Gestirnir eru ekki af verri endanum – Bókaspjall Bókasafns Kópavogs hefst á morgun

Fimmtudagskvöldið 21. nóvember kl. 20 verður hið árlega Bókaspjall Bókasafns Kópavogs.

Benný Sif

Útgáfa jólabókanna hringir inn jólin hjá okkur Íslendingum enda fátt notalegra en að hjúfra sig undir teppi á dimmu kvöldi með góða bók. Bókaspjallið er því frábært tækifæri til að sjá nokkra höfunda jólabókaflóðsins í ár koma saman í fjörugu spjalli um skáldverk sín.

Gestirnir eru ekki af verri endanum frekar en vanalega, en í ár erum við svo lukkuleg að fá til okkar Bennýju Sif Ísleifsdóttur, Bjarna Snæbjörnsson og Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

Benný Sif Ísleifsdóttir var að gefa út bókina Speglahúsið. Bókin fjallar um miðaldra hárgreiðslukonuna Rósu, sem leggur skærin á hilluna, flytur austur í Mjóafjörð og kemur á fót óvenjulegri ferðaþjónustu. Mögnuð saga frá höfundi Hansdætra.

Bjarni Snæbjörnsson kynnir bók sína Mennsku. Bjarni ólst upp við algeran skort á hinsegin fyrirmyndum og neikvætt umtal um homma. Hvaða áhrif hefur það á mann að gangast ekki við hluta af sjálfum sér? Bók sem talar til allra þeirra sem hafa glímt við skömm og reynt að skila henni, þeirra sem finnst erfitt að taka sér pláss og óttast viðbrögð annarra. Aðgengileg og hrífandi (skyldu)lesning.

Bjarni Snæbjörns

Guðrún Eva Mínervudóttir les upp úr bók sinni Í skugga trjánna. Bókin er skáldævisaga þar sem Guðrún Eva tekst á við veruleikann af einlægni g áræðni, svo úr verður áhrifamikil saga – full af húmor, hlýju og skáldlegri visku.

Guðrún Sóley Gestsdóttir, fjölmiðlakona og bókmenntafræðingur, stýrir umræðum.

Léttar veitingar, kertaljós og jólaleg huggulegheit. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.

Forsíðumynd: Guðrún Sóley stýrir umræðum.

Guðrún Eva

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar