Fjölbreytt og spennandi ljóðahátíð: Ljóðstafur Jóns úr Vör 20 ára

Ljóðstafur Jóns úr Vör verður afhentur við hátíðlega athöfn í Salnum 20.febrúar nk. en í ár eru 20 ár liðin frá því Ljóðstafur Jóns úr Vör var fyrst veittur. Af því tilefni verður ljóðinu í allri sinni dýrð fagnað á ýmsa lund með fjölbreyttum viðburðum sem fram fara á Dögum ljóðsins í Kópavogi 20. – 26. febrúar.

Fimmtudagskvöldið 24. febrúar kl. 20 mun ljóðahátíðin Suttungur fara fram Salnum í Kópavogi og er hátíðin hugsuð sem vettvangur til að efla tilraunakennda ljóðlist. Ásta Fanney Sigurðardóttir hefur veg og vanda af framkvæmd hátíðarinnar en á meðal þeirra sem fram koma eru skáldin Kristín Ómarsdóttir, Kött Grá Pjé, Ófeigur Sigurðsson og Sjón.

Föstudagskvöldið 25. febrúar kl. 20 mun Blekfjélagið, félag ritlistarnema við Háskóla Íslands, standa fyrir upplestrarkvöldi á Catalínu í Hamraborg þar sem nokkur Blekfjelagsskáld lesa úr eigin verkum og í kjölfarið gefst öllum sem vilja færi á að lesa úr verkum sínum.

Laugardaginn 26.febrúar verður mikið um dýrðir. Í opnu rými Smáralindarinnar verður sýnt hin ljóðræna dansverk The Mall eftir Sögu Sigurðardóttur en flytjendur koma úr danshópnum Forward with Dance. Verkið sem tekur um 20 mínútur í flutningi verður sýnt kl. 13 og 14. Á sama tíma mun Arndís Þórarinsdóttir leiða ljóðasmiðju á Bókasafni Kópavogs þar sem börnum og fjölskyldum býðst að snúa út úr tungumálinu á alla lund. Klukkan 15 hefst svo málþingið Afturgöngur og nýburar í ljóðheimum en á meðal þeirra sem fram koma eru Haukur Ingvarsson, Brynja Hjálmsdóttir, Bragi Valdimar Skúlason og fleiri. Viðburðurinn fer fram í Salnum í Kópavogi.

Á Bókasafni Kópavogs verður sýning á ljóðum sem bárust í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs og stendur hún yfir frá 21.-26. febrúar.

Ókeypis er á alla viðburði Daga ljóðsins og öll hjartanlega velkomin.

Á myndinni eru: Haukur Ingvarsson, Ragnar Helgi Ólafsson, Soffía Bjarnadóttir, Brynja Hjálmsdóttir, Bragi Valdimar Skúlason og Þórdís Helgadóttir koma fram á Dögum ljóðsins í Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar