Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2025 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær.
Ábyrgur rekstur og lág skuldahlutföll
„Rekstur Kópavogsbæjar felur í sér ábyrgan rekstur þar sem skuldahlutföll eru lág, fjárfest er í innviðum fyrir framtíð bæjarins og þjónusta við bæjarbúa er sett í forgang. Áfram er áhersla lögð á að lækka fasteignaskatta á heimilin en þeir eru meðal þeirra lægstu á landsvísu í Kópavogi. Fjármagni verður forgangsraðað í grunnþjónustu og viðbótarfjármagn veitt í velferðar- og menntamál. Sterkur rekstur skapar rými til áframhaldandi uppbyggingar í bæjarfélaginu. Nýr Kársnesskóli mun rísa á árinu, leikskólar verða byggðir til að mæta væntri fjölgun og sambýli rísa. Þá eru áform um frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja. Áfram verður gætt aðhalds í rekstri og staðið vörð um ábyrgan rekstur. Á árinu verða markviss skref stigin við innleiðingu á gervigreind sem mun skila sér í aukinni skilvirkni, bættri ákvörðunartöku og þjónustu við bæjarbúa,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.
Lykilatriði í fjárhagsáætluninni
- Gert er ráð fyrir 159 milljón króna jákvæðri niðurstöðu A- og B-hluta
- Ekki er gert ráð fyrir sölu byggingarréttar í áætlun bæjarins en áfram verður úthlutað í Vatnsendahvarfi og öðrum hverfum bæjarins.
- Veltufé frá rekstri er 5 milljarða króna
- Fasteignaskattar lækka áfram og verða með þeim lægstu á landsvísu
- Skuldaviðmið verður 92,2%
- Forgangsraðað er í þágu grunnþjónustu í mennta- og velferðarmálum
- Kársnesskóli Skólagerði tekinn í notkun haustið 2025
- Leikskólar byggðir samfara fjölgun íbúa
- Nýtt sambýli í Kleifakór tekið í notkun
- Nýtt hjúkrunarheimili Boðaþingi tekið í notkun
Jákvæður rekstur
Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar verði jákvæð sem nemur 159 milljónum og að niðurstaða A-hluta verði jákvæð um 213 milljónir. Mikilvægt er að vekja athygli á því að í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar er ekki gert ráð fyrir sölu byggingarréttar, þó áform erum um að lóðum verði úthlutað í Vatnsendahvarfi og öðrum svæði á næsta ári með tilheyrandi tekjum. Veltufé frá rekstri er áætlað 5 milljarðar króna á samstæðu bæjarins sem endurspeglar það svigrúm sem reksturinn er að gefa til að standa undir framkvæmum og afborgunum lána. Skuldir eru hóflegar þrátt fyrir miklar framkvæmdir og skuldaviðmið 92,2% samkvæmt áætlun, sem er langt undir lögbundnu viðmiði.
Fjárhagsáætlun sýnir að fjárhagur bæjarins er mjög traustur. Áfram verður áhersla á að skapa rými til þess að forgangsraða í þágu grunnþjónustu í mennta- og velferðarmálum. Íbúar Kópavogs verða 41.400 í árslok árinu 2025 og fjölgar um 2%.
Fasteignaskattar lækka áfram
Spár greiningaraðila gera ráð fyrir að verðbólgan lækki og verði um 4% á árinu. Efnahagsumhverfi hefur verið krefjandi undanfarin ár en horfur eru betri á næsta ári.
Tólfta árið í röð lækka fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði og þá lækka einnig fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði. Fasteignaskattar á heimili eru með þeim lægstu á landsvísu og fasteignagjöld hafa ekki hækkað að raunvirði undanfarin ár. Útsvarsprósentan helst óbreytt.
Sem fyrr er eldri borgurum og örorkulífsiðeyrisþegum veittur afsláttur af fasteignasköttum í hlutfalli við tekjur.
