Frábær andi og mikið hungur í hópnum – segir Halldór Árnason þjálfari Breiðablik, en Besta deildin hefst í dag er Blikar fá Aftureldingu í heimsókn

Breiðablik, undir stjórn Halldórs Árnasonar, hefur undanfarna mánuði undirbúið sig af kappi fyrir komandi tímabil í Bestu deild karla í knattspyrnu, sem hefst í kvöld, laugardaginn 5. apríl, er Breiðablik tekur á móti nýliðum Aftureldingar á Kópavogsvelli kl. 19:15.

Töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum, bæði með komu nýrra leikmanna og þá hafa nokkrir leikmenn hvatt félagið.

En hvað segir Halldór, hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið, sáttur og hafið þið verið að leggja áherslur á eitthvað sérstakt framar öðru á undibúningstímabilinu? ,,Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel. Það hefur verið frábær andi og mikið hungur í hópnum. Við höfum ekki breytt miklu, heldur einblínt á það sem við höfum gert vel og viljum halda áfram að byggja ofan á það,“ segir Halldór.

Nýtt tímabil þar sem allir byrja með hreint blað

En hvernig er það að koma inn í mótið sem handhafar Íslandsmeistaratitilsins – er það meira krefjandi fyrir þjálfarann og leikmennina og hafa menn dregið einhvern lærdóm af Íslandsmeistaraárinu 2022 og keppnistímabilinu árið eftir sem fór ekki vel? ,,Nei, við lítum ekkert öðruvísi á þetta. Það sem gerðist í fyrra er búið og gert. Nú er að hefjast nýtt tímabil þar sem allir byrja með hreint blað. Okkar nálgun breytist ekkert.“

Það verður auðvitað missir úr klefanum af þeim góðu og gildu Blikum sem hafa yfirgefið okkur

Það hafa verið töluvert miklar breytingar á leikmannahópnum á milli ára, það eru komnir sjö nýir leikmenn og níu hafa hvatt félagið – eru þetta ekki ansi miklar breytingar á milli ára – hefur það áhrif, ertu að móta nýtt lið eða er gott að hrista vel upp í hópnum – hvernig horfir þú á þetta? ,,Það eru að mínu mati ekki miklar breytingar á hópnum. Af þeim sem léku mest fyrir okkur í fyrra hafa tveir yfirgefið liðið en aðrir eru enn innan okkar raða, ásamt frábærum leikmönnum sem við höfum bætt við okkur. Það verður auðvitað missir úr klefanum af þeim góðu og gildu Blikum sem hafa yfirgefið okkur og óska ég þeim alls hins besta í nýjum verkefnum.“

Erum með sambærilegan hóp að stærð og styrk

Ef þú lítur yfir leikmannahópinn og liðið í fyrra og í ár, ertu kominn með sterkara eða betra lið fyrir sumarið og finnst þér leikmannahópurinn vera breiðara en í fyrra? ,,Við teljum hópinn sambærilegan að stærð og styrk. Það er mikilvægt að vera með mikla og raunverulega samkeppni um allar stöður, og við erum mjög ánægð með samsetninguna á hópnum.“

Byggjum sjálfsmat okkar á frammistöðukúltúr

Óli Valur Ómarsson kom frá Sirius (Svíþjóð)

Íslandsmeistaratitillinn endaði í Kópavoginum í fyrra, nánar tiltekið Smáranum. Hver eru markmið Breiðabliks fyrir þetta tímabil – sjáið þið bara dollurnar fyrir ykkur og hvert ætla menn sér í Evrópukeppninni? ,,Við höfum lifað eftir því að taka einn dag í einu, einn leik í einu, eitt skref í einu og byggt sjálfsmat okkar á frammistöðukúltúr. Það hefur síðustu ár skilað frábærum árangri sem við ætlum okkur að sjálfsögðu að reyna að viðhalda.“

Er annað hvort í forgangi hjá Breiðablik, Íslandsmeistaratitilinn eða komast í riðlakeppni Evrópu- eða Sambandseildarinnar? ,,Það er ekki þannig að annað sé mikilvægara. Við leggjum okkur fram í öllum verkefnum og ætlum að gera vel, hvort sem það er í deild, bikar eða Evrópu. Það er engin forgangsröðun þar.“

