Ekki láta gæði umhverfis líða fyrir fjárhagslega hagsmuni verktaka

„Draumaborgin ætti að vera ríkulega gædd náttúru, með byggingum úr lífrænum efnum sem eru umkringdar almenningsgörðum, með götum sem þjóna fótgangandi og hjólandi og með svæðum þar sem villt náttúra fær notið sín.“

Þetta mun kanadíski arkitektinn Michael Green hafa sagt og vitnað var til á Skipulagsdeginum, árlegri ráðstefnu Skipulagsstofnunar. Yfirskriftin var „Skipulag fyrir nýja tíma“ og var sjónum m.a beint að þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir með tilliti til lífsgæða og sjálfbærni í byggðu umhverfi. Þar var einnig farið yfir átak Evrópusambandsins „New European Bauhaus“ um þróun hins byggða umhverfis.

Í átakinu felst að uppbygging húsnæðis sé sjálfbær og á forsendum fólksins. Skipulag á að ýta undir vellíðan og jafnt aðgengi allra að lífsgæðum, sjálfbærum lausnum þar sem fagurfræði bygginga og umhverfis er höfð að leiðarljósi. Við eigum að skapa sátt og samlyndi við umhverfið og tryggja góðar búsetuaðstæður. Með öðrum orðum: gæði húsnæðis og nærumhverfið á að vera í fyrirrúmi, fyrir íbúana.

Skipulag hefur mikil áhrif á lýðheilsu. Um það vitna fjölmargar rannsóknir. Birtuskilyrði, hljóðgæði og loftgæði í íbúðum ásamt hæð bygginga og fjarlægð milli húsa er algjör grunnforsenda fyrir því að fólki líði vel. Hlutfall opinna grænna svæða þar sem sólar nýtur bróðurpart dags er hreint og klárt lýðheilsumál.

Sjálfbærni er líka eitt þeirra markmiða en það felur í sér að uppbygging hefur jákvæðar afleiðingar fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Þannig mætum við þörfum nútímans án þess að skerða möguleika þeirra sem á eftir koma. Of þétt byggð hefur með öðrum orðum neikvæðar afleiðingar fyrir heilsu og líðan íbúa.

Ég skrifa þessa grein því ég hef áhyggjur af þróun skipulagsþéttingar í Kópavogi þar sem við horfum upp á að varla verður hægt að stinga niður tré því fyrirætlanir um steypuframkvæmdir eru svo fyrirferðarmiklar. Íbúar kalla eftir samráði en þeim er mætt með því sem næst einhliða upplýsingafundum. Kópavogsbær hefur samþykkt að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Það markmið snýst um að fjölgun í þéttbýli eigi að vera sjálfbær og að íbúar taki þátt í skipulagsmálum og samkomulagi um sjálfbærni.

Fulltrúar fólksins í sveitarstjórn þurfa að standa í lappirnar gagnvart því að láta fjárhagslega hagsmuni verktaka ráða ferðinni. Það er einmitt hlutverk sveitarstjórnar að tryggja hagsmuni fólksins og fylgja eftir samþykktum markmiðum. Þrátt fyrir markmið um þéttingu byggða og breyttar ferðavenjur þá þarf að tryggja að byggingarmagn sé ekki of mikið, ekki sé byggt of þétt og ekki má heldur treysta á byggingartæknilegar aðgerðir til að redda gamaldags skipulagi. Of mikil steypa á of litlum byggingarreitum, sem kemur í veg fyrir möguleika á grænum svæðum og sjálfsagða birtu í híbýlum fólks gengur þvert á allar hugmyndir um þarfir fólks, sem þó snúast bara um sjálfsögð lífsgæði. Að líða vel heima hjá sér. Ég óska Kópavogsbúum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með þakklæti fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Oddviti BF Viðreisnar í Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar