Finnst þér gaman að keyra í holu?

Á fundi Umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs þann 18. apríl var til umfjöllunar erindi undirritaðs varðandi verkferla bæjarins um skemmdir á malbiki. Erindið snýr að því að fá á hreint í hvaða tilfellum bærinn beri ábyrgð á tjóni sem bíleigendur verða fyrir vegna skemmda á malbiki.

Á fundinum kom fram að tjón vegna skemmda sem bærinn, sem veghaldari, vissi um ættu bíleigendur að fá bætt en ekki vegna skemmda sem bærinn vissi ekki um. Grundvöllurinn er því að við íbúar bæjarins tilkynnum um tjón sem við verðum vör við á malbiki. Bærinn býður nokkuð margar leiðir til að tilkynna um slikt, ábendingasíðu á vef bæjarins, tölvupóst eða símtöl til þjónustuvers, þjónustumiðstöðvar eða gatnadeildar og að lokum er einnig er hægt að tilkynna það í gegnum smáforrit FÍB. Því miður virðist ekkert bóla á Kópavogs-smáforritinu sem lofað hefur verið og ætlað er að einfalda íbúum tilkynningar.

Hvað varðar ábyrgð veghaldara eru margir vegir í bænum á ábyrgð Vegagerðarinnar og því alls ekki víst að bærinn beri alltaf ábyrgð á þeim skemmdum sem kunna að vera á malbikinu. Bærin tekur samt við öllum tilkynningum og kemur áleiðis til Vegagerðarinnar ef svo ber undir. Til að fá tjón sitt bætt þurfa bíleigendur í öllum tilfellum að sækja það til tryggingafélags veghaldara. Sé tjónið vegna skemmdar sem þegar hefur verið tilkynnt bætir tryggingafélagið það. Með því að tilkynna um skemmdirnar getum við því saman stuðlað að því að gengið sé í að laga þær og að þau sem lenda í tjóni fái það bætt.

Indriði Stefánsson, varabæjarfulltrúi Pírata.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar