Geðræktarhúsið í Kópavogi, sem stendur við Kópavogsgerði 8, var formlega tekið í notkun sl. föstudag. Bæjarfulltrúar Kópavogs komu saman í húsinu og funduðu um áætlanir næsta árs. Fyrir fundinn var bæjarfulltrúum boðið upp á erindi um samskipti og áskoranir leiðtoga sem Þórkatla Aðalsteinsdóttir sálfræðingur flutti.
Í tengslum við alþjóðageðheilbrigðisdaginn 10. október 2020 ákvað bæjarstjórn Kópavogs að gamla Hressingarhælið fengi það hlutverk að vera Geðræktarhús, miðstöð fræðslu og forvarnarstarfs á sviði geðheilbrigðismála hjá bænum.
Nú hefur húsið verið innréttað og er þannig tilbúið til notkunar. Húsið er á þremur hæðum. Á hverri hæð eru litlir salir auk þess sem í húsinu er eitt fundarherbergi og vinnuherbergi.
Til að byrja með verður áherslan á börn og ungmenni en Kópavogur fékk viðurkenningu UNICEF og félagsmálaráðuneytisins sem Barnvænt sveitarfélag í maí á þessu ári. Námskeið sem mennta- og velferðarsvið bæjarins halda úti verða flutt í húsið en það eru til dæmis námskeið um kvíða barna á ólíkum aldursskeiðum.
Húsið var tekið í notkun árið 1926 en það er reist fyrir tilstuðlan Hringskvenna sem settu á laggirnar hressingarhæli fyrir berklasjúklinga. Arkitekt hússins er Guðjón Samúelsson. Kópavogsbær hefur undanfarin ár unnið að endurbótum á því að utan sem innan.
Á myndinni eru frá vinstri: Margrét Tryggvadóttir, Karen E. Halldórsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Hjördís Ýr Johnson, Bergljót Kristinsdóttir, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, Pétur Hrafn Sigurðsson, Einar Örn Þorvarðarson, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, Helga Hauksdóttir, Guðmundur G. Geirdal.