Framsæknir skólar í Kópavogi

Áhersla á framsækni og metnað í menntun barna er eitt helsta einkenni farsælla samfélaga. Kópavogur á að setja markið hátt í þessum efnum til að byggja undir frekari hagsæld og framtíð.

Eins og í öðru þurfum við nýjar og ferskar hugmyndir. Rannsóknir sýna að aukið sjálfstæði skóla helst í hendur við betra nám fyrir nemendur og vaxandi ánægju starfsfólks. Við eigum því að huga að leiðum til að auka sjálfstæði skóla í Kópavogi enn frekar. Skólastjórnendur eiga til að mynda að fá aukið frelsi til að skipuleggja starf sitt í samræmi við skýran ramma bæjarfélagsins. Það má til dæmis velta því upp hvort að þörf sé á stimpilklukkum í grunnskólum, svo tekið sé dæmi. Það eru tækifæri til að auka sveigjanleika í grunnskólum Kópavogs sem nýtast bæði kennurum og vinnustaðnum án þess að það komi niður á menntun barna okkar. Kennarar, í samráði við stjórnendur skólanna, vita best hvernig hentugast er að haga deginum eftir að kennslu lýkur.

Skólar Kópavogs eiga áfram að vera leiðandi í stafrænni þróun og nýtingu tækninýjunga. Við getum nýtt tæknina enn betur til að skapa heildstætt og persónumiðað nám. Með réttum lausnum er hægt að samþætta betur kennsluefni milli skóla Kópavogs, kennsluefni sem á sama tíma tekur tillit til ólíkra þarfa og námsgetu nemenda. Slíkar lausnir eru til hagsbóta fyrir nemendur jafnt sem kennara.

Leikskólar bæjarins eru ein af grunnstoðunum í samfélaginu, ekki aðeins sem fyrsta skólastigið heldur einnig sem þjónusta við börn og foreldra. Uppbygging leikskóla þarf að vera í samræmi við fjölgun íbúa og finna þarf réttu leiðirnar til að leysa mönnunarvanda þeirra, bæði er varðar faglærða og ófaglærða starfsmenn. Það er mikilvægt að veita áfram stuðning til náms í leikskólafræðum og skoða möguleikann á að útvíkka slíkan stuðning til að ná til fleiri einstaklinga sem hafa bæði áhuga á að mennta sig í slíkum fræðum og starfa hjá bænum. Við þurfum jafnframt að styrkja ófaglærða starfsmenn til að sækja námskeið sem auka þjálfun og menntun þeirra. Báðar þessar leiðir eru til þess fallnar að meiri hvati sé til að vinna á leikskólum Kópavogs og til þess fallnar að brúa mönnunarvanda sem blasa við í dag.

Fyrir íbúa í Kópavogi skiptir höfuðmáli að framtíðarsýnin sé skýr. Skólamál gegna mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar og með aukinni áherslu á gæði og þjónustu byggjum við upp betri framtíð. Við eigum að sækja fram með ferskar hugmyndir, því framtíðin er í Kópavogi.

Höfundur er Ásdís Kristjánsdóttir og býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi þann 12. mars nk.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar