Skólahljómsveit Kópavogs hefur í nægu að snúast nú sem endranær og er að fá í heimsókn til sín um helgina færeyska blásarasveit sem skipuð er úrvali ungs tónlistarfólks. Stjórnandi sveitarinnar, Bernhard Wilkinson er íslendingum að góðu kunnur en hann starfaði hér á landi um langt árabil sem flautuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann býr nú í Færeyjum og stjórnar meðal annars þessari frábæru blásarasveit sem nú hefur lagt land undir fót og verður á Íslandi um helgina. Þau munu nýta sér æfingaaðstöðu skólahljómsveitarinnar sem ber það skemmtilega heiti Tónhæð, til að undirbúa sig fyrir tvenna tónleika og verða fyrri tónleikarnir einmitt haldnir í Tónhæð, Álfhólsvegi 102, laugardaginn 5. október kl. 16.
Hljóðfæraleikararnir eru á aldrinum 14 -19 ára og eru þau sérvalin úr færeyskum blásarasveitum og mynda því nokkurs konar landslið Færeyinga í hljóðfæraleik. Á fjölbreyttri efnisskrá hljómsveitarinnar má finna útsetningar á þekktum sinfóníuverkum, spennandi kvikmyndatónlist, tónlist úr söngleikjum, djasstónlist og ný verk sem sérstaklega voru samin fyrir blásarasveitir.
Tónleikaferðalög eru mikilvægur þáttur í starfsemi allra ungmennahljómsveita og spennandi fyrir þau að spila tónlistina sína fyrir nýja áheyrendur. Við viljum hvetja Kópavogsbúa til að skella sér á tónleikana í Tónhæð og njóta færeyskra úrvalstóna.