Fróður um gróður

Steinn Kárason garðyrkjumeistari og umhverfishagfræðingur hefur í vor flutt fróðleg erindi um trjá- og runnaklippingar, matjurta- og kryddjurtarækt, íslenskar lækningajurtir og ræktun ávaxtatrjáa í Bókasafni Kópavogs.

Hátt á fjórða hundrað manns hafa sótt erindi Steins sem er höfundur bókanna GARÐVERKIN og TRJÁKLIPPINGAR, auk annarra bóka. Hann hefur m.a. kennt við Garðyrkjuskólann og umhverfis- og auðlindahagfræði við Háskólana á Akureyri og Bifröst. Steinn er Kópavogsbúi til margra ára og hefur einnig unnið að gæðamálum fyrir Kópavogsbæ og sinnir garðaráðgjöf fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Kópavogspósturinn fékk að ausa úr viskubrunni hins góðkunna garðyrkjufræðings Steins Kárasonar og biður lesendur sína sem þyrstir í „grænan fróðleik“ vel að njóta.

Trjáklippingar

Nauðsynlegt er að laga til vöxt viðarplantna. Með því að klippa reglulega og á markvissan hátt næst betri ræktunarárangur. Rétt trjáklipping gefur gróðrinum meira notagildi og meira yndis má af honum njóta. Það er hægt stýra vexti, þéttleika, hæð og umfangi gróðurs. Einnig er hægt að hafa áhrif á blómmyndun til þess að auka blómgun og þar með uppskeru berja og aldina. Röng vinnubrögð geta hins vegar leitt til hins gagnstæða.
Aðal klippingatíminn er að vetri og snemma vors á meðan gróðurinn er í mestri hvíld, því þá er auðveldara að átta sig á vaxtarlaginu en á fulllaufguðum gróðri. En vel að merkja, það má klippa allan ársins hring, en áherslur klippingarinnar verða hins vegar að miðast við tegundir, aðstæður á vaxtarstað og tilgangi með ræktun hverrar tegundar. Limgerði t.d. má snyrta tvisvar til þrisvar að sumri, seinast í ágústbyrjun.
Síst af öllu ætti að klippa í kringum lauffall að hausti. Víðitegundir og alaskaaspir þola t.d.,haust- og vetrarklippingu og einnig birki þegar líður að áramótum. Sveppasýking getur hrjáð gullregn og ilmreyni og ætti því fræðilega séð að klippa þær tegundir að vori og fyrri hluta sumars.

Fullgild fræðileg rök má færa fyrir því að best sé að grisja að sumri. Ástæðan er sú að þá er lífs- og varnarþróttur plantna mestur, sárin fara strax að gróa og gró fúasveppa í andrúmslofti eru í lágmarki. Reynslan hefur samt kennt að réttar aðfarir við trjáklippingu skipti meira máli en tímasetningin.

Helstu reglur við trjáklippingu

Sömu meginreglur gilda um klippingu trjáa og runna. Við gróðursetningu þarf að móta vaxtarlagið og klippa burt skaddaðar greinar og rætur.

Fjarlægja skal kalkvisti og dauðar greinar og það má gera allt árið. Svo er hafist handa við að móta vöxt plantnanna. Ágæt regla er að fjarlægja ekki meira af greinum í einum áfanga af hverri plöntu en sem nemur fjórum hlutum af tíu. Þessi regla er þó þverbrotin t.d. við endurnýjun á sumum víðitegundum og birkikvisti.

Krónuklipping

Viturlegt er að klippa tré reglulega, frá gróðursetningu til fullorðins ára. Gera skal greinarmun á margstofna og einstofna trjám. Grundvallarregla trjáklippinga, einkum krónuklippingu er að klippa ofan við útlægt brum eða grein og skilja ekki eftir stubba. Markmiðið með klippingu á reynivið er að vel lofti um trjákrónuna. Meiriháttar klippingu á hlyn og birki ætti að framkvæma meðan trén eru í hvíld, í febrúar mars, því skömmu fyrir laufgun blæðir úr sárunum. Á þeim tíma er oft dregið úr klippingu þessara tegunda. Góðir fagmenn geta metið hve mikið skuli klippa við mismunandi aðstæður á hvaða árstíma. En eftir laufgun má hins vegar klippa að nýju.
Bestur árangur næst við grisjun trjákrónu ef fjarlægðar eru nokkrar stórar greinar, fremur en margar smáar. Með því að fylgja grundvallar reglum við klippingarnar næst sá árangur sem að er stefnt.

Greni og fura

Ef stytta þarf langar greinar á greni er klippt við greinaskil án þess að skilja eftir stubba, hið sama gildir um furu. Þegar um tvítoppa eða margtoppa tré er að ræða skal fjarlægja lakari greinarnar en skilja eftir besta toppinn. Flest barrtré eru klippt síðvetrar, að vori og sumri svo sárin lokist fyrir haustið. Til að þétta vöxt furu eru vorsprotarnir eða „brumin“ brotin í sundur þegar þau hafa náð þriggja til fimm sentímetra leng

Matjurta- og kryddjurtarækt

Flestum mat- og kryddjurtum þarf að forsá innan dyra við bjartar aðstæður um miðjan apríl. Sáðtöflur er að finna í bókinni GARÐVERKIN sem upplýsa um tegundir, sáðtíma og ræktunaraðferðir. Algengustu káltegundirnar eru, hvít,- blóm,- grænkál og rófur. Leiðbeiningar eru á fræpökkum og ráðgjöf fæst í garðyrkjuverslunum. Fyrst vaxa kímblöðin, en þegar fyrstu blöðin þroskast er plöntunum eru plantað einni og einni (prikklað) í litla potta til áframhaldandi ræktunar. Þegar hlýnar í byrjun júní eru plönturnar hertar, – vandar við útiloftið smám saman og svo er gróðursett. Agríl- eða plastdúk má breiða yfir til skjóls.

Gulrótum þarf að sá beint í garðinn í apríl – maí. Gulrætur eru ekki forræktaðar. Síðustu forvöð til að sá gulrótum undir plast/agríldúk utandyra er í byrjun júní. Þeir sem ekki ala upp sitt grænmeti sjálfir geta að sjálfsögu nálgst ungplöntur af ýmsu tagi í gróðrar- og garðverslunum. Í venjulegu árferði er tímabært að gróðursetja grænmeti í lok maí og fram í miðjan júní.

Nokkrum grænmetistegundum má sá beint út í garð, s.s. radísum, salati og karsa. Það má gera á tveggja – þriggja vikna fresti yfir sumarið. Einnig sykur- og skálpbaunum beint út. Baunirnar þurfa upp bindingu. Gulrótafræ má leggja í beyti í dagstund eða svo til að flýta fyrir spýrun. Baununum líka í fáeina klukkutíma, en þær geta „kafnað“ ef þær eru of lengi í vatninu. Grænkál t.d. jarðarber og baunir má vel rækta í stórum pottum á sólríkum svölum.

Baunaræktun á vaxandi vinsældum að fagna. Baunirnar inni í skálpnum eru plokkaðar úr og snæddar, eins og þær á myndinni. Skálpar sykurbauna eru snæddir í heilu lagi.

Kartöflur ætti að láta forspíra inni áður en þær eru settar niður. Mörg afbrigði eru fáanleg, s.s. Gullauga Helga og Rauðar. Þeir sem eru með lítið umleikis geta notað valdar matarkartöflur úr matvöruverslunum.
Allt grænmeti þarf næringu, blandaðan áburð, t.d. blákorn og þangmjöl/þörungamjöl. Hrossa-og sauðatað ásamt moltu er gulls ígíldi. Kalk þarf einnig. Sporumix er snefilefnaáburður sem hentar t.d. blómkáli og rófum. Spyrjist fyrir hjá fagmönnum.

Athugið að kartöflur vilja alls ekki kalk, heldur alhliða næringu. Ef kartöflunar eru með „kláða“ mætti bjóða þeim upp á smá brennistein, – en bara „oggulítið“ – leiðbeiningar eru á ílátinu. Muna svo að vökva er þurrkar ganga og reyta arfann.

Íslenskar lækningajurtir

Íslenskar lækningajurtir hafa verið notaðar til lækninga og matar frá örófi alda. Ég hef haldið um þær námskeið og fyrirlestra víða um land og stefni á að verða með námskeið næsta vor. Ég ráðlegg áhugasömum að eignast bækur um íslenskar lækningajurtir sem fást í bókaverslunum. Íslensku jurtirnar eru flestar heilsusueflandi og mildar.

Ætihvönn sem dæmi, er algeng víða um land í hvömmum við læki og ár, í skógum og klettum. Öll plantan er nytjuð. Blöðum og stönglum er safnað á sumrin en fræinu síðsumars og að hausti. Fyrsta árs rót er tekin að hausti. Hvannasúpa er ljómandi góð. Í hana er sett ögn af kerfli til bragðbætis ásamt kryddi að smekk.
Ætihvönn inniheldur ilmolíur og sýkladrepandi efni. Hún var þýðingarmikil lífsbjörg fyrr á öldum, oft geymd í skyri. Hvönninni eru gerð fróðleg og skemmtileg skil í Fóstbræðrasögu og Gerplu Halldórs Laxness. Neysla á hvönnin getur fækkað þvaglátum að næturlagi.

Aðrar afbragðsplöntur eru t.d. vallhumall í te og seyði, blóðberg sem krydd og í te, mjaðurt sem magastillandi, skarfakál, stútfullt af c-vítamíni og fjallagrösin heilnæmu.

Blóðberg er ljómandi góð sem kryddjurt og hentar í te og seyði.

Ávaxtatré

Eplatré í sunnlenskum garði. Falleg og bragðgóð uppskera.

Epli, perur, plómur og kirsiber hafa verið ræktu hérlendis um langt árabil bæði innandyra og utan og nokkur reynsla er komin þar á. Meginreglan er sú að þessi tré eru ágrædd.

Til eru mörg þúsund „afbrigði“ af eplagreinum og fjöldinn allur af eplarótum. Fjöldinn er svo mikill að til eru miklir listar yfir allann fjöldann. Eplatré geta verið sjálfrjóvgandi eða hálfsjálffrjóvgandi. Öruggast er að hafa fleiri en eitt tré. Handfrjóvgun er ákjósanleg einkum innan dyra en flugur og andvarinn eru vinir eplabóndans“. Ég ráðlegg áhugasömum að leita ráða hjá sérfæðingum á sölustöðum um val á yrkjum.

Jarðvegur fyrir epli, perur, plómur þarf að vera raka- og áburðarheldinn en jafnframt hæfilega gljúpur. Jarðvegsdýpt 50-80 cm eða meira. Kannski heldur grynnra fyrir kirsiber. „Sýrustig“/ pH fyrir epli og perur er hæfilegt um pH 6 en fyrir plómur og kirsuber milli 7-8. Athugið að rætur trjánna liggja að mestu í efstu 40 cm jarðvegsins og að „mikill“ jarðvegur jafnar og miðlar raka og næringu. Gamall húsdýraáburður er góður í holubotninn, einnig þörungamjöl. Blákorn er alhliða áburður sem hentar vel og ögn af þrífosfati aukalega sakar ekki.

Ávaxtatré þurfa gott skjól og mikla sól, gjarna á móti suðri og vestri. Köld gróðurhús eða garðskálar eru að sjálfsögðu vænlegir til ræktunar. Hægt að rækta trén frístandandi eða á grind upp við vegg. Einnig á svokölluðu súluformi. Góðar skýringarmyndir um klippingu og meðferð ávaxtatrjáa er að finna í bókinni TRJÁKLIPPINGAR.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar