Ég gef kost á mér í 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Ég er giftur Sigrúnu Sölvey Gísladóttur og saman eigum við tvær dætur. Við hjónin fluttum í Kópavoginn 1991.
Mig langar að kynnast Kópavogi betur, bæði fólkinu og stjórnsýslunni. Ég hef einungis góða reynslu af embættismönnum bæjarins og tel að þar starfi framúrskarandi fólk.
Ég tel mig geta lagt ýmislegt að mörkum, er jákvæður og hef mjög gaman að vinna með fólki og á gott með mannleg samskipti. Ég lít á öll mál sem verkefni til úrlausna og kýs að láta verkin tala.
Ég hef brennandi áhuga á samfélaginu okkar og langar að vera hluti af því að sjá það vaxa og gera gott enn betra.
Leyndarmálið við að láta eitthvað ganga er að vilja að það gangi og vera svo sannfærður um að það geti ekki farið öðruvísi. Það bíður ekki upp á velgengni að taka á erfiðu verkefni með hangandi hendi.
Þegar verkefni er leyst af öllu hjarta, með einlæga ósk um að það takist, skilar það hinu besta. Þetta á við alveg frá hinu minnsta og hversdagslegasta verki til þess sem er erfiðast og flóknast.
Ég býð fram krafta mína og er ekki hræddur við að takast á við ögrandi verkefni. Ég hef ekki svar við öllu en er tilbúinn að starfa fyrir bæinn okkar og vil að við vinnum þetta saman og látum verkin tala.
Skólamál, umhverfismál, málefni eldri borgara, tómstunda- og íþróttamál eru mér ofarlega í huga.
Við þurfum að hugsa um alla hópana í samfélaginu okkar, t.a.m. ungar fjölskyldur. Þegar þær stækka þá þarf að vera húsnæði fyrir þær og ekki síður þegar börnin fara að heiman þá þarf að vera hægt að minnka aftur við sig, eignast sitt þriðja heimili til að njóta efri áranna.
Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi á mikinn þátt í því hvað sveitarfélagið okkar hefur vaxið og dafnað, vil ég gjarnan vera hluti af því að fylgja því verkefni áfram og óska því ykkar stuðnings.
Rúnar Ívarsson