Skólar og leikskólar í Kópavogi tóku þátt í dagskrá og samveru í sínu skólahverfi á baráttudegi gegn einelti, í gær 8. nóvember.
Hefð er fyrir því hjá skólum í Kópavogi að minna á mikilvægi vináttu og nauðsyn þess að berjast gegn einelti þennan dag en haldið hefur verið upp á daginn í skólum í Kópavogi frá árinu 2013. Á þessum degi sameinast grunnskólanemendur og leikskólanemendur og er bryddað upp á ýmsu skemmtilegu í tilefni dagsins. Farið í göngur um hverfin, dagskrá er í skólum og börn á ólíkum aldri vinna saman verkefni.
Bæjarstjóri Kópavogs, Ásdís Kristjánsdóttir, sótti Snælandsskóla heim að þessu sinni og gekk með börnum úr hverfinu um Fossvogsdal. Nemendur úr 5. og 10. bekk höfðu sótt leikskólabörn í sína skóla og allur hópurinn sameinaðist í göngunni. Að lokinni göngu unnu vinabekkir og leikskólabörn saman að skemmtilegum verkefnum. „Áherslan á vináttu og samvinnu barna er til fyrirmyndar og eflir börnin. Það er einstök jákvæð og skemmtileg stemning í skólunum þennan dag sem hefur án efa góð áhrif á samfélagið okkar,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.