Arnar Pétursson frjálsíþróttamaður úr Breiðabliki og Tinna Sif Teitsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2021, en svo skemmtilega vill til að eru frændsystkini í föðurætt, en ömmur þeirra, Þórey og Ragna, eru systur.
Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum sl. fimmtudag. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 200 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni.
Arnar og Tinna Sif voru valin úr hópi 46 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.
Arnar Pétursson
Arnar vann alls níu íslandsmeistaratitla á árinu 2021. Þetta gerði hann í mismunandi greinum allt frá 1500m hlaupi innanhús og upp í heilt maraþon úti. Hann sigraði einnig í 800 m hlaupi á Reykjavík International Games 2021. Arnar hefur samtals orðið 45 sinnum Íslandsmeistari í langhlaupum á löngum ferli sínum. Hann er fyrirmynd annarra hlaupara á landsvísu og býr yfir mikilli ástríðu fyrir íþrótt sinni. Auk þess að stunda hlaup sjálfur starfar Arnar sem hlaupaþjálfari og fyrirlesari en hann býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af hlaupum. Arnar var valinn frjálsíþróttakarl ársins 2021 hjá Breiðabliki jafnframt því að vera útnefndur götuhlaupari ársins hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands.
Tinna Sif Teitsdóttir
Tinna Sif varð Evrópumeistari í hópfimleikum kvenna með íslenska landsliðinu nú í desember 2021. Þar var hún mikilvægur hlekkur í úrslitakeppninni er hún skilaði flottum umferðum á dýnustökki og var með frábærar gólfæfingar. Hún er uppalin Gerplukona sem hóf ferilinn í áhaldafimleikum og náði að vinna til fjölda Íslands- og bikarmeistaratitla í þeirri grein. Þegar hún skipti yfir í hópfimleikana var hún fljót að tileinka sér hópfimleikagreinarnar, á dýnu og trampólíni og ekki síst í gólfæfingum. Hún varð í 2. sæti á Íslandsmótinu í hópfimleikum með liði Gerplu. Þar skilaði hún að meðaltali fjórum umferðum og var lykilmanneskja í æfingum á gólfi og var valin í íslenska landsliðið.
Forsíðumynd: Frændsystkinin og íþróttafólk Kópavogs 2021 ásamt Pétri Hrafni Sigurðssyni, föður Arnars, og bæjarfulltrúa í Kópavogi