Leikmenn sem við sækjum eru valdir inn í leikstílinn og kúltúrinn okkar

En hvernig er með uppleggið í ár, eiga stuðningsmenn Breiðabliks eftir að sjá svipaða fótbolta og áherslur í sumar eins og síðasta sumar eða ertu að breyta leikkerfinu út frá þeim breytingum sem hafa orðið leikmannahópnum á milli ára? ,,Leikmenn sem við sækjum eru valdir inn í leikstílinn og kúltúrinn okkar, og eiga þar með auðvelt með að aðlagast okkar gildum innan og utan vallar.“

Tobias Thomsen kom frá Torreense (Portúgal)

Það þarf aga, metnað og vinnusemi

En hvað þarf svo til að Breiðablik nái sínum markmiðum, hver er lykillinn að árangri fyrir Breiðablik á tímabilinu? ,,Við þurfum að mæta einbeittir í hvert verkefni, hvort sem það er æfing eða leikur. Það þarf aga, metnað og vinnusemi. Ekki síst snýst þetta um trú og að gefast aldrei upp, eins og sannaði sig svo vel á síðasta tímabili.“

Tökum á móti öllum andstæðingum af virðingu, fyrir þeim og okkur sjálfum

Fyrsti leikurinn í deildinni er á móti Aftureldingu á Kópavogsvelli, hvernig líst þér á þann slag, gott eða erfitt að byrja gegn nýliðum deildarinnar? ,,Bara gott að byrja á Kópavogsvelli og við tökum á móti öllum andstæðingum af virðingu, fyrir þeim og okkur sjálfum. Ég hef ekki lagt í vana minn að tala um önnur lið, þrátt fyrir að margir þjálfarar í deildinni hafi gert það að listgrein að tala um Breiðablik óspurðir.“

Markmiðasetning okkar er eingöngu frammistöðumiðuð fyrir einn leik í einu

Valgeir Valgeirsson kom frá Örebro (Svíþjóð)

Nú eru fyrstu þrír leikirnir af fimm á heimavelli. Það vita allir að það er mikilvægt að byrja vel, en hvaða kröfur gerir þú um stigafjölda eftir þessa fyrstu fimm leiki? ,,Tjaa eftir 4 leiki eigum við jafnmarga heima og úti og sama eftir 6 leiki. Við setjum okkur aldrei slík markmið eða önnur sem þú hefur ekki fulla stjórn á sjálfur. Markmiðasetning okkar er eingöngu frammistöðumiðuð fyrir einn leik í einu.“

Við finnum hvað það gefur liðinu mikið þegar fólk mætir og stendur með okkur

Og við megum ekki gleyma stuðningsmönnum Breiðabliks, en þið fenguð mjög góðan stuning í fyrra – Hversu mikilvægt er fyrir liðið að fá öflugan stuðning frá ykkar stuðningsmönnum á þessu tímabili – áttu von að menn haldi uppteknum hætti og bæti jafnvel í? ,,Það skiptir miklu máli. Stuðningurinn í fyrra var frábær og hafði áhrif bæði innan vallar og utan. Við finnum hvað það gefur liðinu mikið þegar fólk mætir og stendur með okkur – og við vonum að við fáum að upplifa það aftur í sumar. Í blíðu og stríðu. Það má þó aldrei gleyma að stuðningur er mikilvægastur þegar á móti blæs,“ segir Halldór, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks.

Komnir:
Tobias Thomsen frá Torreense (Portúgal)
Anton Logi Lúðvíksson frá Haugesund (Noregi)
Óli Valur Ómarsson frá Sirius (Svíþjóð)
Valgeir Valgeirsson frá Örebro (Svíþjóð)
Ágúst Orri Þorsteinsson frá Genoa (Ítalíu)
Ásgeir Helgi Orrason frá Keflavik (úr láni)
Dagur Örn Fjeldsted frá HK (úr láni)

Farnir:
Benjamin Stokke í Eik Tönsberg (Noregi)
Patrik Johannesen í KÍ Klaksvík (Færeyjum)
Tómas Orri Róbertsson í FH (var í láni hjá Gróttu)
Jón Sölvi Símonarson í ÍA (lán)
Kristófer Máni Pálsson í Grindavík
Oliver Sigurjónsson í Aftureldingu
Alexander Helgi Sigurðarson í KR
Ísak Snær Þorvaldsson í Rosenborg (Noregi) (úr láni)
Damir Muminovic í DPMM (Brúnei)

Forsíðumynd: Halldór ásamt eiginkonu sinni Helenu er liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn sl. haust.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins