Í vetur var ákveðið að skrá alla nemendur í 8. og 9. bekk Kópavogsskóla í Pangeastærðfræði-keppnina 2023. Fyrir þá sem vita ekki er Pangea stærðfræðikeppni sem fer fram ár hvert í mörgum löndum Evrópu. Alltaf bætast fleiri lönd í hópinn og árið 2016 tók Ísland þátt í fyrsta skipti. Meginmarkmið keppninnar er að hvetja nemendur í grunnskóla og auka áhuga þeirra á stærðfræði. Nemendum í 8. og 9. bekk úr öllum grunnskólum á Íslandi er boðið að taka þátt. Auk þess taka mörg þúsund evrópskir nemendur þátt í sínum löndum. Allir geta tekið þátt, sama hvar á landinu þeir búa.
Í ár var metþátttaka í keppninni en upprunalega voru 4.893 nemendur skráðir úr 66 skólum, 2.573 úr 8. bekk og 2.320 úr 9. bekk. Fyrsta umferð fór fram í lok febrúar og komust 14 nemendur úr 9. bekk og 22 nemendur úr 8. bekk úr Kópavogsskóla komust áfram í aðra umferð, en þetta samsvarar á milli 50 og 60% nemenda í hvorum árgangi fyrir sig.
Önnur umferð var svo haldin 23 febrúar og komust þrír nemendur úr 8. bekk og einn nemandi úr 9. bekk áfram í úrslitakeppnina sem er virkilega góður árangur hjá þessum nemendum. Úrslitakeppnin verður haldin í Menntaskólanum við Hamrahlíð laugardaginn 15. apríl og stendur dagskráin yfir frá 11:30 til 15:30. Við í Kópavogsskóla óskum þessum nemendum góðs gengis í keppninni og erum að rifna úr stolti yfir árangri hjá þessum nemendum sem og öllum nemendum sem tóku þátt í keppninni.
Á myndinni eru svo nemendurnir sem komust í úrslitin ásamt stærðfræðikennara sínum. Þetta eru þau Hanna Ísabella Gísladóttir, Emelía Rós Elíasdóttir, Aron Egill Brynjarsson úr 8. bekk og Juan Diego Gabriel Valencia úr 9. bekk ásamt Andra Þór Kristjánssyni, stærðfræðikennara í unglingadeild Kópavogsskóla.