Það verða furðuverur og forynjur sem eiga sviðið á stórtónleikum Skólahljómsveitar Kópavogs, miðvikudagskvöldið 30. október. Kvöldið fyrir Hrekkjavökuna stíga um 160 ungir hljóðfæraleikarar úr Skólahljómsveitinni á svið í Háskólabíói og flytja tónlist sem á einn eða annan hátt tengist furðuverum og ævintýrapersónum. Frá hljóðfærunum munu berast tónar sem minna á undarlegar og kannski pínu hrollvekjandi verur, kóngulær og sjóræningjar koma við sögu og óperudraugur lætur á sér kræla. Það verður gaman fyrir áhorfendur að lygna aftur augum og ímynda sér söguþráðinn sem falinn er í tónlistinni. Unga fólkið í SK hefur verið að undirbúa og æfa lögin fyrir tónleikana í tvo mánuði og meðal annars farið í æfingabúðir yfir heila helgi til að ná sem bestum tökum á lögunum sínum.
Yngstu hljóðfæraleikararnir hefja tónleikana með nístandi draugatónlist, en þau hafa lært á hljóðfæri í eitt til tvö ár. B sveitin skipuð nemendum á þriðja til fimmta vetri stígur næst á stokk og spennan verður síst minni hjá þeim. Eftir hlé mæta svo elstu krakkarnir á sviðið og leika krefjandi og ógnvekjandi verk.
Krakkarnir lofa skemmtilegum og óvenjulegum tónleikunum og vona þó að enginn fari hræddur heim á eftir.
Stjórnendur hljómsveitanna eru Össur Geirsson og Gunnlaugur Bjarnason.