldra til þess að taka virkan þátt og fylgjast með,“ segir Sólveig. 

Hátíðin fer fram á Kópavogstúni kl. 13:00. Pylsur verða í boði (bæði vegan og venjulegar) ,,Við hvetjum krakkana til þess að mæta og gleðjast með okkur þessum merka áfanga okkar. Við hvetjum líka krakka sem eru ekki að vinna á þessu tímabili að mæta! Nokkrir tónlistarmenn ásamt Stjörnu Sævari munu koma fram og fagna með okkur, þar á meðal FLONI, Daniil og Arnar Friðriks trúbador,“ segir Gabríela.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar