Framsýni fagnað á tímamótum

Rík ástæða er til að fagna því að nú eru liðin 70 ár frá því Kópavogur hlaut kaupstaðarréttindi.

Ásjóna bæjarins hefur aldeilis breyst á þeim tíma sem liðinn er frá kaupstaðarréttindum Þegar réttindin fengust voru íbúar bæjarins vel á fjórða þúsund en eru nú ríflega 40 þúsund talsins. Og aflið til verka hefur aukist að sama skapi. Innviðir eru sterkir og í dag rekur bærinn til að mynda á þriðja tug leikskóla, á annan tug grunnskóla og öfluga velferðarþjónustu. Menningarstarfsemi er rekin af miklum krafti í glæsilegum menningarhúsum bæjarins. Aðstaða fyrir íþróttastarf er með því besta sem gerist og félög bæjarins hafa fyrir löngu skipað sér í fremstu röð á landsvísu og víðar.

Á stórafmæli er við hæfi að þakka framsýni þeirra sem stýrt hafa bæjarfélaginu í gegnum þennan tíma og leitt umbreytingu þess úr fámennu og frumstæðu sveitarfélagi yfir í eitt öflugasta bæjarfélag á Íslandi. Með stuðningi íbúa á hverjum tíma hafa margsinnis valist til verka framsýnar framvarðasveitir hér í bæ sem ráðist hafa af krafti og djörfung í þau verkefni sem nauðsyn bar að leysa. Oft voru þessi verkefni leyst við krefjandi aðstæður, ekki síst fjárhagslega. Gildir þá einu hvort um er að ræða verklegar framkvæmdir eða eflingu þjónustu.

En verkefninu er hvergi nærri lokið. Áframhaldandi vöxt bæjarins þarf að tryggja þannig að unnt verði að skapa ný hverfi og samfélög innan bæjarfélagsins þar sem íbúar á öllum aldri fái notið lífsgæða og góðrar þjónustu Kópavogsbæjar. Þróun samfélagsins skapar sífellt nýjar eða breyttar þarfir íbúanna fyrir þjónustu sveitarfélagsins. Það gildir um alla þjónustuþætti þess. Yfir þessari þróun er mikilvægt að vera vakandi og bregðast tímanlega við og á skynsaman hátt.

Engin ástæða er til að ætla annað en að Kópavogur njóti velgengni áfram sem bæjarfélag til langrar framtíðar. Fyrir því eru allar forsendur til staðar. Á tímamótunum vil ég óska bæjarbúum öllum og velunnurum bæjarfélagsins hjartanlega til hamingju með áfangann. Megi gæfan verða bæjarfélaginu og íbúum þess hliðholl í framtíðinni.

Orri Hlöðversson, formaður bæjarráðs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins