Fá ekki að fjölga um 10 íbúðir í Nónhæð

Bæjarráð hefur hafnað erindi Nónhæðar ehf um breytingu á deiliskipulagi í Nónhæð þar sem fyrirtækið óskaði m.a. annars eftir að fjölga íbúðum um 10, en Kristinn Dagur Gissurarson og J. Júlíus Hafsteinn sem sitja í skipulagsráði Kópavogs finnst ákvörðunin athyglisverð.

Nónhæð ehf sendi inn erindi til skipulagsráðs Kópavogs í byrjun árs þar sem fyrirtækið sótti um breytingu á deiliskipulagi á lóðunum Nónsmára 1-7 og 9-15. Í breytingunni felst að á lóðinni Nónsmára 1-7 fjölgar íbúðum úr 55 í 60 og á lóðinni Nónsmára 9-15 fjölgar íbúðum úr 45 í 50. Heildarfjölgun íbúða er alls 10 íbúðir. Einnig sótti fyrirtækið um hækkun byggingarreita þannig að hús nr. 1 og 9 hækki úr tveimur hæðum í þrjár og hús númer 5, 7, 13 og 15 úr fjórum hæðum í fimm hæðir. Byggingarmagn á lóðunum eykst úr 15.600 m² í 17.300 m² og nýtingarhlutfall hækkar úr 0,5 í 0,6. Bílastæðum neðanjarðar fjölgar úr 82 í 104 en bílastæðum ofanjarðar fækkar úr 125 í 122.

Skýtur skökku við að hafna breytingunni á deiliskipulagi

Eftir að tillagan hafi verið auglýst að nýju og farið yfir hana hafnaði skipulagsráð Kópavogs erindinu með fimm atkvæðum gegn tveimur og létu þá Kristinn Dagur Gissurarson og J. Júlíus Hafsteinn bóka eftirfarandi: ,,Sú afgreiðsla skipulagsráðs að hafna fjölgun íbúða við Nónsmára 1- 7 er athyglisverð. Sýnt hefur verið fram á að hækkun húsanna norðanvert úr tveimur í þrjár hæðir (eins og er í Arnarsmára 36 -40) og inndreginni fimmtu hæð að hluta veldur aðliggjandi byggð nánast engum neikvæðum áhrifum. Skipulag er ekki meitlað í stein og rétt að benda á að nýtt aðalskipulag gengur út á að þétta byggð og nýta innviði þar sem það er hagkvæmt. Því skýtur það skökku við að hafna breytingu á deiliskipulagi sem þjónar markmiðum Aðalskipulagsins. Að vísa í mótmæli og fundi með þeim sem voru andsnúnir þeirri breytingu að skilgreiningu landsins yrði breytt úr stofnanasvæði í íbúabyggð hefur í raun ekkert vægi hvað þessa ósk varðar. Ekkert samkomulag var gert við mótmælendur á sínum tíma eftir fjölda funda. Breyting sú sem kynnt var gerir húsin mun betri en áður og svokallað borgarlandslag enn betra.“

Bæjarráð staðfesti svo afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum í síðustu viku og hafnaði erindinu með 4 atkvæðum, en Andri Steinn Hilmarsson sat hjá við atkvæðagreiðslu.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar