Fáum við að flokka betur?

Flokkun á heimilissorpi hefur aukist töluvert undanfarin ár og flest heimili flokka að einhverju leyti. Árið 2016 bauð Kópavogsbær upp á bláa tunnu við hvert heimili þar sem má henda bæði plasti og pappa. Ég man þegar þessar tunnur komu í gagnið og var mjög sátt við það. Áður fór ég alltaf með okkar pappa og plast í grenndargáma eða á Sorpu. Tilkoma bláu tunnanna auðveldaði mér og minni fjölskyldu flokkunina. Vinstri græn í Kópavogi vilja auðvelda öllum bæjarbúum að taka enn fleiri vistvæn skref.

Hvernig gengur að flokka?

Á mínu heimili er flokkað í almennt sorp, plast, pappa, ál, gler, kertaafganga, batterí, textíl og flöskur í endurvinnslu. Ég bý í blokk við Engihjalla og eins og gefur að skilja þá eru ekki tunnur fyrir utan hjá mér heldur gámar vegna stærðar húsnæðis. Fyrir utan mína blokk eru aðeins 5 bláir gámar en í ruslageymslunni eru 10 svartir gámar fyrir almennt sorp. Almenna sorpið er tæmt vikulega en bláu gámarnir eru tæmdir á 14 daga fresti, það er samt ekki nógu oft. Bláu gámarnir fyllast á fyrstu dögunum eftir tæmingu og ef vel ætti að vera þá þyrfti að tæma þá vikulega.

Stjórn húsfélagsins hefur haft samband við Kópavogsbæ og óskað eftir tæmingu vikulega en það er ekki hægt. Það er eingöngu hægt að bjóða upp á fleiri gáma fyrir utan húsið og vegna plássleysis þá gengur það ekki upp. Grenndargámar eru í hverfum Kópavogs sem taka ýmist við plasti, gleri, fatnaði og flöskum. Hins vegar eru engir gámar sem taka við pappa. Þar af leiðandi sit ég uppi með flokkunina inn á heimilinu þar til gámarnir hafa verið tæmdir, það er ef ég á ekki leið á Sorpu í millitíðinni og kippi því með.

Flokkun fyrir okkur öll

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hafa lagt til samræmt sorphirðukerfi við heimili með fjórum flokkum. Það er lífrænn eldhúsúrgangur, blandað heimilissorp, plastumbúðir og pappír og pappi. Nú er mér spurn hvernig Kópavogsbær ætlar að mæta íbúum með til að mynda lífrænan úrgang? Mun ég þurfa að geyma hann inni hjá mér í heila viku áður en ég get hent honum í þar til gerðan gám því vegna plássleysis þá getur blokkin eingöngu haft fáa slíka gáma fyrir utan? Ef það verður tilfellið er ég ansi hrædd um að enginn flokki lífrænt frá almennu sorpi vegna lyktar og mögulegs sóðaskapar þurfi maður að geyma það inni við.

Vinstri græn í Kópavogi vilja auðvelda íbúum að flokka sorp. Flokkun skiptir miklu fyrir umhverfið og Vinstri græn vilja skila umhverfinu til sinna afkomenda í betra ástandi.

Göngum lengra með Vinstri grænum í Kópavogi.

Ásta Kristín Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi MA og situr í 2. sæti fyrir VG í Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar