Fyrst og fremst reyni ég að þroskast heildrænt sem leikmaður og liðsmaður á hverju ári – segir Höskuldur Gunnlaugsson

Höskuldur er fyrirliði meistaraflokks Breiðabliks í knattspyrnu karla og átti stóran þátt í að félagið varð Íslandsmeistari á árinu. Hann spilaði alla leikina í mótinu, alls 27 leiki og skoraði 9 mörk. Í lok tímabilsins var hann var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins af leikmönnum Bestu deildar karla ásamt því að vera valin í lið ársins í Bestu deildinni. Höskuldur hefur verið lykilmaður og frábær leiðtogi í Breiðabliksliðinu undanfarin ár bæði innan vallar sem utan. Hann er virkilega góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins, bæði hvað varðar ástundun en ekki síður hvernig hann kemur fram fyrir hönd félagsins.

Dýrmæt viðurkenning

En hvað segir Höskuldur, þessi útnefning er sjálfsagt lokapunkturinn á flottu ári hjá þér og Breiðablik? ,,Jú, það má alveg segja það, sannarlega flott og endanlegt uppgjör á farsælu og skemmtilegu fótboltaári. Þetta er auðvitað dýrmæt viðurkenning fyrir mig, sem er tilkominn vegna þess að ég er í frábæru liði og með gott fólk allt í kringum mig,“ segir hann.

Bæði tímabilin verða ógleymanleg í minningum

Þú varst einnig valinn Íþróttakarl Kópavogs fyrir árið 2022, en þá varð Breiðablik líka Íslandsmeistari. Þetta voru samt mjög ólík tímabil í raun, hvort árið var skemmtilegra ef þú horfir til baka og hvort liðið mundi sigra ef liðin léku innbyrðis? ,,Það er rétt, leiðirnar að Íslandsmeistaratitlunum, annars vegar tímabilið 2022 og hins vegar 2024 voru gjörólíkar og reyndu mismunandi á okkur. Bæði þessi tímabil verða ógleymanleg í minningum okkar og stuðningsmanna. Það er eiginlega ekki hægt að gera upp á milli og ég hreinlega vill ekki stilla þessu þannig upp í mínum hugarheimi. Ég myndi halda að ef liðin léku innbyrðis myndu leikar enda með stórmeistara jafntefli;“ segir Höskuldur mjög dipló.

Sáttur með mitt framlag þetta árið

En hvað með þig sjálfan, þú áttir mjög gott ár í sumar, Íslandsmeistaratitill og valinn bestur í deildinni – sáttur og ertu ennþá að bæta þig sem knattspyrnumaður – betri í fyrra en árið 2022? ,,Já, ég get ekki verið annað en sáttur með mitt framlag þetta árið. Ég er allavega alltaf að stefna á að bæta mig og þroskast á hverjutímabili og ég held að það sé einmitt lykilinn að því að halda stöðugleika. Það eru svo sem alveg mörg tæknileg og taktísk atriði sem ég reyni að bæta og þróa áfram í mínum leik, en fyrst og fremst reyni ég að þroskast heildrænt sem leikmaður og liðsmaður á hverju ári.“

Höskuldur var valinn besti leikmaður Bestu deildarinnar árið 2024, valið af leikmönnum liðanna.

Munum nýta okkur þá reynslu sem við búum að

Hvað með næsta sumar, ykkur gekk dálítið erfiðlega að fóta ykkur í Bestu deildinni árið 2023 eftir sigurinn árið 2022, en komust í milliriðla Sambandseildarinnar, fyrst íslenskra liða, sem var stór og mikill áfangi – áttu von á að þið náið að samtvinna þetta betur saman á komandi tímabili? ,,Það verður allavega stefnan og ég trúi ekki öðru en að við munum nýta okkur þá reynslu sem við búum að, bæði sem einstaklingar, lið og klúbbur í heild sinni. Ég trúi því að fyrri reynsla muni reynast dýrmæt til þess að vera keppnishæfir á báðum vígstöðum, út allt næsta tímabil.“

Þú hefur gert það að vana þínum að vera ekki viðstaddur íþróttahátíðina þegar þú ert valinn Íþróttakarl Kópavogs. Varst á Algarve með íslenska landsliðinu er þú varst valinn 2022 og núna á Tenerife – hvað er það? ,,Mér sýnist ég kannski þurfa að plana fríin mín betur,“ segir hann og brosir.😉

Þetta eru löng tímabíl í fótbotlanum og lítið um frí, er gott að geta kúplað sig aðeins út og skellt sér í sólina eða tekur þú æfingu á hverjum degi þegar þú loks leyfir þér að fara í smá frí? ,,Í sannleika sagt líður nú ekki langur tími þar til maður er orðinn eirðarlaus og sólginn í að hreyfa sig og taka á því í svona fríum. Mér finnst hins vegar mikilvægt að nýta tímann þegar maður fær frí og brjóta upp fótboltarútínuna, þ.e. ég reyni að stunda annars konar hreyfingu og það hefur reynst mér einkar vel.“

Blessunarlega hefur mér alltaf fundist skemmtilegt á undirbúningstímabilunum

En þú ert mættur heim, æfingarnar komnar á fullt. Mætir Höskuldur enn sterkari til leiks næsta sumar og hvað með íslenska landsliðið – það stefnir í að það verði íslenskur landsliðsþjálfari sem þekkir betur til og mun fylgjast vel með Bestu-deildinni – sett stefnuna að komast aftur þar inn – alltaf markmið hjá þér? ,,Já, loksins eru æfingar farnar af stað á fullu aftur. Blessunarlega hefur mér alltaf fundist skemmtilegt á undirbúningstímabilunum, að fá að bretta upp ermar, púla og svitna. Ég lít alls ekki á það sem einhverja kvöð. Svo lengi sem ég er samur við sjálfan mig og með hungrið til staðar, þá trúi ég ekki öðru enn að maður mæti enn sterkari til leiks á næsta tímabili.“

Væri náttúrulega ótrúlega gaman að fá tækifæri aftur með landsliðinu

,,Það væri náttúrulega ótrúlega gaman að fá tækifæri aftur með landsliðinu og ég tel mig alveg geta átt mikilvægt framlag þar. Hvort ég fæ síðan tækifærið eða ekki er að einhverju leyti ekki undir mér komið, nema þá að sjá til þess að ég sé áfram að standa mig með mínu liði, og þar er einfaldlega fókusinn minn,“ segir Höskuldur. 

Skynjar heilt yfir góða stemmningu, mikið hungur og vilja í öllum klúbbnum

Annars bjartsýnn á gott gengi Breiðabliks næsta sumar, þið mætið með sterkt lið til leiks og ertu farinn að hlakka til sumarins þrátt fyrir að það séu ekki nema rétt rúmir tveir mánaður síðan þú lyftir Íslandsmeistaratitlinum á heimavelli Víkings, velli Hamingjunnar, sem hann sannarlega var 27. október sl.? ,,Jú, við erum bjartsýnir í Smáranum fyrir komandi tímabili og maður skynjar heilt yfir góða stemmningu, mikið hungur og vilja í öllum klúbbnum til þess að gera glæsilega hluti og skapa frekari dýrmætar minningar saman,“ segir íþróttkarla Kópavogs árið 2024 að lokum.

Forsíðumynd. Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks og Íþróttakarl Kópavogs 2024. Fyrir aftan Höskuld er allir bikararnir sem hann vann til árið 2024.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar