Erna Vala Arnardóttir píanóleikari kemur fram á hádegistónleikum í Salnum miðvikudaginn 15.september en á efnisskrá er einungis eitt verk, píanótónverkið Kreisleriana eftir Robert Schumann – verk sem gjarnan telst til lykiltónverka píanóbókmenntanna og eitt af helstu verkum tónskáldsins þýska.
Ljós og myrkur
Schumann samdi Kreisleriönu á aðeins þremur dögum árið 1838 en verkið, sem er í átta þáttum, tekur um hálftíma í flutningi og gerir gríðarlegar kröfur til flytjandans, bæði hvað áhrærir tækni og túlkun. Titillinn Kreisleriana vísar í skáldafígúru úr heimi sagnaskáldsins E. T. A. Hoffmans; Jóhannes Kreisler kom fyrir í nokkrum skáldsögum hans, einrænn, ástríðufullur og myrkur. Ástríðuna og myrkrið má að sönnu heimfæra upp á píanóverkið Kreisleriönu en einnig angurværð, blíðu og mýkt enda einkennist þetta magnaða verk af miklum skapsveiflum og andstæðum og ætti ekki að láta neinn ósnortinn.
Margverðlaunaður píanóleikari
Erna Vala Arnardóttir, sem fædd er árið 1995, hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir píanóleik sinn, hérlendis og erlendis og komið fram sem einleikari og gestalistamaður á ýmsum virtum hátíðum. Hún stundar nú doktorsnám í píanóleik við USC Thornton School of Music en lauk áður BA-gráðu frá LHÍ og meistaragráðu í píanóleik við Síberlíusarakademíuna í Helskinki. Hún stofnaði sumarið 2020 Íslenska Schumannfélagið sem stefnir að heilbrigðu og fjölbreyttu menningarlífi á Íslandi.
Tónleikar Ernu Völu eru innan viðburðaraðarinnar Menning á miðvikudögum og hefjast kl. 12:15 í Salnum. Aðgangur er ókeypis en ráðlegt er að bóka miða á vefsíðu Salarins á www.salurinn.is
Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar styrkir Menningu á miðvikudögum.