Fjölbreytileika fagnað í forvarnarviku

Í dag, miðvikudaginn 6. október 2021 verður Forvarnardagurinn  haldinn í  grunn- og framhaldsskólum landsins. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og þá er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Á Forvarnardaginn ræða nemendur um nýjustu niðurstöður rannsókna á þeirra aldurshóp og hugmyndir sínar um samveru, íþrótta- og tómstundastarf og því að leyfa heilanum að þroskast og hvaða áhrif þessir verndandi þættir hafa á líf þeirra. Þau vinna í hópavinnu og skrá hugmyndir sínar; síðan er svörum safnað saman til að finna samnefnara í umræðum þeirra.
 
Í Kópavogi hófst forvarnarvikan sl. mánudag er félagsmiðstöðvar í Kópavogi buðu foreldrum upp á hinsegin fræðslu, þar sem Margrét Sigurðardóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur fór yfir stöðu máli er kemur að hinsegin fólki. Í kvöld, á sjálfum forvarnardeginum, bjóða síðan allar félagsmiðstöðvar í Kópavogi upp á fræðslu, umræður og léttar veitingar.

Amanda K. Ólafsdóttir er deildarstjóri frístundadeildar Kópavogs og hún heldur utan um forvarnarvikuna í Kópavogi. Kópavogspósturinn spurði hana nánar um Forvarnarviku frístundadeildar í Kópavogi, sem ber yfirskriftina í ár ,,Fögnum fjölbreytileikanum.“  

Mikilvægt að starfsfólk sé undibúið og tileinki sér að ræða hinsegin málefni

Hvað er í boði á Forvarnarvikunni og af hverju varð fjölbreytileikinn fyrir valinu í ár?
,,Á forvarnardaginn sjálfan miðvikudaginn 6. október munu allar félagsmiðstöðvar og ungmennahús í Kópavogi vera með hinsegin fræðslukvöld en þó með mismunandi sniði. En starfsfólk félagsmiðstöðva og ungmennahúss sátu nýlega námskeið og fengu þjálfun í að ræða og vinna með hinsegin málefni.
Félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi munu sömuleiðis taka þátt í Forvarnarvikunni og mun einn vinsælasti fyrirlesari landsins í dag Pálmar Ragnarsson halda fyrirlestur sem slegið hefur í gegn um jákvæð samskipti. Í fyrirlestrinum fjallar hann um hvernig við getum náð því besta fram úr fólkinu í kringum okkur með góðum samskiptum.
Ástæða fyrir vali yfirskriftar Forvarnarvikunnar í ár er einfaldlega sú að undanfarið hefur mikið verið í umræðu málefni tengt hinsegin sem og kynsegin. Í starfi okkar erum við að vinna með hópa af ungu fólki ár hvert og því mikilvægt að starfsfólkið sé undirbúið og tileinki sér að ræða hinsegin málefni.“

Hinsegin er regnhlífarhugtak

Og þið hafið lagt áherslu á hinsegin fræðslu í þessari viku – um hvað snýst hún og hvað er að vera hinsegin? ,,Hinsegin er regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki að viðmiðum samfélagsins um hefðbundið kyn. Til dæmis trans fólk, tvíkynhneigt fólk og samkynhneigt fólk.“

Láta mála fána tengt málefninu

Hinsegin fræðslan verður samblanda af vettvangsheimsóknum t.d. í hinsegin félagsmiðstöð sem og umræðum, ígrundun, spurningakeppni um hinsegin tónlistarmenn, leikara og fyrirmyndir til að sýna að hinsegin er allstaðar í samfélaginu. Félagsmiðstöðvarnar og ungmennahús leggja sig fram við að vera hinsegin vænni með því t.d. að mála fána tengt málefninu og hafa þá sýnilega í aðstöðu félagsmiðstöðvarinnar ásamt öðru. Það er mikilvægt að innan félagsmiðstöðvana og ungmennahúss sé starfsfólk sem ungt fólk getur leitað til varðandi hinsegin málefni. Það að geta opnað sig um hlutina í öruggu umhverfi er einn þáttur í því að auka vellíðan ungs fólks.“

Ungt tólk mjög opið og skilningsríkt

Er mikilvægt að vekja athygli og opna umræðuna um hinsegin fólk enn frekar? ,,Reynsla okkar er að ungt fólk er mjög opið og skilningsríkt og þekking þeirra er oft meiri en okkar fullorðinna. Í ljósi þess er mikilvægt að gefa þeim rými til þess að tjá sig og láta okkur vita hvernig þau upplifa sig og hver þekking þeirra er um hinsegin málefni. Eitt sem við erum að vinna með hjá okkur er að nota rétt fornöfn. Unglingarnir eru mikilvægur partur af þeirri þróun og hjálpa okkur að læra, þau sjálf eru mjög dugleg að kenna rétta fornafna notkun. Það getur sært miskynja einstaklinga að nota röng fornöfn enda er sú skilgreining stór partur af þeirra sjálfsímynd. Orðræðan skiptir líka máli, það að ræða hlutina með upplýsandi hætti og af virðingu hjálpar til við að draga úr fordómum.“

En eins og þú segir að þá eru þið ekki eingöngu að fjalla um hinsegin málefni í Forvarnarvikunni heldur eru þið líka að leggja áherslu á jákvæð samskipti? Hvað eru þið að gera í tengslum við það? ,,Félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi taka líka þátt í Forvarnarvikunni okkar og það kom hugmynd um að hafa fræðslu sem tengist jákvæðum samskiptum. Heilbrigð og jákvæð samskipti eru mikilvæg okkur öllum í okkar daglega lífi, sama á hvaða aldri við erum. Góð samskipti getur verið lykill að jákvæðum tengslum við aðra og gerir lífið mun gleðilegra og innihaldsríkara. Á tímum Covid-19 held ég að það hafi sjaldan verið eins mikil þörf og nú fyrir að tileinka sér góð samskipti. Við könnumst flest við hvað það gefur manni mikið þegar einhver gefur sér tíma til að hlusta á mann, hvetur mann áfram eða heilsar manni með bros á vör. Samskiptafærni er því mikilvæg í öllu sem við kemur mannlegum tengslum. Jákvæð og vingjarnleg samskipti smita út frá sér og getur haft góð áhrif á aðra. Það að tileinka sér jákvæð samskipti getur því verið einn þáttur í að auka vellíðan hjá fólki,“ segir Amanda að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar