Framkvæmdarleyfi fyrir Arnarnesveginn gefið út um miðjan næsta mánuð?

,,Hönnun á Arnarnesvegi, frá Rjúpnavegi og að Breiðholtsbraut er lokið og fyrirhuguð framkvæmd tilbúin til útboðs,” segir G. Pétur Matthíasson forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar aðspurður hver staðan sé með fyrirhugaðar framkvæmdir, en Reykjavíkurborg og Kópavogur hafa unnið sameiginlegt deiliskipulag fyrir veginn þar sem vegurinn er í báðum sveitarfélögum. ,,Vegagerðin hefur óskað eftir framkvæmdaleyfi frá sveitarfélögunum og áætlar að bjóða út framkvæmdina um leið og tilskilin leyfi fást,” segir hann en áætlað er að framkvæmdir standi yfir í 2,5-3 ár eftir að þær hefjast.

En hvenær stendur til að veita framkvæmdarleyfi? ,,Það styttist í að framkvæmdaleyfi verði gefið út að því er mér skilst, en það hvílir á birtingu skipulags sem ætti að verða innan tíðar. Þannig að við reiknum frekar með því að leyfi verði gefið út um miðjan næsta mánuð,“ segir Pétur.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar