Ekkert nema toppleikur dugar til sigurs

Breiðablik mætir KR í stórleik fyrstu umferðar Pepsí-Max deildar karla í dag kl. 19:15 á Kópavogsvelli.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er að hefja sitt annað tímabil sem þjálfari Breiðabliks. Blikar enduðu í fjórða sæti í fyrra, en samkvæmt árlegri spá þjálfara og fyrirliða liðanna í Pepsí-Max deildinni þá er Breiðabliki spáð Íslandsmeistaratitlinum.  KR-ingum var spáð 4. sæti í sömu spá.

Breiðablik hefur gert vel á leikmannamarkaðinum en þeir hafa fengið ,,gömlu“ Blikana, Árna Vilhjálmsson úr atvinnumennsku og Finn Orra Margeirsson frá KR, aftur heim auk þess sem Davíð Örn Atlason kom frá Víkingi og Jason Daði Svanþórsson frá Aftureldingu. Aftur á móti missti liðið þá Brynjólf A. Willumsson, Guðjón Pétur Lýðsson og Karl F. Gunnarson og Gunnleifur Gunnleifsson lagði skóna á hilluna.

Gefur okkur tækifæri til að sjá hvar við stöndum

Óskar Hrafn ásamt Halldóri aðstoðarþjálfara Breiðabliks

En mótið er farið af stað og það er stórleikur strax í fyrstu umferð hjá Óskari og félögum í Breiðablik því gamlir félagar Óskars úr vesturbænum, KR,  mæta í heimsókn á Kópavogsvöll í kvöld. Hvernig líst þér á leikinn, fínir mótherjar í fyrsta leik? ,,Mér líst mjög vel á leikinn gegn KR. Það er öflugt og vel mannað lið og gefur okkur tækifæri til að sjá hvar nákvæmlega við erum staddir í byrjun móts. Við vitum að ekkert nema toppleikur af okkar hálfu dugar til að fara með sigur af hólmi. Það er auðvitað mjög leiðinlegt að leikurinn sé spilaður í skugga takmarkanna á áhorfendafjölda en það er veruleikinn sem við búum við núna og við þurfum að sjá til þess að þeir 200 áhorfendur sem fá að mæta á leikinn skemmti sér.

Finnst hópurinn sterkari en í fyrra

Það hafa orðið nokkrar breytingar á leikmannahópnum, ánægður með þær breytingar sem hafa orðið og eruð þið enn að leita að leikmönnum til að styrkja hópinn? ,,Ég er mjög sáttur við hópinn og finnst hann sterkari en í fyrra. Við munum koma til með sakna Brynjólfs en öflugir leikmenn hafa komið í vetur og styrkt hópinn bæði innan vallar og utan. Ég hef nú sagt að leikmannahópurinn sé hreyfanlegt afl og við erum alltaf að leita leiða til að styrkja hópinn á einn eða annan hátt.“

Höfum æft mjög vel

Þetta er búið að sérstakt undirbúniningstímabil út af samkomutakmörkunum – hvernig kemur liðið undirbúið til leiks – hvernig hafið þið æft? ,,Við höfum æft mjög vel. Vissulega setti pásan nú í lok mars og byrjun apríl smá strik í reikninginn en ég held að liðin hafi almennt náð að nýta þessa fjóra mánuði sem buðust án stoppa og æfingatakmarkana vel.“

Spá er bara spá

Ykkur er spáð Íslandsmeistaratitli af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í PepsiMax deildinni – hvað segirðu um þá spá – ertu með meistaralið í höndunum og markmiðið að fara alla leið? ,,Spá er bara spá. Hver og einn hefur mismunandi forsendur fyrir sinni spá þannig að það stoðar lítið fyrir okkur að rýna mikið í þær. Við teljum okkur vera með gott lið en það þarf síðan að sýna það inni á vellinum. Markmiðið er að sýna að við höfum lært af síðasta sumri og vera í baráttu um alla titla sem í boði eru.“

Fyrsti leikur í móti hefur oft sitt eigið líf

En þú ert brattur fyrir leikinn á móti KR og mikilvægt að taka þrjú stig á heimavelli? ,,Það er mikil tilhlökkun fyrir KR-leiknum. Fyrsti leikur í móti hefur oft sitt eigið líf en við mætum vel undirbúnir,“ segir Óskar Hrafn að lokum.

Forsíðumyndin er af Gísla Eyjólfssyni, einn af lykilleikmönnum Breiðabliks og Óskari Hrafni (Myndir: Breiðablik)

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar