Geðræktarhús tekið formlega í notkun

Geðræktarhúsið í Kópavogi, sem stendur við Kópavogsgerði 8, var formlega tekið í notkun sl. föstudag. Bæjarfulltrúar Kópavogs komu saman í húsinu og funduðu um áætlanir næsta árs. Fyrir fundinn var bæjarfulltrúum boðið upp á erindi um samskipti og áskoranir leiðtoga sem Þórkatla Aðalsteinsdóttir sálfræðingur flutti.

Í tengslum við alþjóðageðheilbrigðisdaginn 10. október 2020 ákvað bæjarstjórn Kópavogs að gamla Hressingarhælið fengi það hlutverk að vera Geðræktarhús, miðstöð fræðslu og forvarnarstarfs á sviði geðheilbrigðismála hjá bænum.

Nú hefur húsið verið innréttað og er þannig tilbúið til notkunar. Húsið er á þremur hæðum. Á hverri hæð eru litlir salir auk þess sem í húsinu er eitt fundarherbergi og vinnuherbergi.
Til að byrja með verður áherslan á börn og ungmenni en Kópavogur fékk viðurkenningu UNICEF og félagsmálaráðuneytisins sem Barnvænt sveitarfélag í maí á þessu ári. Námskeið sem mennta- og velferðarsvið bæjarins halda úti verða flutt í húsið en það eru til dæmis  námskeið um kvíða barna á ólíkum aldursskeiðum.

Húsið var tekið í notkun árið 1926 en það er reist fyrir tilstuðlan Hringskvenna sem settu á laggirnar hressingarhæli fyrir berklasjúklinga. Arkitekt hússins er Guðjón Samúelsson. Kópavogsbær hefur undanfarin ár unnið að endurbótum á því að utan sem innan.

Á myndinni eru frá vinstri: Margrét Tryggvadóttir, Karen E. Halldórsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Hjördís Ýr Johnson, Bergljót Kristinsdóttir, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, Pétur Hrafn Sigurðsson, Einar Örn Þorvarðarson, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, Helga Hauksdóttir, Guðmundur G. Geirdal.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar