Geta uppgötvað hljóð og tóna sem leynast í tóneggjum

Fuglasöngvasmiðja með Sóleyju 22. maí kl. 13

Sóley Stefánsdóttir býður til fuglatónlistarsmiðju í tengslum við innsetninguna Fuglasöngvar í fordyri Salarins í Kópavogi á morgun, 22. maí kl. 13.

Yndisleg fjölskyldustund í Salnum.

Hönnuðir ÞYKJÓ unnu með Sóleyju að verkefninu Fuglasöngvar í Salnum. Í björtum forsalnum geta krakkar hreiðrað um sig og uppgötvað hljóð og tóna sem leynast í svokölluðum tóneggjum. Þar má líka finna fjölbreytt hreiður og egg frá Náttúrufræðistofu Kópavogs og bronsskúlptúra eftir Gerði Helgadóttur sem minna allt í senn á hreiður, egg og fljúgandi fugla.

Hönnuðir ÞYKJÓ eru staðarlistamenn Menningarhúsanna í Kópavogi árið 2021. Yfirskrift verkefnisins er ,,með augun í Náttúrufræðistofu, eyrun í Salnum og hryggjarstykkið í Gerðarsafni“. Titillinn vísar til þess hvernig unnið er með ólík skynfæri manna og dýra í hverju húsi fyrir sig, sem tengist þó saman í eina lífræna heild. Verkefnið hverfist annars vegar um að fá börn til að sjá heiminn með augum annarra dýrategunda, en hvetur þau líka til að staldra við og kynnast dýrinu í sjálfu sér.

HönnunarMars 2021 er einn af hápunktunum í þessu umfangsmikla samstarfsverkefni.

Ljósmynd: Sigga Ella.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar