Stærsta raftækjaverslun landsins, ELKO Skógarlind, opnaði í morgun dyr sínar að nýju fyrir viðskiptavini eftir mikla upplyftingu og endurbætur á húsnæðinu, en versluninni var lokað tímabundið 17. október sl.
Kópavogspósturinn/Garðapósturinn sló á þráðinn til Óttars Arnar Sigurbergssonar, framkvæmdastjóra ELKO og spurði hann nánar um verkefnið og tilganginn.
Vildum gera verslunina nútímalegri og aðgengilegri
Hver er ástæðan fyrir því að þið réðust í þetta verkefni og hvað breytingar hafa verið gerðar á húsnæðinu? ,,ELKO hóf starfsemi á Smáratorgi árið 1998, en 2008 var verslunin flutt í nýtt húsnæði við Skógarlind. Síðan þá hefur verslunin bara verið endurnýjuð einu sinni árið 2015 þegar nýtt vörumerki ELKO var kynnt til leiks. Raftækjamarkaðurinn er alltaf á fleygiferð og vöruúrval breytist í takti við nýja tækni. Það gerir kröfu á okkur um að vera vel vakandi og endurnýja verslanir með reglulegu millibili. Við ákváðum að ráðast í framkvæmdir og breytingar í ELKO Lindum sem er löngu búin að sanna sig sem stærsta raftækjaverslun landsins og var að hefja níunda rekstrarár í óbreyttri mynd. Við vildum gera verslunina nútímalegri og aðgengilegri og auðvelda okkur að veita betri þjónustu,“ segir Óttar Örn og heldur áfram: ,,Við gerðum töluverðar breytingar. Til dæmis var skipt um alla klæðningu á ytra byrði, inngangur var færður til að bæta flæði og byggður stór og glæsilegur glerinngangur. Kassasvæðið var sameinað þjónustuborði inni í versluninni til að bæta þjónustu og minnka biðtíma og inni í versluninni hefur verið bætt við sérstöku svæði fyrir ráðgjöf til fyrirtækja. Svo var öll loftræsting tekin í gegn til að bæta loftgæði. Baksvæði voru líka endurhugsuð með bætta þjónustu í huga og útbúnar betri skrifstofur fyrir stjórnendur verslunar.“
Lifandi efni á skjám um alla verslun
Og mun upplifun viðskipavina verða allt önnur nú þegar þeir ganga inn í endurbætta verslun ELKO – eruð þið búin að skapa hálfgerðan ævintýraheim? ,,Upplifun viðskiptavina verður vonandi allt önnur enda engu til sparað í innréttingum, útliti eða merkingum. Verslunin er með lifandi efni á skjám út um allt. Þar er að finna um átta LED Matrix skjái ásamt yfir 30 sjónvarpstækjum til upplýsingagjafar, en þau bætast við öll þau sjónvörp sem eru til sölu. Í leikjadeildinni er svo risastór skjár sem hægt er að tengja allt að átta leikjaspilara inn á og fylgjast með sem hentar mjög vel í tölvuleikjamót.
Á öllum innréttingum eru merkingar sem eiga auðvelda fólki að rata um og finna rétta vörur. Verslunin er mjög vel merkt, enda fengum við heilan 40 feta gám bara með merkingum og ætti því ekkert að vanta. Því til viðbótar verður hægt að sjá staðsetningu allra vara í Lindum í sérstöku staðsetningarkerfi inni á elko.is. Þar getur fólk fundið vöruna sem það leitar að, séð á korti hvar hún er í versluninni og svo blikkar rafrænn hillumiði til leiða fólk á nákvæmlega réttan stað,“ segir hann og bætir við: ,,Við leggjum líka mikið upp úr því að hafa sýningareintök af öllum vörum svo hægt sé að handleika þær, snúa, skoða og meta. Í Lindum er vörunum gert hærra undir höfði til að auðvelda fólki ákvarðanir um innkaupin. Svo höldum við líka í þætti sem fólk þekkir, svo sem endurvinnslukassa fyrir raftækiog innpökkunarborð sem margir nýta sér.“
Versluninni hefur algerlega verið snúið við
Er búið að snúa öllu á hvolf í versluninni eða geta viðskiptavinir gengið að raftækjunum og öðrum vörum á sama stað og þær voru áður? ,,Versluninni hefur algerlega verið snúið við í skipulagi miðað það hvað var áður. Flæði inn í verslun og uppröðun vöru er samkvæmt nýjustu stöðlum. Verslanir ELKO í Lindum og Skeifunni eru nú settar eins upp, með sömu uppröðun vöruflokka og því ættu reglulegir viðskiptavinir að þekkja sig, óháð því hvaða verslun er heimsótt. Til þess að geta sett upp þetta nýja flæði í versluninni var inngangnum til að mynda hliðrað og kassasvæði fært.“
Í Gaming deildinni verður hægt að bjóða upp á viðburði, mót og keppnir
En eru þið að bjóða upp á einhverjar nýjungar í þjónustunni og jafnvel nýjar vörulínur? ,,Verslunin hefur verið skjávædd og er sjón sögu ríkari, í Gaming deildinni verður til að mynda hægt að streyma leikjum úr allt að 6 tölvum á stórum skjá sem býður upp á skemmtilega viðburði, mót og keppnir í rafíþróttum. Þessa á milli verða sýnd skemmtileg brot úr nýjustu leikjunum ásamt öðru rafíþróttatengdu efni.“
Styttri biðtími og bætt þjónusta
,,Við höfum sett upp nýjustu gerð af númerakerfi bæði fyrir söluráðgjafa og á þjónustusvæði með stórum og sýnilegum sjónvarpsskjám, sem mun stytta biðtíma og bæta þjónustuna. Staðsetningarkerfi vara á elko.is verður svo komið í gang nokkrum dögum eftir opnun. Í fyrirtækjaráðgjöf er nú að finna sýningareintök vara sem eru sniðnar að fyrirtækjum og söluráðgjafi er fyrirtækjum innan handar með þjónustu.“
Boðið upp á fágað val unaðsvara í Lindum
,,Svo er nýjung í Lindum að þar hefur verið sett upp vörulína af unaðsvörum, sem hafa eingöngu verið í sölu í Skeifunni, á Akureyri og í vefversluninni hingað til en nú bjóðum við þennan vöruflokk velkominn í nýja verslun í Lindum. Um er að ræða fágað úrval unaðsvara og passar úrvalið vel innan um aðrar heilsu- og snyrtivörur sem eru í úrvali ELKO.
Stærsta breytingin er þó að núna eru þjónustuborð og afgreiðslukassar á sama svæði. Það er því á einum stað sem fólk greiðir fyrir vörur, sækir eftirkaupaþjónustu eða fær ráðgjöf um uppsetningu á tækjunum.
Í Lindum verður svo áfram hægt að fá sérsniðnar öryggisfilmur á farsíma, snjallúr og tölvur og höldum áfram að kaupa notuð raftæki af viðskiptavinum. Í versluninni verða svo nokkur eldhús og þvottahús sett upp á stóru svæði til að sýna vörurnar í sínu eðlilega umhverfi,“ segir hann.
Ef þú slakar á í smástund missir þú forskotið
Eru verslanir ELKO og þjónustan alltaf í stöðugri þróun og endumati, eru þið ávallt að takast á við ný verkefni og auknar kröfur? ,,Það er algjört lykilatriði að sinna framþróun því ef þú slakar á í smástund missir þú forskotið. Svo erum við ekki bara að eiga við keppinauta innanlands heldur keppum við í alþjóðlegu netverslanaumhverfi þar sem samkeppnin getur verið hvar sem er í heiminum. Við höfum því lagt upp úr einstakri upplifun í verslunum okkur og að þar sé boðið upp á framúrskarandi þjónustu og verulega hagstæða kaupskilmála. Bara til að nefna nokkur atriði þá bjóðum við upp á 30 daga skilarétt þar sem þú mátt hafa prófað vöruna sem og jólaskilamiða sem eru nú þegar komnir í gagnið með skilarétti til 31. janúar.“
Komumst ekki langt í að eiga ánægðustu viðskiptavinina nema að eiga líka ánægðasta starfsfólkið
Og er spenna og eftirvænting á meðal starfsfóksins að opna í raun nýja glæsilega verslun? ,,Starfsfólkið okkar hefur staðið sig eins og hetjur í þessu erfiða framkvæmdaumhverfi sem verið hefur síðustu mánuði. Þau eiga öll hrós skilið og get ég fullyrt að þau hlakkar til að fá nýrri og betri verslun til að vinna í næstu árin. Mikið var lagt upp úr að gera alla aðstöðu starfsfólks mun betri en áður var. Starfsfólk okkar fær nú mun betri loftræstingu, stærra og betri kaffiaðstöðu, kósý-herbergi til að slaka á eftir mat, betri skrifstofur fyrir stjórnendur og betri baksvæði til að vinna í þjónustumálum. Við komumst ekki langt í að eiga ánægðustu viðskiptavinina nema við eigum líka ánægðasta starfsfólkið.“
Risaopnunartilboð í ELKO Lindum
Og svo eru stórir dagar framundan m.a. Svartur föstudagur og svo styttist í jólatörnina – það verður því nóg um að vera hjá ykkur á næstunni? ,,Við verðum með risaopnunartilboð í ELKO Lindum sem hófust í morgun og standa yfir alla helgina og verða tilboðin eingöngu í boði í verslun ELKO í Lindum. Við bjóðum sem flest velkomin að skoða verslunina og taka um leið forskot á tilboðsdagana í nóvember þar sem hægt verður að tryggja úrval vara á fræbærum opnunartilboðum og jafnvel hægt að klára einhver jólagjafainnkaup í leiðinni. Eftir opnun eru svo líka á döfinni stórir tilboðsdagar: Dagur einhleypra á elko.is, svartur fössari í öllum verslunum, stafrænn mánudagur á elko.is og svo sjálf jólin. Fram undan er stórt sölutímabil í ELKO og við erum tilbúin í það með fullt vöruhús. Um miðjan nóvember skreytum við svo verslanir okkar og komum þeim í jólaútlit.“
Heyrnartól og farsímar klárlega haft vinningin
Og þar sem styttist óðum í jólin, hver hefur verið vinsælasta jólavaran í gegnum árin og hvað áttu von á að slái í gegnum fyrir þessi jól? ,,Síðustu ár hafa heyrnartól og farsímar klárlega haft vinninginn sem jólagjöf ársins og munu líklegast eiga það aftur þessi jól. Það eru hinsvegar fjölmargar spennandi jólagjafir í boði sem eflaust verða gríðarlega vinsælar. Þar má helst nefna vatnsbrúsann Stanley Quencher sem hefur selst í þúsundatali síðustu mánuði og svo er búist við að stafrænir myndarammar komi sterkir inn,“ segir Óttar Örn að lokum.
Forsíðumynd: Óttar Örn segir raftækjamarkaðinn alltaf á fleygiferð og það gerir kröfur til fyrirtækisins um að endurnýja þurfi verslanir ELKO með reglulegu millibili.