Fjögurra ára stórfelld þjónustuskerðing blasir við – minnihlutinn vill fresta lokun Sorpu við Dalveg

Á síðasta fundi bæjarstjórnar var lögð fram tillaga frá fulltrúum minnihlutans í bæjarstjórn, um frestum lokunar Sorpu við Dalveg. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi bæjarráðs 13. febrúar sl. og óskað eftir kynningu frá Sorpu um viðbragðáætlun við fyrirhugaðri lokun stöðvarinnar við Dalveg, en nú hefur bæjarráð hafnað tillögu um að fresta lokun Sorpu við Dalveg.

Engin nauðsyn er á að loka á starfsemina fyrr en að nýrri uppbyggingu kemur

Tillaga frá fulltrúum minnihlutans í bæjarstjórn um frestun á lokun Sorpu við Dalveg hljóðaði svo: ,,Eftir langa leit hefur nýrri endurvinnslustöð Sorpu fyrir Kópavog og Garðabæ loks verið fundinn staður efst á Glaðheimasvæðinu í Kópavogi. Samkvæmt upplýsingum frá Sorpu má gera ráð fyrir að það taki 2 – 4 ár að að koma þeirri stöð í virkni. Stöðin tekur við 18% af heildarlosun höfuðborgarsvæðisins á endurvinnslustöðum og hafa stjórnendur Sorpu lýst áhyggjum sínum af því ástandi sem getur skapast þar til ný stöð kemst í gagnið. Borgaryfirvöld hafa bent á að endurvinnslustöðvar Sorpu þar séu fullnýttar og anni ekki því viðbótarálagi sem skapast við lokun í Kópavogi.
Bæjarstjóri Kópavogs hefur sett fram kröfu um að endurvinnslustöð Sorpu á Dalvegi víki ekki síðar en 1. september 2025. Við Kópavogsbúum og öðrum sem nýta þjónustu endurvinnslustöðvarinnar blasir allt að fjögurra ára stórfelld þjónustuskerðing. Ekki liggja fyrir hugmyndir um nýtingu svæðisins við Dalveg eftir lokun Sorpu en athugun á því er í burðarliðnum. Gera má ráð fyrir að vinnsla nýrra hugmynda taki 1-2 ár hið skemmsta áður en hægt verður að byrja uppbyggingu á svæðinu. Engin nauðsyn er á að loka á starfsemina fyrr en að nýrri uppbyggingu kemur.
Því er lögð fram tillaga um að fresta lokun Sorpu við Dalveg þar til ný uppbyggingaráform liggja fyrir og koma til framkvæmda.“

Lokum veldur verulegri skerðingu á þjónustu við bæjarbúa

Eins og áður segir þá hafnaði meirihluti bæjarráðs tillögunni og lagði minnihlutinn þá fram eftirfarandi bókun þar sem minnilutinn harmar ákvörðun meirihlutans að hafna tillögunni. ,,Það liggur fyrir að endurvinnslustöð á Glaðheimasvæðinu verður ekki fullbúin fyrr en eftir 2-4 ár. Lokun stöðvarinnar við Dalveg þann 1. september næstkomandi mun valda verulegri skerðingu á þjónustu við bæjarbúa. Ljóst að aðrar stöðvar Sorpu á höfuðborgarsvæðinu eru þegar fullnýttar og ráða illa við aukið álag. Undirritaðar leggja því enn og aftur áherslu á að endurvinnslustöðinni við Dalveg verði ekki lokað fyrr en þörf er á að nýta lóðina undir annað. Jafnvel þótt komið yrði upp móttökustöð til bráðabirgða er ljóst að slík stöð mun aldrei veita sömu þjónustu og núverandi endurvinnslustöð við Dalveg gerir.“

Tímabundna ástandi vegna flutninganna verður mætt með aðgerðaráætlun sem Sorpa hefur kynnt

Meirihlutinn svaraði því flutningur á endurvinnslustöðinni á Dalvegi yfir í Glaðheima muni tryggja íbúum Kópavogs og nágrannasveitarfélaga betri þjónustu en er í dag enda er núverandi stöð á Dalvegi barn síns tíma og hefur um langt skeið ekki uppfyllt öryggiskröfur. ,,Óhjákvæmilega fylgir því alltaf rask þegar breytingar verða á starfsemi en þær breytingar sem hér eru til umræðu eru löngu tímabærar að mati meirihlutans, enda var lóðinni á Dalvegi úthlutað tímabundið undir endurvinnslustöð fyrir rúmlega 30 árum, árið 1991. Þessu tímabundna ástandi vegna flutninganna verður mætt með aðgerðaráætlun sem Sorpa hefur kynnt og telur meirihlutinn að sú áætlun muni tryggja fullnægjandi þjónustu við íbúa á meðan breytingarnar ganga yfir. Meðal annars felur aðgerðaráætlunin í sér að komið verði upp bráðabirgða endurvinnslustöð á þeirri lóð sem fyrirhuguð er undir endurvinnslustöðina í Glaðheimum,“ segir í bókun meirihlutans.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins