Salurinn leggur af stað í tónleikavetur með spennandi nýjungar samhliða sígildri dagskrá sem slegið hefur í gegn. Fyrst ber að nefna Söngvaskáld nýja tónleikaröð þar sem tónlistarmenn af yngri kynslóðinni stíga á svið og flytja eigin tónlist. Tíbrá tónleikaröðin heldur áfram með kraftmikilli, heillandi og fjölbreyttri efnisskrá í meðförum framúrskarandi tónlistarfólks. Samhliða Tíbrá verða fimm tónleikar í tónleikaröðinni Klassík í Salnum sem er samstarf Salarins og Félags íslenskra tónlistarmanna. Þannig verða sunnudagar sígildir í vetur. Hin sívinsæla spjalltónleikaröð Jóns Ólafssonar Af fingrum fram heldur áfram að hrífa tónleikagesti með í sögum og söng.
Sígild tónlist, lifandi tónleikaumfjöllun og Krónikukrásir á sunnudögum
Tíbrá tónleikar vetrarins verða á sunnudögum klukkan hálf tvö í vetur og er hugmyndin að tónleikagestir geti gengið að tónleikakynningu og gætt sér á krásum frá Krónikunni fyrir sjálfa tónleikana. Fyrstir á svið eru Benedikt Kristjánsson og Mathias Halvorsen sem eru báðir eftirsóttir tónlistarmenn um allan heim. Munu þeir flytja hinn magnaða sönglagaflokk Die Schöne Müllerin eftir Schubert við ljóð Wilhelms Müller. Næst á svið verður Ítríó sem býður upp á ferska efnisskrá þar sem víðfeðmur hljóðheimur harmonikkunnar nýtur sín til fullnustu. Í nóvember mun hljómsveitin Tindra flétta saman hrífandi söng- og hljóðfæraperlum barrokktónskálda við klassískar ballöður eftir frönsk söngvaskáld. Eftir áramót galdra píanóleikararnir Erna Vala Arnardóttir og Romain Þór Denuit ásamt slagverksleikurunum Kjartani Guðnasyni og Frank Aarnink fram Petrúsku eftir Stravinsky og valda kafla úr West Side Story. Í febrúar bjóða stöllurnar í Dúplum dúó upp á glænýja tónlist úr ólíkum áttum fyrir rödd og víólu. Í mars mun splunkuný og ævintýralega spennandi tónlist fyrir harmonikku hljóma á einleikstónleikum Jónasar Ásgeirs Ásgeirssonar. Píanótríó skipað Guðbjarti Hákonarsyni á fiðlu, Hrafnhildi Mörtu Guðmundsdóttur á selló og Helgu Bryndísi Magnúsdóttur á píanó slær lokatóninn í Tíbrá með fallegri efnisskrá með verkum eftir Schubert og Shostakovich.
Samstarf við FÍT
Fimm klassískir tónleikar verða á móti Tíbrá tónleikum á sunnudögum í samstarfi við FÍT – félags íslenskra tónlistarmanna en það er einmitt mikill fengur fyrir Salinn að vera í samstarfi við félagið um þessa glæsilegu tónleikaröð. Tónleikaröðin sem ber heitið Klassík í Salnum byggir á 15 ára metnaðarfullu samstarfi við m.a. Kjarvalsstaði, Norræna Húsið og Listasafni Sigurjóns. Valið er úr vönduðum efnisskrám sem félagar senda inn og aðeins nokkrir tónleikar á hverju misseri. Tónleikaröðin speglar okkar hæfasta tónlistarfólk og tónlistarlíf þar sem frumflutt verða verk af ýmsum toga og tónlistarform og efnisskrár settar í ný samhengi.
Söngvaskáld og Af fingrum fram
Söngvaskáld er ný tónleikaröð Salarins sem beinir kastljósinu að listamönnum sem semja og flytja sín eigin lög og vonandi dýpka upplifun áhorfenda af tónlistinni með því að heyra sögur af lögum og lífi listamannsins. Listamennirnir eru jafnframt hvattir til að frumflytja nýtt lag á tónleikunum en eitt af markmiðum Salarins er að efla nýsköpun í tónlist. Tónlistarmennirnir sem koma fram í vetur eru Una Torfa, Unnsteinn Manuel, Axel Flóvent, Hildur og Klara Elías.
Jón Ólafs heldur áfram með sína sívinsælu spjalltónleikaröð, Af fingrum fram, og tekur nú á móti tólf gestum. Fyrstu gestir hans verða félagarnir í Tvíhöfða en af öðrum gestum má nefna Magnús og Jóhann, Sigríði Thorlacius, Guðrúnu Gunnars, Kristjönu Stefánsdóttur, Valdimar, Eyþór Inga, Guðmund Péturs og Pál Óskar. Gaman er að geta þess að Jón verður sjálfur gestur í eigin spjalltónleikaröð en þá mun Sóli Hólm spyrja hann spjörunum úr.
Auk alls þessa sem greint er hér að ofan verða fjöldi glæsilegra tónleika, uppistand að ógleymdum tónleikum staðartónlistarmanns Salarins Davíðs Þórs Jónssonar í lok október. Það er ljóst að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi í Salnum í vetur.
Nánar um dagskrána er hægt að finna á salurinn.is.