Gjaldskrár taka mið af uppreiknaðri vísitölu samkvæmt vísitölum Hagstofu Íslands í hlutfalli við vægi einstakra kostnaðarliða í rekstri. Þær eru endurskoðaðar að jafnaði tvisvar til fjórum sinnum á ári en þetta fyrirkomulag var tekið upp árið 2023.
Velferð og menntun í barnvænu sveitarfélagi
Á árinu 2025 verður rík áhersla á málefni leik- og grunnskóla og á að halda úti góðri velferðarþjónustu. Kópavogur er barnvænt sveitarfélag og verkefni sveitarfélagsins taka mið af því.
Lögð verður áhersla á að samstarf í kringum börn og fjölskyldur sé í skýrum farvegi og að barnið sé hjartað í kerfinu með áframhaldandi þátttöku í innleiðingu farsældarlaga.
Aukið framlag verður sett í kennslu íslensku til barna af erlendum uppruna. Þá verður sett aukið fé til að efla bókasöfn skólanna.
Breytingar á starfsumhverfi leikskóla sem tóku gildi 2023 hafa heppnast vel. Skapast hefur fjárhagslegt svigrúm með breytingunum til þess að styrkja starfsemi leikskólanna enn frekar árið 2025.
Boðið verður upp á helgaropnun í félagsmiðstöðvum eldra fólks með það að markmiði að draga úr einmanaleika og einangrun.
Fjárfest í framtíð bæjarins
Umfangsmiklar framkvæmdir á vegum bæjarins eru áætlaðar á næsta ári fyrir um sex og hálfan milljarða króna og áfram tryggt að innviðir mæti þörfum bæjarbúa og viðhaldi eigna sé vel sinnt.
Stærstu framkvæmdir eru bygging nýs skóla á Kársnesi sem lýkur á næsta ári. Þá hefjast framkvæmdir við nýjan leikskóla við Skólatröð. Hafinn verður undirbúningur á nýjum leikskóla við Naustavör og leik-og grunnskóla í nýju hverfi við Vatnsendahvarf. Þá verða skóla og leikskólalóðir endurnýjaðar samkvæmt áætlun.
Lokið verður við nýtt búsetuúrræði í Kleifakór. Stækkun hjúkrunarheimilis í Boðaþingi heldur áfram og er gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki 2025. Kópavogsbær greiðir 15% kostnaðar í hjúkrunarheimili.
Þá hefjast framkvæmdir við aðalvöll HK og nýja stúku en 800 milljónir verða settar í verkið á næsta ári.
Áfram verður fjármagn sett í aukið viðhald á stofnunum bæjarins. Þá er gatnagerð í nýju hverfi í Vatnsendahvarfi hafin og verður haldið áfram 2025. Alls verður um 2,4 milljörðum króna verður varið í gatnagerð, veitur og skipulagsmál.
Skilvirkari stjórnsýsla
Á næsta ári ætlar Kópavogsbær að stíga markviss skref í innleiðingu á gervigreind með það að markmiði að auka skilvirkni í stjórnsýslunni, bæta ákvörðunartöku og þjónustu við bæjarbúa.
Áfram er áhersla á menningarmál í Kópavogi. Meðal þess sem fjárfest verður í á næsta ári er nýr flygill fyrir Salinn. Ný Menningarmiðja var opnuð í maí 2024 á Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofu og hefur aðsókn á safnið rúmlega fimmfaldast frá þeim tíma. Áfram verður unnið að frekari þróun á safninu. Þá verður hugað að hönnun á nýju bókasafni í efri byggðum Kópavogs.
Útisvæðið við menningarhúsin verður bætt með gróðursetningu og leiktækjum auk þess sem mannlíf á Hálsatorgi og í Menningarmiðjunni verður eflt með fjölbreyttum viðburðum allt árið um kring.
Með fjárhagsáætlun 2025 er einnig lögð fram þriggja ára áætlun áranna 2026, 2027 og 2028 til fyrri umræðu.