Eliza Reid forsetafrú var á meðal gesta

Sýningaopnanir á HönnunarMars í Kópavogi

Fjölmargir lögðu leið sína á HönnunarMars í Kópavogi 20. maí þegar ÞYKJÓ opnaði sýningu á afrakstur hönnunarstarfs síns í Salnum, Gerðarsafni og Bókasafni Kópavogs og Gerðarsafn opnaði sýningarnar GERÐUResque og Fylgið okkur. Meðal gesta voru Eliza Reid forsetafrú og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs. (Mynd: Saga Jónsdóttir sýningarstjóri Fylgið okkur, Eliza Reid forsetafrú, Þórey Einarsdóttir stjórnandi Hönnunarmars, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi og Brynja Sveinsdóttir forstöðumaður Gerðarsafns.)

Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari leiddi tónlistar- og hugleiðslustund í tengslum við sýningu á Kyrrðarrýmum ÞYKJÓ í Gerðarsafni.

Á sýningu ÞYKJÓ er hægt að njóta og fara inn í undurfalleg Kyrrðarrými í Gerðarsafni. Kyrrðarrýmin eru innblásin af kuðungum, skeldýrum og skúlptúrum Gerðar Helgadóttur. Í Salnum er innsetningin Fuglasöngvar, unnin í samstarfi við Sóleyju Stefánsdóttur tónlistarkonu og Blindravinnustofu og í Bókasafni Kópavogs erbúningainnsetning úr línunni Ofurhetjur jarðar. Þar geta krakkar prófað búninga sem virkja ímyndunarafl í frjálsum leik.
 
Sýningin Fylgið okkur í Gerðarsafni teflir fram völdum verkum frá nýjum og upprennandi íslenskum hönnuðum sem eru nýsprottnir fram á sjónarsviðið. Sýningarstjóri er Sara Jónsdóttir fyrrum stjórnandi HönnunarMars. Sýningin GERÐUResque býður svo upp á verk meistaranema við LHÍ þar sem efniviður, viðfangsefni og tækni Gerðar Helgadóttir er notað sem innblástur fyrir þeirra eigin listsköpun.

Sýningastjórar GERÐAResque eru MA nemar í sýningargerð við Listaháskóla Íslands og í listgagnrýni og sýningarstjórnun við Háskóla Íslands.

Sigríður Sunna listrænn stjórnandi ÞYKJÓ sýnir Elizu Reid forsetafrú og Þóreyju Einarsdóttur stjórnanda HönnunarMars fuglahreiðrin í Salnum.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Eliza Reid forsetafrú taka inn listina í Fylgið okkur.
Grímuklæddir gestir á sýningunni Fylgið okkur á HönnunarMars.
Gestur á Fylgið okkur
Gestir á GERÐUResque
Eliza Reid forsetafrú virðir fyrir sér Kyrrðarrými ÞYKJÓ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar